Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 18:25:22 (4831)

1996-04-16 18:25:22# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[18:25]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál gengur til nefndar. Málið er ekki orðið að lögum og það er hægt að bæta úr ágöllum sem á því kunna að finnast. Mér kom það hins vegar mjög á óvart að stjórnarandstaðan skyldi bregðast við eins og hún hefur gert í ljósi þess undir hvað búið var að skrifa hér. Að vísu áskilja þessir tilteknu nefndarmenn sér rétt til þess að flytja eða styðja brtt. sem til bóta geta talist en niðurstaðan er sú að sættast á að styðja niðurstöður nefndarinnar að þeim frágengnum. Þetta tel ég nú ekki vera það að boða byltingarkennd frv. eða ólíka heildarlöggjöf um efnið. Og það er ekki eins og þetta sé eitthvert smáfólk sem þarna er að skrifa upp á. Það er sjálfur varaformaður Alþfl., hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, og skærasta stjarna Alþb., hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, (ÖS: Ekki skærari en Svavar.) og þess vegna kom mér þetta bara mjög á óvart.