Framleiðsla rafmagns með olíu

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:21:57 (4906)

1996-04-17 15:21:57# 120. lþ. 120.10 fundur 414. mál: #A framleiðsla rafmagns með olíu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Í dag höfum við þá stöðu í raforkumálum að Blanda er nánast ónotuð, hún gengur í lausagangi, Krafla er notuð rúmlega hálft árið og á sama tíma eru keyrðar dísilstöðvar um allt land sem brenna innfluttri olíu og maður spyr sig hverju þetta sætir. Svo heyrir maður að garðyrkjubændur og aðrir kvarta undan háu raforkuverði og telja sig jafnvel ekki geta farið út í atvinnurekstur vegna þess arna.

Skipulag raforkukerfisins, bæði dreifing og verðlagning, virðist vera gamaldags og ekki ráða við það að koma vörunni til skila á hæfilegu verði.

Þegar við bætist ný virkjun í kerfið þá ætti, ef það væri einhver skynsemi og ef það væru markaðslögmál sem giltu, sérstaklega ef t.d. Blanda væri Blanda hf., þá ætti stjórn Blöndu hf. að sjálfsögðu lækka verðið til þess að koma sinni raforku í verð. Það mundi valda því að verðlag almennt á raforku mundi lækka og ýmsar iðngreinar sem ekki fá staðist vegna hás orkuverðs mundu fara í gang og nýta þessa orku sem núna er ónotuð. En svo er ekki og því búum við við þessa furðulegu mótsögn að við erum að eyða dísilolíu og jafnvel að kaupa rafstöðvar á sama tíma og orkuverin eru ekki fullnýtt. Erlendis er í gangi mikil þróun um einkavæðingu og sérstaklega að hluta niður orkufyrirtæki þannig að þau keppi hvert við annað sem leiðréttir þessa agnúa sem ég gat um.

En það er fleira. Við erum t.d. með fyrirbæri sem er Rarik sem er milliliður, að því er sýnist jafnvel óþarfur milliliður, í þessu kerfi og kostar náttúrlega sitt með því að leggja á milliliðagjald.

Það getur oft og tíðum vel verið skynsamlegt að keyra dísilrafstöðvar, sérstaklega ef orkufyrirtæki nota orku mjög stutt þannig að það borgar sig ekki að búa til heilt dreifikerfi fyrir kannski 10--15 mínútur á dag eða jafnvel á mánuði. Það getur líka verið skynsamlegt undir sumum kringumstæðum þar sem er mjög dýrt er að leggja dreifileiðslu, en þetta leiðir til þess að ég spyr hæstv. iðnrh.:

,,Hverju sætir það að rafmagn er framleitt með innfluttri olíu á meðan Blönduvirkjun er vannýtt?``