Aðstoð við gjaldþrota einstaklinga

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:16:08 (4903)

1996-04-17 15:16:08# 120. lþ. 120.9 fundur 432. mál: #A aðstoð við gjaldþrota einstaklinga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:16]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir þessa fyrirspurn og að vekja máls á þessu, en gjaldþrot eru eins og hæstv. félmrh. gat um af ýmsum toga. Þau hastarlegustu að mínu mati eru þau þar sem fólk hefur gengist í ábyrgðir, þ.e. hefur ekki einu sinni eytt þeim peningum sem því er svo gert að greiða og hefur ekki borið ábyrgð á því. Þegar ég sat í bankaráði Íslandsbanka lagði ég til að fólkið ætti ekki að skrifa upp á nema því yrði gerð grein fyrir stöðu skuldarans áður en það gerði það. Þarna vantaði miklar upplýsingar og kynningu.

En varðandi það að uppfinningamenn fái oft lán frá fjölskyldum og öðrum slíkum, þá vil ég benda á að í fjármagnstekjuskattsfrv. sem var rætt mikið í gær er möguleiki fyrir því að menn geta lagt fram peninga í slíkt án þess að fara illa út úr því eins og er með núverandi reglum þar sem ríkið er með þegar vel gengur en ekki þegar illa gengur sem gerir það að verkum að það er mjög óskynsamlegt og mjög vitlaust að setja peninga til aðstoðar uppfinningamönnum. Ég reikna með því að ef þetta frv. um fjármagnstekjuskatt verður samþykkt, þá eigi uppfinningamenn miklu greiðari aðgang að fjármagninu og þurfi ekki að leita til ættingja og vina.