Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:55:18 (4822)

1996-04-16 17:55:18# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:55]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka ummæli forseta og að málið hafi komið til umfjölunar í forsn. Ég vænti þess þá að hæstv. forseti láti stjórnarliða í efh.- og viðskn., a.m.k. formanninn sem á að stýra málum í vinnslu á vegum Alþingis, vita af því að þetta mál er hér til umræðu. Það er ekki bara eðlilegt heldur óhjákvæmilegt að formaður þeirrar nefndar, sem á að taka við hverju málinu á fætur öðru sem verið er að ræða hér á löngum þingfundum efnislega dag eftir dag, sjái sóma sinn í að vera viðstaddur þær umræður. Að formaður nefndar skuli gera sig sekan um að vera fjarverandi hvern daginn á fætur öðrum sem slík mál eru rædd er vanvirða, ekki síst eftir að forsn. hefur fjallað um málið og beint þeim tilmælum til þingmanna sem um mál eiga að fjalla að þeir fylgist með efnislegum umræðum sem eiga sér stað áður en það vinnsluferli hefst á vegum Alþingis. Ég man satt að segja ekki eftir því, og er ég nú búinn að sitja hér nokkuð lengi, að formenn þingnefnda hafi komið sér hjá því að vera viðstaddir þegar mál eru tekin til 1. umr. sem eru jafnumdeild og viðamikil og þau mál sem hér er verið að fjalla um.