Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:47:25 (4818)

1996-04-16 17:47:25# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:47]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að í erindisbréfi nefndarinnar hafi verið talað um fjármagnstekjuskatt. Nefndarmenn hafa rökstutt verk sitt með þannig að þeir hafi þar verið að líta á allar hliðar þess máls. Ég ætla ekki að fara að gera hér enn einu sinni að umtalsefni þessa ágætu bókun en það sem mér finnst skipta mjög miklu máli er það atriði sem hv. þm. gerði að sínu meginmáli sem er þessi möguleiki fyrirtækja til að breyta rekstrarformi sínu og greiða út arð og koma sér þar með undan skatti. Þetta er auðvitað meginspurning og að því er ekki vikið í þessu áliti. Í ljósi þess hljótum við að spyrja, og ég mun ganga í að kanna það mál betur, hvernig þetta er allt vaxið. Við munum að sjálfsögðu gera það í hv. efh.- og viðskn. Mér finnst þetta mjög stórt mál, ég ítreka það. En ég endurtek spurningu mína sem hv. þm. getur ekki svarað. Er meiri hluti hér á þingi í þessu máli? Er verið að leiða í ljós þætti sem nefndin hafði ekki skoðað nægilega vel? Reyndar hefur það verið tekið fram af nefndarmönnum að auðvitað kynnu að vera þar ágallar á sem væri hlutverk Alþingis að bæta úr. En eins og málið stendur núna, er ég farin að efast um að hér sé nokkur meiri hluti. Og hvert erum við þá að halda í þessu máli öllu saman?