Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 20:02:14 (4858)

1996-04-16 20:02:14# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[20:02]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega hef ég setið hér í allan dag en eins og ég gat um fór ég vandlega yfir þetta frv. bæði meðan það var í þingflokknum og síðan og hef skoðað það faglega með hinum færustu mönnum á sviði peningamála þannig að ég óttast að hag hins almenna sparenda í bankakerfinu sé ógnað eins og frv. lítur út um þessar mundir. Hitt er annað mál að það hafa fleiri en ég setið hér og fylgst með þessari umræðu og hér er nefndarmaður Framsfl. í efh.- og viðskn., hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, en ég vil segja að mér finnst stjórnarandstöðunni til vansa hvernig hún hefur hlaupið frá málinu. Hún hefur skipt um skoðun og hlaupið frá málinu og er nú því miður á flótta og hún torveldar það að þingið geti náð saman á þeim stutta tíma sem það á eftir um svo stórt mál.