Dreifikerfi útvarps og sjónvarps

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:35:02 (4911)

1996-04-17 15:35:02# 120. lþ. 120.12 fundur 430. mál: #A dreifikerfi útvarps og sjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:35]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um málefni Ríkisútvarpsins og þá einkum um dreifikerfi þess og sérstaklega um rétt landsmanna til að nýta sér þá þjónustu ríkisfjölmiðilsins. Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hve mörg heimili á landinu ná ekki sendingum útvarps og sjónvarps Ríkisútvarpsins?

2. Eru uppi áætlanir um að ljúka uppbyggingu dreifikerfis þannig að það þjóni öllu landinu?

3. Hvað er reiknað með að slík uppbygging kosti?

4. Hvað líður endurskoðun Póst- og símamálastofnunar á gjaldskrá sinni fyrir flutning útvarps- og sjónvarpsmerkis eftir ljósleiðara?

Nú er það vitað þó að ekki séu það mörg heimili í prósentum talið, að samt eru þau allmörg sem búa við skert skilyrði til móttöku útvarps- og sjónvarpssendinga eða hafa enga möguleika til að nýta sér dagskrá sjónvarps og Rásar 2 en Rás 1 mun eftir því sem ég best veit alls staðar heyrast, þokkalega a.m.k. Á Norðurlandi, þar sem ég þekki best til, hef ég fylgst með því hvernig vonir eru vaktar um úrbætur sem síðan er frestað vegna þess að önnur verkefni koma til sem talin eru brýnni. Því er mikilvægt að mínum dómi að fá fram hvort ekki sé meiningin að ljúka uppbyggingunni þannig að landsmenn allir njóti þessara miðla. Það væri miklu betra að fá það fram svo fólk gæti við það miðað, ef ekki á að ljúka dreifikerfinu til þess hluta þjóðarinnar sem eftir er að koma sjónvarpsmerkinu til.

Að mínum dómi hlýtur það að vera forgangsverkefni Ríkisútvarpsins umfram flest önnur verkefni að landsmenn allir njóti þessara grundvallarréttinda sem við teljum sjálfsögð, að hafa útvarp og sjónvarp. Ég vonast til að hæstv. menntmrh. svari þessum spurningum og einnig hinni sem er þessum tengd um gjaldskrá Pósts og síma fyrir notkun á ljósleiðaranum til að senda útvarps- og sjónvarpsmerki en gjaldskráin er svo há að Ríkisútvarpið telur hagsmunum sínum betur borgið með því að eiga og reka eigið dreifikerfi en það hlýtur að vera þjóðhagslega óhagkvæmt að byggja upp og reka dýrt dreifikerfi þegar ljósleiðarinn sem er fyrir hendi gæti tekið við því hlutverki að verulegu leyti.