Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 20:09:48 (4862)

1996-04-16 20:09:48# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[20:09]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli því að Framsfl. lyppist niður í hverju málinu á fætur öðru. Þetta eru ýkjur og það er rangt. En það er alveg skýrt að ríkisstjórnin hefur það á stefnuskrá sinni að hér verði tekinn upp fjármagnstekjuskattur og hún hefur það á stefnuskrá sinni að það skuli gert fyrir næsta fjárlagaár. Sem þingmaður í flokki mínum geri ég auðvitað kröfur til þess að Framsfl. og Sjálfstfl. nái saman um þetta mál og ég kysi eins og efni stóðu til að þingið næði saman um svona viðkvæmt mál. Ég held að það skipti miklu máli.

Auðvitað gerum við of mikið af því í mikilvægum málum að skipta þinginu upp í stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn. Í svona stórum málum eigum við að vinna saman. Ég er því þeirrar skoðunar að málið sé því miður í nokkurri hættu um þessar mundir, bæði hvernig það er komið fram, hvernig það hljóðar og hvernig það hefur farið í umræðunni í dag. En ég vona að betri tímar komi og að við náum saman um að það verði tekinn upp fjármagnstekjuskattur sem raskar sem minnstu í þessu þjóðfélagi.