Framleiðsla rafmagns með olíu

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:32:20 (4910)

1996-04-17 15:32:20# 120. lþ. 120.10 fundur 414. mál: #A framleiðsla rafmagns með olíu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:32]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég held að það sé hárrétt, og það kom mér á óvart þegar ég fékk þessar upplýsingar, hversu lítill hluti það er í raun og veru af raforkuframleiðslunni í landinu sem er til kominn vegna þess að olíustöðvar eru keyrðar. Það er aðeins 0,17%. Það er alveg ljóst að breytingin á gjaldskrá Landsvirkjunar árið 1992, þegar verðið var lækkað úr 101 kr. rúmri niður í 8,80 kr., gerir útslagið á það að menn fara frekar að nota yfiraflið og umframaflið heldur en að nýta olíuna í þessu sambandi. Það hefur orðið á þessu veruleg breyting.

Skipulag orkumálanna tengist þessu máli ekki nema að mjög takmörkuðu leyti eins og hv. þm. kom inn á áðan. Það var af allt öðrum toga til komið sem sú ákvörðun hefur verið tekin.

Hv. þm. Pétur Blöndal spurði, eða sagði öllu heldur, að það væri hægt að fara með þetta verð enn neðar en í 8,80 kr. vegna þess að kostnaður við framleiðsluna væri minni hjá mörgum rafveitunum. Það kann að vera rétt. Þó held ég, og þær upplýsingar hef ég, að í nýjustu og bestu veitunum er verðið á bilinu 5--6 kr. en það verð stendur aðeins undir breytilegum kostnaði og það er auðvitað alveg eðlilegt að nýta þá umframorku sem er til í kerfinu ef hún stendur undir breytilegum kostnaði. En þetta verð gildir bara fyrir nýjustu veiturnar. Í þeim eldri er þetta miklu dýrara. Ég held að það sé í raun og veru það nálægt þessu verði sem Landsvirkjun selur á að ekki sé ástæða til eins og hv. þm. Svavar Gestsson kom inn á að hlaupa til og gera miklar breytingar á þessu einmitt núna.