Húsnæðismál Tryggingastofnunar ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:11:31 (4881)

1996-04-17 14:11:31# 120. lþ. 120.5 fundur 474. mál: #A húsnæðismál Tryggingastofnunar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:11]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn um húsnæðismál Tryggingastofnunar ríkisins á þskj. 810, 474. mál.

Eins og mönnum er kunnugt hélt Tryggingastofnun ríkisins upp á 60 ára afmæli á dögunum og þá komu húsnæðismál stofnunarinnar til umræðu, en hún býr við áfkaflega þröngan og óhentugan húsakost. Hæstv. heilbrrh. sagði afmælisfundi stofnunarinnar að hún vissi að helsta ósk Tryggingastofnunar á afmælinu væri að fá nýtt hús eða betra húsnæði, en afmælisbörn gætu ekki alltaf fengið það sem þau óskuðu sér í afmælisgjöf. Þar sem ég hafði lagt þessa fyrirspurn fram fyrir afmælisfundinn, þá ákvað ég að halda málinu til streitu á þingi því að það er full ástæða til að vekja athygli á hvernig ástandið er í húsnæðismálum Tryggingastofnunar, en stofnunin býr við mjög slæman aðbúnað og á erfitt með að sinna öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem henni hafa verið fengin frá þeim tíma er hún tók til starfa.

Tryggingastofnun flutti í húsið sem hún býr í nú í upphafi árs 1954, þ.e. á Laugavegi 114, sem þá hentaði mjög vel fyrir þá starfsemi sem hún sinnti, en síðan hefur verkefnum fjölgað mjög mikið og nú er svo komið að Tryggingastofnun ríkisins er til húsa á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Aðalskrifstofan á Laugavegi 114, síðan teygir hún sig út í húsið nr. 116 við Laugaveg, hún er á Tryggvagötu 28, þar sem er hluti sjúkratrygginganna, hún er á Bókhlöðustíg 6 a, þar sem er tryggingatannlæknir, og hún er á Smiðjuvegi 28, þar sem hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar er til húsa. Oft þarf að senda fólk, aldraða, fatlaða og aðra viðskiptavini í alls konar veðri og alls konar ásigkomulagi á milli þessara staða. Mig langar til að nefna dæmi um ástandið.

Fyrir framan aðalskrifstofurnar eru þrjú stæði fyrir fatlaða og þau eru yfirleitt upptekin fyrir fatlaða starfsmenn stofnunarinnar og því ekki fyrir viðskiptavini. Þar er mjög erfið aðkoma, það er mikil umferð og mjög þröngt að komast að stofnuninni. Í Tryggvagötunni eru tvö stæði fyrir fatlaða og þar er líka mjög mikil umferð og erfitt að komast að.

Ég veit að hæstv. heilbrrh. þekkir mjög vel hversu þröngt starfsmenn sitja í Tryggingastofnun ríkisins því að hún kom þangað í heimsókn þegar hún tók við starfi og kynntist því hvernig þeir sitja þar nánast hver ofan á öðrum, oft í mjög þungu lofti. Mig langar til að nefna sem dæmi að til að komast inn á sjúkratryggingadeildina, hluta hennar þar sem t.d. lögfræðingur o.fl. starfa, þarf að smeygja sér inn um 40 sm þrönga smugu, inn um dyr og maður þarf að vera sérstaklega nettur og laghentur til að ná t.d. bara í hurðarhúninn því að hann er bak við skjalaskáp. Ég minnist þess að þegar fyrrv. hæstv. heilbrrh., Guðmundur Árni Stefánsson, kom í heimsókn með fríðu föruneyti, þá var það bara hluti af sendinefndinni sem komst inn í þennan hluta stofnunarinnar því að vaxtarlag sumra leyfði það ekki að þeir kæmust þangað inn og voru þeir þó allir ófatlaðir. Menn geta ímyndað sér hvernig það er fyrir fatlaða einstaklinga að komast þarna að og hvað þá menn í hjólastól, enda þurfa þeir að fá þjónustu þessarar deildar og lögfræðingsins frammi á gangi þar sem almenningur situr og bíður eða er í afgreiðslu. Þetta er ekki boðlegt og þetta þekkir hæstv. ráðherra mjög vel. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mín, virðulegi forseti. Sama gildir þegar menn ætla að sækja um endurgreiðslu mikils læknis- og lyfjakostnaðar. Menn þurfa að fara inn í húsið nr. 114, upp um ójöfnur og stiga, í lyftu upp á 3. hæð, út þar mjög langan gang yfir í hús nr. 116 og niður þar í annarri lyftu --- þetta er alveg með ólíkindum --- og sú lyfta er lyfta heilbrrn. sem hæstv. ráðherra þekkir áreiðanlega mjög vel og mjög erfitt fyrir t.d. mann í hjólastól að opna þá lyftu. Það er nánast ómögulegt nema fá aðstoð við það. (Forseti hringir.)

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra í lok máls míns af því að ég veit að hann hefur skilning á ástandinu í stofnuninni sem á að þjóna þessum hópi: Hvað hyggst hæstv. ráðherra fyrir í húsnæðismálum Tryggingastofnunar ríkisins? Þó það sé ekki nú eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra á afmælisfundinum, þá á næstunni því það verður ekki búið við þetta ástand mikið lengur.