Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 18:44:17 (4834)

1996-04-16 18:44:17# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[18:44]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór á þann veg sem ég spáði í ræðu minni fyrr í dag að einn af öðrum kæmu þeir út úr skápnum, hv. þingmenn Sjálfstfl. og lýstu andstöðu sinni við skattlagningu vaxtatekna. Það er að gerast hér og nú og hún er býsna fróðleg og eftirtektarverð röksemdafærslan hjá þeim hv. þingmönnum sem nú birtast og lýsa yfir andstöðu sinni í grundvallaratriðum við það að skattleggja vexti. Hún er þessi: Vegna þess að stjórnarandstaðan hefur uppi aðrar hugmyndir um það með hvaða hætti eigi að skattleggja vaxtatekjur og fjármagnstekjur, er ég laus allra mála. Þá er þessi málamiðlun sem ég sættist á í mínum þingflokki, nota bene þingflokki Sjálfstfl., langstærsta flokks þjóðarinnar, úr sögunni. Vegna þess að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson ætlar að styðja brtt. við fyrirliggjandi frv. ríkisstjórnarinnar styðja þeir það ekki heldur. Hvað er hér á seyði, virðulegi forseti? Er nú svo komið að það er hlaupinn flótti í stjórnarliðið, ekki aðeins í þessu máli heldur fleirum? Er vigt stjórnarandstöðunnar á hinu háa Alþingi með þeim hætti að við getum átt þess von að stjórnarþingmenn hlaupi undan merkjum í hverju málinu á fætur öðru vegna þess að stjórnarandstaðan hv. hefur einhverjar þær skoðanir á málum? Þetta er mjög eftirtektarvert og lærdómsríkt.

Á hinn bóginn segi ég það efnislega um röksemdir hv. þm. og spyr einfaldlega: Ef öll þau sjónarmið sem hann lýsti í ræðu sinni til vansa fyrir upptöku vaxtaskatts eiga við á Íslandi, hvers vegna í veröldinni hafa þessi sömu vandamál ekki verið uppi í öðrum vestrænum ríkjum sem öll hafa gripið til þess ráðs að skattleggja þessar tekjur eins og aðrar?