Framleiðsla rafmagns með olíu

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:30:58 (4909)

1996-04-17 15:30:58# 120. lþ. 120.10 fundur 414. mál: #A framleiðsla rafmagns með olíu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:30]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að bera fram þessa fyrirspurn og hæstv. iðnrh. fyrir að svara henni. Mér fannst það mjög merkilegt sem fram kom í svari hæstv. ráðherra að aðeins er um að ræða um 0,17% af raforkunni í landinu sem framleidd er með olíu. Það er ótrúlega lítið, verð ég að segja. Ég held að áður en menn hrapa að róttækum breytingum á skipulagi raforkukerfisins í landinu, þá þurfi menn að hafa þessa staðreynd í huga því að inni í þessari raforkuframleiðslu, þessum 0,17%, er t.d. Grímsey og reyndar fleiri slíkir staðir þar sem sérstaklega háttar til.

Ég er hins vegar alveg sannfærður um það að ef Landsvirkjun liti ekki þannig á að hún væri fyrirtæki allra landsmanna og ef hún sinnti sínum notendahópi eingöngu út frá þrengstu rekstrarhagsmunum, þá væri kostnaðurinn við viðbótaraflið hærri en hann er núna en ekki lægri. Þetta gæti ég sýnt hv. þm. fram á í gögnum sem ég hef undir höndum ef hann óskaði eftir því við annað tækifæri, en ég tel ástæðu til að ræða þessi mál í heildarsamhengi og þakka honum fyrir að fitja upp á málinu.