Aðstoð við gjaldþrota einstaklinga

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:17:32 (4904)

1996-04-17 15:17:32# 120. lþ. 120.9 fundur 432. mál: #A aðstoð við gjaldþrota einstaklinga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Eins og ég vissi er hann með ýmsa vinnu í gangi varðandi þá einstaklinga sem hafa lent í fjárhagsvanda. Það kom fram að ekki hefur verið gerð sérstök rannsókn á þessum málaflokki, en ýmsar aðgerðir eru í farvatninu hjá hæstv. ráðherra til að leysa úr vanda þeirra sem hafa lent í fjárhagserfiðleikum. Hins vegar sakna ég þess að ekki skuli hafa komið fram í máli hæstv. ráðherra, og það er kannski ekki endilega á hans málasviði, að taka á t.d. í bankakerfinu sem á þarna stóra sök eins og kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals þar sem hann kom inn á ábyrgðirnar og það kom einnig fram í mínu máli.

Ég kom aðeins inn á það áðan að við missum margt afbragðsfólk úr landi vegna þess ástands sem hér ríkir í þessum málum og það er mjög alvarlegt því að þetta er yfirleitt fólkið sem hefur þor og dug til að fara út í nýjungar. Ég þori að fullyrða að væri Thor Jensen í íslensku atvinnulífi í dag þá hafi hann orðið að flýja land, og væri sjálfsagt kominn á félagslega kerfið í Svíþjóð eða Danmörku, því að hann varð þrisvar sinnum gjaldþrota. En ég vil leggja áherslu á að það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf að halda fólki í landinu og ég heyri að hæstv. ráðherra hefur mikinn skilning á þessum þætti.

Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er verið að vinna ýmis mál í þessa veru í þinginu. Það hafa verið að safnast miklar upplýsingar á borð okkar þingmanna vegna fyrirspurna um þessa málaflokka, um nauðungaruppboð, um gjaldþrot, um vanskil o.s.frv. Þess vegna vildi ég gjarnan varpa þeirri spurningu fram til hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi að taka heildstætt á vanda fólks sem er gjaldþrota og þeirra sem kannski stefnir í gjaldþrot hjá, hvort ekki þurfi að fara út í einhverja nefndarvinnu og ég er tilbúin og reiðubúin til að leggja hæstv. ráðherra lið í þeim efnum fari hann út í slíkt því nauðsynlegt er að taka heildstætt á vanda þessa fólks.