Málefni einhverfra

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:59:48 (4898)

1996-04-17 14:59:48# 120. lþ. 120.8 fundur 419. mál: #A málefni einhverfra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:59]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu málefni einhverfra og einstaklinga með asperger-einkenni. Ég heyri á svörum hæstv. félmrh. að hann hefur skilning á aðstæðum þessa hóps og fagna því að komin er hreyfing á málefni þeirra eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þar sem hann hyggst hafa samráð við heilbrrn. um málefnið. Það er mjög brýnt að þau börn sem greinst hafa með asperger-einkenni fái þjónustu því að það er engin raunveruleg skipulögð þjónusta fyrir þau núna. Mjög mörg þeirra bíða eftir greiningu á barna- og unglingageðdeild og það er mikilvægt fyrir þennan hóp að fá greiningu snemma því að ef svo er ekki, þá er voðinn vís um framhaldið.

Það er líka mikilvægt eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, að haft verði samráð við foreldrafélag eða umsjónarfélag einhverfra varðandi þjónustuna og að sett verði á laggirnar fagteymi eða sérfræðileg ráðgjöf verði stofnuð eins og óskað er eftir í þessari skýrslu sem hér er spurt um. Það er algjör undirstaða allrar vinnu með einhverfa. Það er hægt að ná árangri með þeirri þekkingu sem til er en það vantar sárlega að hún nái til þeirra sem annast meðferðina. Núna er það barna- og unglingageðdeildin sem sér um að sinna þessum hópi og hún er gjörsamlega að drukkna í verkefnum og hún getur ekki veitt þá þjónustu sem þarf nema fá fleiri stöðugildi. Ég hef upplýsingar um það að nú nýlega hafi barna- og unglingageðdeildin tilkynnt að hún muni ekki geta sinnt frekari þjónustu við þennan hóp og þá er ekkert annað úrræði en Greiningarstöð ríkisins sem þarf þá að fá aukna fjárveitingu. Ég er sannfærð um að hæstv. félmrh. hefur skilning á því að þarna þarf að taka á málum. Eins og ástandið er nú á barna- og unglingageðdeildinni þá bíða á tíunda tug barna eftir greiningu og það er mjög alvarlegt ástand.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hversu vel hann hefur tekið í þessi mál.