Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 20:33:39 (4865)

1996-04-16 20:33:39# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, KHG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[20:33]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til þess eftir að hafa hlýtt á umræður í dag að gera með örfáum orðum grein fyrir afstöðu minni til málsins og jafnframt draga fram nokkur atriði sem mér finnst hafa fallið í skuggann, atriði sem eru samhljóða niðurstaða nefndar þeirrar sem vann að undirbúningi málsins. Mér finnst að það hafi nokkuð gleymst að halda þeim atriðum til haga sem nefndin varð sammála um þannig að það væri þá gott jafnvægi í umræðunni og menn væru ekki að rökræða út frá öðrum forsendum en þeim sem aðilar eru ósammála um og það lægi ljóst fyrir um hvað menn eru sammála.

Ég vil segja í fyrsta lagi almennt um það mál að koma á fjármagnstekjuskatti, að það hefur lengi verið baráttumál flokks míns. M.a. síðast þegar sá flokkur átti aðild að ríkisstjórn var reynt að knýja á um það mál en tókst ekki vegna andstöðu í öðrum flokkum. Þegar svo er komið að náðst hefur niðurstaða sem felur það í sér að fulltrúar allra þingflokka skrifa undir það að þeir muni fylgja þeirri niðurstöðu sem varð, þá tel ég alveg einboðið af minni hálfu að standa við þá niðurstöðu og stuðla að því að frv. þetta verði að lögum. Ég tel að öðrum kosti væru menn að gera lítið úr sinni skoðun fram til þessa ef menn vildu grípa það tækifæri sem nú hefur gefist til að koma á fjármagnstekjuskatti. Það þyrftu að vera afbrigðilegar ástæður fyrir því að leggjast gegn málinu nú. Það þyrftu að vera einhverjar þær ástæður að málið væri þannig búið að það væri svo slæmt að það væri ekki með nokkru móti hægt að una því. Að mati fulltrúa allra flokka er málið ekki það slæmt, þó það sé að mati fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna gallað og þeir vilji sjá á því breytingar, þeir leggjast ekki gegn því að málið verði afgreitt og verði að lögum. Þetta er rétt að árétta m.a. vegna margra sérkennilegra ræðna sem ég hef heyrt í dag frá þingmönnum Alþfl. sem mér finnst satt að segja alveg með endemum í þessari umræðu, að þingflokkarnir eru sammála um þessa niðurstöðu.

Hér hefur verið mikið rætt um það og ýmsir ræðumenn tekið það fyrir að skilgreina og gera grein fyrir þeim atriðum sem menn eru ósammála um. Ég ætla ekki að bæta neitt betur um það. Það talar hver fyrir sig í þeim efnum. En ég vil draga fram nokkur atriði sem allir fulltrúar í þessari nefnd voru sammála um og mér finnst vera til bóta, þó að ég taki líka undir það með fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna í þessari nefnd og þar með talið fulltrúum Alþb., að á málinu eru auðvitað gallar. Ég dreg enga dul á að mér þykir eitt og annað í málinu eins og það er búið vera öðruvísi en ef ég réði einn um frágang málsins. En það er bara ekki þannig að skoðanir mínar eða flokksbræðra minna og systra séu einar uppi. Við ráðum ekki málinu einir og við verðum því að leita samkomulags til að ná málinu fram. Samkomulag þýðir að menn verða að víkja frá ýmsu sem þeir vilja og sætta sig við eitthvað af því sem aðrir vilja.

Ég vil fyrst nefna það atriði sem fram kemur á bls. 42, atriði sem öll nefndin stendur að. Ég bið menn að taka eftir því. Það fellur ekki undir bókun stjórnarandstöðufulltrúanna. Ég ætla að byrja á bls. 42 en þar segir, með leyfi forseta:

,,Skattlagning vaxtatekna felur í sér aukið samræmi í skattlagningu tekna. Auk þess stuðlar hún að tekjujöfnun þar sem tekjuhærri og efnameiri einstaklingar hafa alla jafnan meiri vaxtatekjur en hinir tekjulægri.``

Með öðrum orðum er það álit nefndarinnar að það að taka upp þennan vaxtatekjuskatt stuðli að jöfnun. Og það þykir mér jákvætt markmið sem ég hygg að a.m.k. stjórnarandstæðingar séu tilbúnir að standa á bak við.

Þetta sjónarmið kemur líka fram á bls. 25, þar sem rætt er um hvort hafa eigi sérstakt frítekjumark fyrir vaxtatekjur. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ef allir njóta sérstaks frítekjumarks vegna vaxtatekna fá þeir sem hafa mestar vaxtatekjur hæsta frádráttinn.``

Þarna er sama skoðun sett fram, þ.e. að það að taka upp skattinn sé tekjujafnandi aðgerð sem með öfugum formerkjum þýðir að ef menn ætla að hafa afslátt, þá njóta þeir mest af afslættinum sem þegar hafa mest af þessum tekjum.

