Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 19:57:48 (4855)

1996-04-16 19:57:48# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:57]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það skipti mestu máli í þeirri umræðu sem hefur farið fram að hv. þm. Guðni Ágústsson, einn af þingmönnum Framsfl. hefur lýst því yfir að hún hafi m.a. haft þau áhrif á hann að hann að telur rétt að málið verði skoðað að nýju. Með öðrum orðum, þær ábendingar og þær brtt. sem fram hafa komið við þessa umræðu hafa gert það að verkum að þessi hv. þm., eini þingmaður Framsfl. sem hér hefur tekið til máls, hefur komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að skoða málið betur. Og það er vel. Að sömu niðurstöðu höfum við stjórnarandstæðingar komist og það er boðað í bókun fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Menn hafa sagt: Af hverju er það ekki flutt sem breytingartillögur við frv. ríkisstjórnarinnar? Það er einfaldlega vegna þess að aðkoma stjórnarandstöðuflokkanna að málinu er svo gerólík að það verður að flytja breytingartillögur stjórnarandstöðuflokkanna sem sérstakt þingmál en ekki sem breytingartillögur við mál ríkisstjórnarinnar. Það sem er gert er því nákvæmlega það sem boðað var í bókun fulltrúa stjórnarandstæðinga í nefndinni þó svo að breytingartillögur stjórnarandstæðinga verði að flytja eðli málsins samkvæmt á sérstöku þingskjali.