Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 20:05:51 (4860)

1996-04-16 20:05:51# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[20:05]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt sinn var hv. þm. Pétur Blöndal ungur og róttækur maður sem talaði fyrir því að 2% vextir, líklega útlánsvextir, væru það hámark sem atvinnulífið gæti borið. Nú segir hann að bankaráðin geti hækkað vexti en því miður, vextir á Íslandi eru of háir og valda vandræðum í atvinnulífi þannig að sitthvað stangast á.

Hafi ég sagt að maður litla mannsins hefði ekki verið til staðar í nefndinni viðurkenni ég að þeir menn sem eiga að bera hagsmuni launþega fyrir höndum voru í nefndinni. En ég hef því miður fyrir löngu fundið að þegar kemur að því að velja á milli fólksins og lífeyrissjóðanna slær hjarta verkalýðsleiðtoganna ávallt lífeyrissjóðamegin og ég held að það hafi gerst í þessu máli. Þess vegna hafi kannski þeir sem ég gat um að eru lífeyrissjóða- og hlutabréfamenn leitt fram þá niðurstöðu sem varð að veruleika.

Ég ætla ekki að fara út í útreikninga við hv. þm. enda ekki jafnreikniglöggur og hann.