Lögfræðideild Húsnæðisstofnunar

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:25:53 (4886)

1996-04-17 14:25:53# 120. lþ. 120.6 fundur 341. mál: #A lögfræðideild Húsnæðisstofnunar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:25]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Félmrn. barst ábending um meinta óheimila veðflutninga lögfræðings hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og fleiri atriði tengd því. Við höfðum strax samband við ríkisendurskoðanda og ég skrifaði bréf í kjölfarið þann 11. ágúst 1995 þar sem þess var óskað að Ríkisendurskoðun athugaði hvort ráðstafanir lögfræðingsins samrýmdust með eðlilegum hætti starfi hans hjá stofnuninni.

Í byrjun september 1995 var mér tjáð af ríkisendurskoðanda að grunur léki á að fyrrv. starfsmaður lögfræðideildar hefði gerst sekur um fjárhagslegt misferli og að umræddur starfsmaður hafi látið af störfum er grunur hafi vaknað um misferlið. Þannig hafði ráðuneytið fengið vísbendingar um meint misferli tveggja lögfræðinga hjá Húsnæðisstofnun. Ég ritaði bréf, dags. 7. sept. 1995, til Húsnæðisstofnunar þar sem óskað var eftir ítarlegri greinargerð frá stofnuninni um málefni lögfræðinganna. Þann 13. sept. 1995 sendi Húsnæðisstofnun kæru til Rannsóknarlögreglu ríkisins á hendur fyrrv. starfsmanni stofnunarinnar. Kæran var byggð á 11 atriðum. Í október 1995 bættust við þrjú atriði þannig að samtals eru kæruatriðin 14. Heildarkrafa stofnunarinnar á hendur viðkomandi starfsmanni er 7,4 millj. auk dráttarvaxta. Ríkisendurskoðandi sendi mér bréf 30. nóv. sl. ásamt greinargerð um erindi ráðuneytisins varðandi athugun á veðflutningum í þágu tiltekins starfsmanns stofnunarinnar. Í bréfinu kom fram að ríkisendurskoðandi hefði átt fund með framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra stofnunarinnar um málið og ákveðið hafði verið að fela Endurskoðun hf. eftirfarandi verkefni:

1. Athugun á starfsemi lögfræðideildar í heild sinni.

2. Sérstök athugun á innheimtu- og veðflutningamálum starfsmanns lögfræðideildar.

3. Frekari rannsókn á máli fyrrv. starfsmanns lögfræðideildar sem sent var Rannsóknarlögreglu ríkisins 13. sept. 1995.

4. Athugun á fyrirkomulagi á innheimtu skyldusparnaðar.

Niðurstöður Endurskoðunar hf. voru birtar í skýrslu, dags. 22. nóv. 1995. Þar kemur fram að starfsmaður lögfræðideildar hafi heimilað veðflutninga hjá fimm aðilum sem tengdust honum og nam fjárhæð veðflutninganna 16 millj. kr. Starfsmaðurinn sagði upp störfum þann 22. sept. 1995 og Ríkisendurskoðun lagði til að máli hans yrði vísað til Rannsóknarlögreglunnar. Fram kemur í skýrslunni að engar reglur hafi verið til hjá stofnuninni um hvernig staðið skuli að veðflutningi og hverjir hafi heimild til að samþykkja slíka flutninga. Í lögum um Húsnæðisstofnun er ekkert fjallað um veðflutninga. Almennt hefur veðflutningur ekki verið heimilaður en þó eru nokkur dæmi um slíkt og þá aðallega vegna greiðsluerfiðleikalána.

Á fundi sínum 9. nóv. 1995 samþykkti húsnæðismálastjórn að veðflutningar væru ekki heimilir nema samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar. Þá er í skýrslunni gerð athugasemd við starfsskipulag lögfræðideildar varðandi vanskilainnheimtu þegar um er að ræða kaup og sölu uppboðseigna. Lagt er til að komið verði á skilvirku innra eftirliti í lögfræðideildinni. Loks er gerð athugasemd við fyrirkomulag á innheimtu skyldusparnaðar unglinga og lagt til að komið verði á meiri festu við úrvinnslu þeirra mála.

Í kjölfar úttektar Endurskoðunar hf. ritaði ég Húsnæðisstofnun bréf þann 6. des. þar sem ráðuneytið leggur áherslu á að málið verði hið fyrsta meðhöndlað í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Tilgreint er sérstaklega það mat Ríkisendurskoðunar að vísa beri athugun á veðflutningamálunum til Rannsóknarlögreglu og brýna nauðsyn beri til að efla innra eftirlit lögfræðideildar. Í lok bréfsins er vísað til fundar míns og yfirstjórnar ráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar þar sem ákveðið var að Ríkisendurskoðun mundi í upphafi ársins 1996 framkvæmda stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Húsnæðisstofnunar. Sama dag sendi ég Ríkisendurskoðun formlega beiðni þar að lútandi.

Húsnæðisstofnun ríkisins vísaði með bréfi, dags. 10. jan. sl., innheimtu- og veðflutningamálum fyrrv. starfsmanns lögfræðideildar til Rannsóknarlögreglu ríkisins. Í bréfi ríkisendurskoðanda til Húsnæðisstofnunar þann 23. jan. segir m.a. eftirfarandi:

,,Af þessu tilefni skal tekið fram að í umræddri athugun kom ekkert fram sem bent gæti til misferlis annarra starfsmanna lögfræðideildar en þeirra tveggja sem um er rætt í nefndri skýrslu og ekki eru uppi neinar grunsemdir um misferli annarra starfsmanna deildarinnar af hálfu Ríkisendurskoðunar.``

Ríkisendurskoðun vinnur sem sagt að stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Húsnæðisstofnunar og að sjálfsögðu munu alþingismenn fá aðgang að niðurstöðum Ríkisendurskoðunar þegar þær liggja fyrir.