Neyðarhjálp vegna fátæktar

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:45:58 (4893)

1996-04-17 14:45:58# 120. lþ. 120.7 fundur 370. mál: #A neyðarhjálp vegna fátæktar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að leiða þessa umræðu frekar út í það sem tveir hv. síðustu ræðumenn fóru inn á, pólitískt karp. Hér er um allt of mikið alvörumál að ræða til þess að nálgast þetta á þeim nótum.

Ég vil byrja á því að þakka svar hæstv. félmrh. Mér var ljóst að það mundi verða mjög örðugt að finna út nákvæmlega hver þörfin hefði verið fyrir aðstoð. Ég vissi sjálfur að það voru fleiri þúsund manns sem þurftu einhverja hjálp. Ég er þess fullviss að í framhaldi af þessu svari er mörgum ljóst að fátæktin er að hreiðra um sig á Íslandi. Það er alveg ljóst. Og það er alveg ljóst að þessar á annað þúsund milljónir, sem ég legg saman í snatri sem hafa farið í svona aðstoð, væru betur komnar á annan veg en svona. Það væri eðlilegra að það væri í launaumslögum þeirra sem hafa jafnvel þurft að sækja sér hjálp þó þeir hafi haft einhverja vinnu.

Ég met mikils hvað hefur verið lögð vinna í þetta svar við fyrirspurn minni. Mér er kunnugt um að það var leitað eftir svörum víða um land og það fengust nokkrar upplýsingar. Ég veit að það er töluvert um trúnaðarupplýsingar að ræða sem komu fram í svarinu og það er ekki hægt að ræða það sérstaklega. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra í lokin hvort hann sé ekki sammála mér um það að ástandið sé mjög alvarlegt. Síðan spyr ég að auki: Hefur ráðherra hugsað sér að grípa til sértækra aðgerða vegna þessa ástands?

Ég vil aftur í lokin ítreka þakkir fyrir að það hefur verið lögð töluverð vinna í að fá fram svar við því sem ég óttaðist að væri að gerast, þ.e. að fátækt hefur hreiðrað um sig á Íslandi.