Annað atriði er á bls. 42. Það fjallar um áhrif skattsins á einstaklinga með lágar tekjur og litlar fjármagnstekjur. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Einnig leggur nefndin til að heimilt verði að nýta persónuafslátt til greiðslu fjármagnstekjuskatts. Við það má ætla að verulegur hluti einstaklinga með lágar tekjur og litlar fjármagnstekjur greiði engan fjármagnstekjuskatt þegar upp er staðið.``

Þetta er álit nefndarinnar allrar.

Þá vil ég benda mönnum á annað atriði sem mér finnst líka athyglisvert í niðurstöðum nefndarinnar. Á bls. 5 segir svo, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur að mismunun í skattlagningu vaxta og annarra fjármagnstekna hafi unnið gegn æskilegri og nauðsynlegri eiginfjármyndun í íslenskum fyrirtækjum og staðið þeim fyrir þrifum. Það getur skipt sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu að fólk fjárfesti í hlutafé.``

Þetta er álit nefndarinnar allrar. Enn fremur segir í framhaldi af þessu, með leyfi forseta: ,,Af þessum ástæðum er mikilvægt að allar fjármagnstekjur einstaklinga séu skattlagðar með svipuðum hætti.``

Með öðrum orðum kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að það sé nauðsynlegt að hafa skattlagninguna með svipuðum hætti á fjármagnstekjur og þetta hafi mikil áhrif á uppbyggingu í atvinnulífi. Þetta er áréttað líka á öðrum stað í þessu áliti, á bls. 43, en þar segir einmitt um samræminguna á skattlagningunni eftirfarandi, með leyfi forseti:

,,Nefndin telur að sú samræming sé ófrávíkjanleg forsenda fyrir traustri eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja og öflugri uppbyggingu atvinnulífsins, einkum í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.``

Þetta er líka samhljóða álit allrar nefndarinnar. Ég ætla ekki að fara að gera lítið úr þessum sjónarmiðum og tel mig ekki hafa fengið fram nein þau rök í umræðunni í dag sem bera þessi atriði til baka. Þessi atriði ættu að styðja menn og styrkja í því að standa á bak við þá málamiðlun sem hefur náðst án þess þó að menn afsali sér þeim rétti að reyna að ná fram breytingum á henni eins og tekið er fram skilmerkilga í bókun fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna.

Ég vil líka benda á eitt atriði enn sem mér finnst athyglisvert vegna þess að það hefur verið í umræðunni töluvert ágreiningsefni. Það er álit nefndarinnar á því hvort það eigi að vera sameiginlegt frítekjumark eða hvort það eigi að vera hvert frítekjumarkið fyrir sína tegund af fjármagnstekjum. Það segir á bls. 8 í þessu áliti, með leyfi forseta:

,,Í núgildandi skattkerfi er sérstakt frítekjumark fyrir arð og annað fyrir húsaleigu.`` Síðan eru tillögur uppi um að taka það þriðja fyrir fjármagnstekjur. ,,Nefndin er sammála um að sérstakt frítekjumark fyrir hverja tegund fjármagnstekna eða fyrir fjármagnstekjur í heild flæki skattlagninguna og kalli á hærra skatthlutfall en ella.``

Þetta er álit nefndarinnar og það er áréttað líka á bls. 25, með leyfi forseta: ,,Ef rétt er talið að vera með sérstakan frádrátt vegna fjármagnstekna, standa frekar rök til þess að hafa eitt sameiginlegt frítekjumark vegna allra fjármagnstekna en sérstakan frádrátt vegna hvers þáttar fyrir sig.``

Þetta atriði er líka samhljóða niðurstaða nefndarinnar allrar. Menn geta auðvitað haft mismunandi pólitískar skoðanir á því hvort málin eigi að vera svona eða ekki, hvort menn eigi að hafa öðruvísi skattlagningu á tekjur af eignum og fjármagni en tekjum af launum. Ég hef sjálfur þá skoðun að það eigi að fara með laun peninganna eins og laun vinnunnar, þ.e. skattleggja þetta nákvæmlega eins. Þar með sagt að ég geti ekki sætt mig við einhverja aðra niðurstöðu og mér finnst sú niðurstaða, sem hefur verið dregin fram í meginatriðum í skýrslu nefndarinnar, vera ásættanleg og ég er tilbúinn til að standa á bak við hana og hef dregið fram atriði, veigamikil atriði í sameiginlegu áliti nefndarinnar allrar sem styðja þá niðurstöðu mína.