Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 20:07:34 (4861)

1996-04-16 20:07:34# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[20:07]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að hv. þm. Guðni Ágústsson hafi tekið á málinu af yfirvegun og á þinglegan hátt. Hann sagði að það yrði að skoða málið betur og hefur áhyggjur af útfærslu stjfrv. og ég er sammála honum í mörgum af þeim atriðum.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að þetta frv. gengur á hagsmuni sparifjáreigenda og hagsmunir stórra hluthafa eru látnir víkja og það er sömuleiðis alveg rétt að í nefndarálitinu endurspeglast hagsmunir þessara stóru hluthafa og lífeyrissjóða framar öðrum hagsmunum.

Hins vegar er kannski annað alvarlegra í þessu máli. Við höfum heyrt í umræðunni að ýmsir sjálfstæðismenn vilja drepa þetta frv. Sumir hafa lýst í umræðunni beinlínis andstöðu við það og nú er hin pólitíska spurning, sem hv. þm. Guðni Ágústsson stendur frammi fyrir, þ.e. hvort framsóknarmenn ætla að reka af sér slyðruorðið í þessu ríkisstjórnarsamstarfi og hvort þeir ætli að standa að því að lögfesta fjármagnstekjuskatt á þessu vori í þeirri útfærslu sem þingnefnd og þingið kemst þá að. Menn geta þá greitt atkvæði um útfærslu þegar að því kemur ef menn finna ekki samstöðu. En hér er brýnt og hér liggur fyrir hin pólitíska áskorun: Ætlar Framsfl., hv. þm., að lyppast niður í þessu máli eins og fjölmörgum öðrum málum í vetur og ekkert sé að marka orð þessara manna, hvorki hér í þingi né fyrir síðustu kosningar, eða ætla menn að reyna, sem ég veit að hv. þm. hefur burði til, að þoka málinu áleiðis gegn hagsmunum ýmissa í þjóðfélaginu sem endurspeglast í stjfrv.?