Neyðarhjálp vegna fátæktar

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:43:33 (4891)

1996-04-17 14:43:33# 120. lþ. 120.7 fundur 370. mál: #A neyðarhjálp vegna fátæktar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:43]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Tvennt vekur eftirtekt í ræðu hæstv. félmrh. Í fyrsta lagi það að hann lýsir því yfir að það sé skoðun sín að fátækt sé afstæð. Í öðru lagi hitt að hann telur síðan upp að þúsundir manna hafi þurft á neyðarhjálp að halda.

Herra forseti. Það er ýmislegt fleira sem er afstætt í huga hæstv. félmrh. en fátæktin ein. Þegar hæstv. félmrh. var óbreyttur stjórnarandstöðuþingmaður hafði hann hátt um það að þúsundir fjölskyldna væru að komast á vonarvöl og það væri einungis eitt sem gæti bjargað þeim og það væri að Framsfl. kæmist í ríkisstjórn. Það var fyrst og fremst eitt mál sem hann og hans flokkur lagði undir og það voru húsnæðismálin.

Herra forseti. Forlögin hlutuðu því þannig til að Framsfl. komst til ríkisstjórnar. Og hvað hefur hann síðan gert í þessu máli sem hann lofaði þessu fátæka fólki sem er orðið afstætt í hugum hæstv. félmrh.? Hann hefur nákvæmlega ekkert gert. Fólkið sem þessi hæstv. félmrh. bjó til væntingar hjá, skapaði drauma hjá vegna þess að hann og hæstv. viðskrh. lofuðu því að þeir mundu reyna að leysa fjárhagsvanda þeirra sem höfðu lent í fjárhagslegum hrakningum vegna húsakaupa með því að leggja fram frv. um greiðsluaðlögun. Þetta loforð hafa þeir svikið. Fátæktin er afstæð, herra forseti. Menn sjá hana kannski með allt öðrum augum þegar þeir eru í stjórnarandstöðunni en þegar þeir eru sestir í hæga stóla ríkisvaldsins og komnir í ríkisstjórnina.