Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 18:20:37 (4829)

1996-04-16 18:20:37# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[18:20]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa sett fram nokkra gagnrýni á það að ekki hafi nægjanlegt samráð verið haft við sveitarfélögin í nefndarstarfinu og sett fram fullyrðingar um það að sveitarfélögin verði af umtalsverðum fjármunum verði þetta að lögum. Ég mun beita mér fyrir því við sveitarfélögin og fjmrn. að reyna að komast til botns í því um hvaða upphæðir er að ræða og hvernig úr því skuli bæta.

Um þetta mál vil ég segja að þegar ég sá þetta frv. þá sá ég vissulega á því ákveðna galla en einn meginkost. Hann var sá að það væri pólitísk samstaða um þetta mál. Ég sá undirskriftir nefndarmanna og vissi ekki betur en um pólitíska samstöðu þeirra væri að ræða og það taldi ég ekki vera lítils virði. Síðan las ég bókun sem prentuð er sem fskj. og vitna til hennar, herra forseti:

,,Í ljósi þess sem að ofan greinir skrifa undirrituð undir nefndarálitið og telja það ásættanlegt með vísan til bókunar þessarar, en áskilja sér allan rétt í málinu þegar það kemur til kasta Alþingis og almennrar þjóðfélagsumræðu --- sem og þeir stjórnmálaflokkar, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Þjóðvaki og Kvennalisti sem þau eru fulltrúar fyrir í nefnd um fjármagnstekjuskatt, þar með að styðja breytingartillögur sem til bóta geta talist, en sættast á og styðja niðurstöður nefndarinnar að þeim frágengnum.``