Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 19:30:33 (4848)

1996-04-16 19:30:33# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:30]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað fer það eftir hugarástandi hvers og eins hvernig hann vill skilja þau orð sem falla hér. Ég get ekkert að því gert þótt hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir skilji orð mín öðruvísi en ég hafði ætlað áheyrendum að skilja þau. Hins vegar finnst mér verra ef eitthvað af því sem hún hefur sagt í ræðu sinni skiptir ekki máli. Við reynum yfirleitt á hv. Alþingi að segja það sem skiptir máli. Ég held að við gerum öll þær kröfur til sjálfra okkar. Ef það er bjargföst trú hennar að það eigi að byggja þetta mál sem önnur á réttlæti, sem ég vona að sé rétt skilið hjá mér í afstöðu hennar, þá er ég sannfærður um að hún er á villigötum með það frv. sem hún ætlar að styðja og formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa kynnt því að þar mun óréttlætið verða enn þá meira en hægt er að segja að það sé í því frv. sem ríkisstjórnin hefur lagt fram.