Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 19:53:31 (4852)

1996-04-16 19:53:31# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:53]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. taldi gjörðir sínar í staðgreiðslu og virðisaukaskatti réttarbót. Ég er svo sem ekkert að sakast við hv. þm. Ég studdi þá ríkisstjórn sem hann var í en ég minnti á þetta mál. Ég er sannfærður um að því miður hafa launþegar á Íslandi verið fátækari síðan. En ég minnti hér á í upphafi hvernig hv. þm. hafði talið á fingrum sér að skattsvik tileyrðu sögunni. Nú ætla ég ekki að kenna hv. þm. um það því ég tel að það þurfi að fylgja virðisaukaskattslögunum vandlega eftir.

Hvað lífeyrissjóðina varðar og að tvískattleggja þá. Auðvitað er ég ekki talsmaður þess að tvískattleggja þá en mér finnst þar sem þeir eru orðnir svona nýtt bankakerfi og eru úti á markaðnum og eru að eignast Ísland má segja --- hv. þm. kannast við þau orð. Þeir eru að ná til sín stærri og stærri sneið af þjóðarauðnum --- að það verði að fara mjög vandlega yfir það að lífeyrissjóðirnir sem eiga þessa 314 milljarða og stefna í að eiga hvað líður 400 milljarða, sitji við sama borð og annað peningakerfi í landinu.