Dreifikerfi útvarps og sjónvarps

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:38:12 (4912)

1996-04-17 15:38:12# 120. lþ. 120.12 fundur 430. mál: #A dreifikerfi útvarps og sjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: ,,Hve mörg heimili á landinu ná ekki sendingum útvarps og sjónvarps Ríkisútvarpsins?``

Að því er útvarp varðar þá ná öll heimili sendingum Rásar 1 frá FM, lang- eða miðbylgjusendum. Um það bil 99,4% landsmanna ná útsendingum Rásar 2 og er þá miðað við fasta búsetu og eru því um 1.500 manns utan dreifisvæðis Rásar 2. Að því er sjónvarp varðar eru um 50 sveitabæir sem ekki ná útsendingum sjónvarpsins og um 30 bæir búa við léleg móttökuskilyrði eða alls um 80 bæir.

Spurt er: ,,Eru uppi áætlanir um að ljúka uppbyggingu dreifikerfis þannig að það þjóni öllu landinu?`` Og einnig: ,,Hvað er reiknað með að slík uppbygging kosti?``

Til þess að Rás 2 nái til allra heimila í landinu er talið að fjölga þurfi sendum rásarinnar um 160. Þeir eru nú 68. Kostnaður við þá fjárfestingu er áætlaður um 220 millj. kr. Er þá miðað við þá stærð senda sem er algengust í dreifikerfinu. Gert er ráð fyrir að það kosti um 240 millj. kr. að koma sjónvarpi til um 80 sveitabæja sem eru utan dreifikerfisins eða búa við léleg skilyrði eins og að framan segir. Það munu ekki vera uppi áætlanir um það hjá Ríkisútvarpinu að fullgera dreifikerfið.

Fjórða spurningin lýtur að endurskoðun á gjaldskrá Póst- og símamálastofnunar. Ég get ekki litið á það sem hlutverk mitt að svara um það efni. Það heyrir undir annan ráðherra, hæstv. samgrh. Á hinn bóginn tel ég að það sé mjög æskilegt að íhuga það að Póst- og símamálastofnunin taki alfarið að sér dreifikerfi útvarpsins og sjónvarpsins þannig að Ríkisútvarpið verði þar frekar sem viðskiptavinur heldur en eigandi að dreifikerfinu.