Erlendar skuldir þjóðarinnar

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 13:33:26 (4867)

1996-04-17 13:33:26# 120. lþ. 120.1 fundur 412. mál: #A erlendar skuldir þjóðarinnar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Erlendar skuldir allra þjóða í heiminum eru að meðaltali núll. Það liggur í hlutarins eðli því að þær skulda jú hver annarri. Við Íslendingar lifum á eyju úti í hafi og erum með mjög áhættusaman atvinnurekstur sem er sjávarútvegur, sennilega með þeim áhættusamari sem til er. Ég þarf ekki að fara langt aftur í sögunni til þess að rekast á fiskveiðileysisár og við þekkjum dæmi um eldgos, breytingu á hafstraumum og annað slíkt sem getur valdið miklum búsifjum.

Í byrjun þessarar aldar þurftu Íslendingar að taka stökk inn í 20. öldina á fáum árum og áratugum og við það hafa þeir myndað erlendar skuldir. Nú er uppbyggingunni lokið en við erum áfram með erlendu skuldirnar. Þær eru af ýmsum toga. Í fyrsta lagi skuldir sem við höfum tekið til eyðslu og hins vegar skuldir sem við höfum tekið í fjárfestingar. Þær skuldir sem við höfum myndað til að byggja orkuver og annað slíkt gefa væntanlega af sér þann arð að þær geti borgað vexti af erlendu lánunum. Ef þær gera það ekki, þá er illa farið.

Nú hefur það gerst í sl. þrjú ár að erlendar skuldir hafa lækkað sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Þær voru 54,4% í lok ársins 1993, og voru þá í hámarki, eru núna 52,9 og í lok síðasta árs voru þær 50% af vergri landsframleiðslu. Vextir og arðgreiðslur eru nettó 14,5 milljarðar, þ.e. við Íslendingar borgum í vexti og arðgreiðslur 40 millj. á dag.

Núna þegar uppbyggingunni er lokið, sérstaklega með hliðsjón af því að allar þjóðir í heiminum skulda að meðaltali núll í erlendum skuldum, þá er mjög brýnt að við förum að skipa okkur í flokk þeirra þjóða sem eiga inneignir í útlöndum og njóta vaxtagreiðslna en eru ekki að borga vexti eins og við gerum í dag. Þess vegna vil ég beina eftirfarandi fyrirspurn til forsrh. um erlendar skuldir þjóðarinnar:

,,Hefur ríkisstjórnin markað stefnu um það hvenær íslenska þjóðin lýkur við að greiða niður erlendar skuldir sínar og hvernig því marki verður náð?``