Greiðsla kostnaðar við lækningaferðir psoriasissjúklinga

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 13:41:05 (4870)

1996-04-17 13:41:05# 120. lþ. 120.2 fundur 328. mál: #A greiðsla kostnaðar við lækningaferðir psoriasissjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:41]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. varðandi þá ákvörðun tryggingaráðs að hætta þátttöku í kostnaði vegna svonefndra loftslagsmeðferðarferða psoriasissjúklinga. Eins og kunnugt er var gerð sú breyting á lögum um almannatryggingar 1979 að inn í þágildandi 39. gr. laganna, nú 33. gr. að efni til, kom afdráttarlaust ákvæði um að eitt af hlutverkum sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar skyldi vera að annast m.a. greiðslu á þessum kostnaði samkvæmt tilteknum reglum. Upphaf 33. gr. er svo, með leyfi forseta:

,,Hlutverk sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins er að annast sjúkratryggingar samkvæmt lögum þessum. Enn fremur er það hlutverk sjúkratryggingadeildar:`` --- Síðan er þetta talið upp í stafliðum og stafliður f er svohljóðandi:

,,Að greiða kostnað samkvæmt nánari ákvörðun tryggingaráðs vegna psoriasissjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga sem komi í stað sjúkrahúsvistar.

Tryggingaráð setur nánari reglur um greiðslufyrirkomulag og skipulag slíkra ferða auk hámarksfjölda psoriasissjúklinga sem árlega geta notið slíkrar fyrirgreiðslu.``

Þessi lagagrein, herra forseti, er í gildi og óbreytt og stendur svona í lögunum. Þess vegna kemur það mjög á óvart að tryggingaráð tekur á fundi í desember að því er virðist þá ákvörðun að hætta þátttöku í greiðslu kostnaðar af þessu tagi með þeim rökum að um fleiri og betri meðferðarúrræði sé orðið að ræða innan lands án þess að það sé í sjálfu sér rökstutt nánar.

Ég held að það sé enginn vafi á því að þessar ferðir hafa skilað gífurlegum árangri og verið þessum sjúklingum mjög mikilvægar, bæði í heilsufarslegu tilliti en líka félagslega og á ýmsan hátt. Það er mat þeirra sem vel þekkja til meðferðar þessara mála að það sé mikil afturför ef þær leggjast af með öllu. Við höfum notið mjög hagstæðs samstarfs við hinar Norðurlandaþjóðirnar og allar Norðurlandaþjóðirnar nema Danir nota stöð á Kanaríeyjum sem Norðmenn standa fyrir rekstri á en Danir reka sambærilega stöð við Dauðahafið. Mér er ekki kunnugt um að nein áform séu uppi á hinum Norðurlöndunum um að leggja meðferðarferðir af þessu tagi af þar. Við hljótum þess vegna að biðja um betri og faglegri rök fyrir því að taka slíka ákvörðun.

Síðast en ekki síst, og um það snýst líka efni fyrirspurnarinnar, vil ég óska eftir að hæstv. heilbrrh. svari þessari spurningu:

Telur ráðherra að Tryggingastofnun sé heimilt að fella með öllu niður greiðslur vegna lækningaferða psoriasissjúklinga til útlanda, svonefndrar loftslagsmeðferðar, sbr. f-lið 33. gr. laga nr. 117/1993?

Er tryggingaráði stætt á því eins og lögin hljóða að taka slíka ákvörðun að mati hæstv. ráðherra?