Lögfræðideild Húsnæðisstofnunar

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:31:46 (4887)

1996-04-17 14:31:46# 120. lþ. 120.6 fundur 341. mál: #A lögfræðideild Húsnæðisstofnunar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir hans yfirgripsmikla svar sem hér kom fram. Það vekur hins vegar athygli að nokkuð virðist þetta hafa verið laust í böndunum hér áður. Og það vaknar líka upp sú spurning hvort það geti hafa gerst að áður en þessi ákvörðun var tekin 9. nóv., um breytt fyrirkomulag á tilfærslu veðheimilda, að veðflutningar hafi átt sér stað án þess að æðstu menn stofnunarinnar kæmu þar nokkuð nálægt. Það er með ólíkindum ef svo er ekki. Ekki það að ég sé með neinum hætti að draga aðra inn í þetta mál heldur en hér hefur komið fram og ekki með neitt vantraust á þá menn almennt.

Það sem hins vegar hlýtur að vera alvarlegast í stöðunni er að einstaklingar verða fyrir barðinu á opinberum embættismönnum þannig að nú er verið að ganga að eignum þeirra vegna vanskila og ýmiss konar misferlis þessara fyrrnefndu starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins. En ég vona að það fari að verða svo á þeim bæ að þessi stofnun megi aftur njóta trausts og að ungt fólk sem er að hefja búskap geti leitað þangað inn og fengið þá þjónustu og fundið fyrir því trausti sem slík stofnun á að bera öðrum fremur.