Húsnæðismál Tryggingastofnunar ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:18:17 (4883)

1996-04-17 14:18:17# 120. lþ. 120.5 fundur 474. mál: #A húsnæðismál Tryggingastofnunar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:18]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að vekja máls á þessu þarfa máli. Staðreyndin er sú að það er sennilega engin ríkisstofnun sem býr við jafnlélegan húsakost og einmitt Tryggingastofnun ríkisins. Um árabil hefur hinn ágæti forstjóri stofnunarinnar, Karl Steinar Guðnason, barist fyrir því að ráðist verði í það að fá nýtt húsnæði undir stofnunina. Það er fyrir löngu orðið of lítið, aðgengi er erfitt fyrir fatlaða, það er skortur á bílastæðum eins og hv. þm. rakti.

Nú er það svo, herra forseti, að ég veit ekki betur heldur en það hafi einmitt komið fram í þessum sölum að stofnunin á yfir verulegum fjármunum að ráða í húsakaupasjóði. Ég held að þeir nái hátt á annað hundrað millj. kr. þannig að það er ljóst að nú þegar er til fjármagn þannig að það ætti að vera hægt að taka ákvarðanir um að hefja þetta starf. Ég tek undir þær áskoranir sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir flytur á hæstv. heilbrrh. Ég veit að heilbrrh. skortir ekki viljann en ég held að ekki síst með tilliti til hagsmuna þeirra sem neyta þjónustu stofnunarinnar sé þetta afskaplega brýnt mál.