Erlendar skuldir þjóðarinnar

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 13:36:16 (4868)

1996-04-17 13:36:16# 120. lþ. 120.1 fundur 412. mál: #A erlendar skuldir þjóðarinnar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þessarar fsp. hv. þm. Péturs Blöndals vil ég svara með eftirfarandi hætti. Hagstæður viðskiptajöfnuður er forsenda fyrir lækkun erlendra skulda þjóðarbúsins. Eins og hv. þm. sagði hefur viðskiptajöfnuður verið hagstæður undanfarin þrjú ár og fyrir vikið hafa erlendar skuldir þjóðarbúsins farið lækkandi. Á árinu 1993 námu skuldirnar nettó 54,1% af landsframleiðslu en í lok árs 1995 var þetta hlutfall 50%. Þetta er í fyrsta skipti í hálfa öld sem afgangur hefur verið af viðskiptajöfnuði í þrjú ár í röð.

Samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár og miðað við þær horfur sem blasa við í þjóðarbúskapnum verður viðskiptajöfnuðurinn að jafnaði hagstæður á árunum 1996--2000. Gert er ráð fyrir lítils háttar halla á árunum 1996 og 1997 vegna innflutnings í tengslum við stækkun álversins, en á móti vegur afgangur á árunum þar á eftir. Í þessu felst að erlendar skuldir þjóðarbúsins munu fara lækkandi á næstu árum og áætlað er að þær verði 34% af landsframleiðslu í árslok 2000. Gangi þessar áætlanir eftir, og ekki er ástæða til að ætla annað en að þær muni ganga eftir, þá munu skuldirnar lækka um 20 prósentustig af landsframleiðslu á árabilnu 1993--2000. Þessa áætlun verður þó að skoða í ljósi efnahagshorfa eins og þær eru nú metnar. Ef horfur breytast er ekki sjálfgefið að æskilegt sé að stefna að svona mikilli skuldalækkun. Þannig er t.d. augljóst að ef ráðist verður í miklar framkvæmdir á sviði stóriðju getur verið skynsamlegt að setja önnur skuldamarkmið. Þróun erlendra skulda og viðskiptajafnaðar verður því ekki bundin í eina óbreytanlega áætlun.

Aðalatriðið er að tryggja stiglækkandi skuldir við núverandi horfur. Það verður best gert með því að stefna áfram að hagstæðum viðskiptajöfnuði að teknu tilliti til innflutnings vegna álversframkvæmda. Til þess að svo megi verða þarf þjóðhagslegur sparnaður að jafnaði að vera meiri en fjárfesting. Ríkisstjórnin mun stuðla að auknum þjóðhagslegum sparnaði með því að bæta afkomu hins opinbera í samræmi við áætlun hennar í ríkisfjármálum.

Hér er ekki gefið endanlegt svar um það hvenær erlendar skuldir verði komnar niður í núll og eignir að myndast eins og hv. þm. nefndi að æskilegt gæti verið. Ég hygg að það sé ekki raunhæft að gera sér þá áætlun upp á þessu stigi málsins, það sé raunhæfara að meta þetta með þeim hætti sem ég hef gert, enda er árangurinn verulegur, ég hygg meiri árangur heldur en menn hefðu getað ímyndað sér fyrir fjórum eða fimm árum síðan þegar það bar hæst í umræðunni að menn óttuðust að við værum að ganga götu Færeyinga í skuldasöfnun þjóðarinnar. Menn sjá í hendi sér þá hlutfallslegu lækkun á vaxtabyrði sem verður við það að skuldir þjóðarinnar lækki um 20 prósentustig af landsframleiðslu á árabilinu fram til aldamóta eins og við gerum ráð fyrir að muni gerast og allar líkur eru til að gangi eftir.