Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:37:39 (4813)

1996-04-16 17:37:39# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:37]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði hef ég leitað mjög í smiðju til endurskoðenda og skattsérfræðinga út af þessu máli og til svars því sem hv. þm. sagði ætla ég að gefa honum eitt dæmi.

Rekstrarhagnaður einstaklinga og sameignarfyrirtækja var 7 milljarðar kr. árið 1994. Þeir eru nú skattlagðir með liðlega 40% skatti og að viðbættu tryggingagjaldi gaf þetta skattyfirvöldum 3,1 milljarð í tekjuskatt plús tryggingagjald. Nú gaf ég þessum endurskoðanda það dæmi að þessir aðilar breyttu um rekstrarform og yrðu ýmist ehf. eða hf. Endurskoðandinn benti á að til þess að finna út breytingarnar yrði nauðsynlegt að reikna út a.m.k. tvö tilvik.

Það sem hagstæðast var ríkissjóði var það að við gáfum okkur að helmingurinn yrði innan en helmingurinn utan þessara skattfrjálsu 10% marka arðs og þá væri niðurstaðan sú að tekjurnar yrðu 1,7 milljarðar og skattalækkunin sem þessir aðilar tryggðu sér væri upp á 1,4 milljarða kr. Ég tek það fram að þetta er hagstæðasta dæmið af þremur sem ég fékk frá þessum endurskoðanda um áhrif þessarar formbreytingar, þ.e. hvernig þessir aðilar mundu nýta sér tilboð ríkisstjórnarinnar um að færa til fjármagn sitt af skatthagræði, breyta um rekstrarform og njóta lækkunarinnar sem í þessum tillögum felst.