Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 19:20:48 (4843)

1996-04-16 19:20:48# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:20]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert hve hv. þm. Pétri H. Blöndal hefur verið í mun að svara næstum hverjum einasta ræðumanni stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Vörn hans varðandi fjármagnstekjur og hvernig með þær er farið er með svo miklum ástríðuþunga að það er næstum því óviðfelldið að einmitt þessi ágæti þingmaður, sem mér líkar ágætlega við, skuli vera svo ákafur talsmaður þessa máls. Hann er ergilegur yfir því að við vekjum athygli á að það er hægt að flytja fjármuni á milli kerfa. Mig langar að benda á mjög mikilvægan hlut, ef tími minn leyfir. Það hafa orðið gífurlegar breytingar hjá rekstraraðilum, t.d. einyrkjum, sem hafa farið í eignarhlutafélög. Þegar menn voru að velta fyrir sér í vetur skattgreiðslum í götunni sinni og upp úr kafinu kom að launamenn ríkisins voru milljónamennirnir en þeir með neysluna og eignirnar borguðu ekkert kom einmitt í ljós að þeir nýttu sér eignarhlutafélagaformið. Þeir greiddu sér lág laun og skráðu jafnvel hús og bíla á fyrirtækin. Að vísu þurfti að borga einhvern hlunnindaskatt en þeir gátu tekið greiðslu út af höfuðstól og farið það frjálslega með fjármagnið að þegar upp var staðið voru skattgreiðslur til ríkisins mjög lágar. Það er erfitt að fjalla um slíka hluti í ræðustól Alþingis en ég skal með glöðu geði setjast niður á morgun með hv. þm. Pétri H. Blöndal og fara yfir þau dæmi sem ég settist yfir með fagaðila frá skattinum til að kanna hvernig svona skattgreiðslur verða til. Þegar ég brýndi fyrir hæstv. fjmrh. í dag að breyta skattskránni þannig að hún yrði gagnsæ og sýndi tilurð tekna og þar með tilurð skattgreiðslna sem eru sumar fáheyrðar, fáheyrðar á þann veg að þær eru svo lágar miðað við neyslu fólks, var ég einmitt að vísa til þess sem ég lærði við þessa skoðun á þessum vetri. Hins vegar er okkar frv. þess eðlis að það sýnir miklu breiðari skattstofn og við munum að sjálfsögðu ræða það annað kvöld og hv. þm. gefst tækifæri til að ræða það frv. við okkur í framhaldsumræðum á fimmtudag.