Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:35:28 (4812)

1996-04-16 17:35:28# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf enn að leiðrétta þann misskilning sem gætt hefur í máli manna hér og nú síðast í máli hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Það er það að menn breyti einkarekstri í ehf. Geri menn það, þurfa þeir að leggja fram hlutafé í einhverju formi sem skattstjóri viðurkennir. Annað er að gera það með því formi að leggja fram a.m.k. 400 þús. kr. og þá geta menn fengið 40 þús. kr. á ári skattfrjálst frá fyrirtækinu. Hitt er að skattar bæði á fyrirtæki og einstaklingi, eins og ég kom inn á áðan, eru hærri en ef menn borguðu bara sjálfum sér. Ég skil því ekki þetta dæmi hv. þm.

Ef menn leggja fram hærri upphæð, t.d. íbúðina sína, þá eru ákvæði um að það megi reikna mönnum leigu og það er gert. Og þá þarf að borga skatta af þeirri leigu. Þessar 400 þús. kr. sem þeir leggja í þetta ehf. sem hlutafé geta þeir alveg eins lagt í banka eða keypt fyrir þær spariskírteini og fengið arðinn skattfrjálsan. Í dag er þessi möguleiki fyrir hendi og hann er miklu vænlegri í dag en hann verður eftir að búið er að samþykkja 10% skatt á vexti. Í dag er enginn skattur á vexti og að sjálfsögðu geta menn breytt öllum þessum einkarekstri í svona fyrirbæri, ehf., ef menn kæra sig um og ef skattstjóri samþykkir það.

Varðandi það að lækka skatta á hátekjumenn er rétt hjá hv. þm. að skattur á arð lækkar, sérstaklega háan arð. En þessir menn geta alveg eins keypt spariskírteini í dag. Af hverju eiga þeir sem eiga stórar fúlgur í spariskírteinum ekki að borga skatta en bara þeir sem fá arð? Og ef menn eru með háar tekjur af arði geta þeir komið því yfir í vexti og borga þá engan skatt í dag. Þetta minnkar því möguleika á skattsvikum.