Málefni einhverfra

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:04:45 (4900)

1996-04-17 15:04:45# 120. lþ. 120.8 fundur 419. mál: #A málefni einhverfra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef haft tækifæri til þess að kynna mér persónulega starfsemi Greiningarstöðvarinnar og ég hygg að þar sé unnið býsna merkilegt starf. Það liggur ljóst fyrir að málefnum þessa hóps verður að sinna. Það er ekki hægt að skjóta skollaeyrum við því. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Varðandi það að fara að vinna eftir skýrslunni strax, þá er auðvitað sjálfsagt að hafa hana til hliðsjónar en eins og annars staðar þarf venjulega einhverja fjármuni sem ekki voru tilgreindir á síðustu fjárlögum þannig að fjármuni verðum við þá að útvega. En ég legg áherslu á það að ég tel að við endurskoðun laganna um málefni fatlaðra sé óhjákvæmilegt að taka líka á málefnum þessa hóps þannig að hann sé á einhvert hátt varinn í löggjöf landsins.