Flutningur sjónvarpsins í útvarpshúsið

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:44:22 (4916)

1996-04-17 15:44:22# 120. lþ. 120.13 fundur 431. mál: #A flutningur sjónvarpsins í útvarpshúsið# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:44]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurningin snerist um það hvað liði störfum þeirrar nefndar sem ég setti á laggirnar til þess að fjalla um húsnæðismál Ríkisútvarpsins. Raunar var þeirri spurningu svarað áður en til þessarar umræðu kom því að hinn 3. apríl sl. fékk ég bréf frá starfshópi sem ég setti til þessara starfa 19. júlí sl. og í áttu sæti Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður útvarpsráðs, Heimir Steinsson útvarpsstjóri, Pétur Guðfinnsson, framkvæmdastjóri sjónvarps, Markús Örn Antonsson, framkvæmdastjóri hljóðvarps, og Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður minn.

Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að það væri hagkvæmt að flytja starfsemi Ríkisútvarpsins undir eitt þak og í áliti hennar kemur fram að hún telur að fjárfestingin við flutninginn á starfsemi sjónvarpsins í Efstaleiti muni kosta um 515 millj. kr. Þar af sé frágangur húsnæðis og lóðar um 370 millj., frágangur aðalmyndvers 80 millj. og flutningur búnaðar og endurnýjun 65 millj.

Þá kemur einnig fram í þessu bréfi að það sé mat fjármáladeildar Ríkisútvarpsins að árlegur sparnaður við rekstur Ríkisútvarpsins undir einu þaki í Efstaleiti sé um 46,6 millj. kr. og síðan er vakið máls á því í bréfinu að fram hafi komið óskir um það frá Stöð 2 að kaupa húsnæði sjónvarpsins við Laugaveg. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að þetta bréf var ritað hinn 3. apríl sl. hafa þeir atburðir gerst að forráðamenn Stöðvar 2 hafa keypt annað húsnæði undir starfsemi sína þannig að það má segja að hafi verið þörf á skjótum aðgerðum í þessu máli vegna hugsanlegrar sölu húsnæðisins á Laugavegi þar sem sjónvarpið er þá sé sá tími nú liðinni og það megi þess vegna að gefa sér tóm til þess að skoða betur þau gögn sem fram hafa verið lögð og eru forsendur fyrir þessari niðurstöðu nefndarinnar. Ég hef í hyggju að nýta mér það og athuga þetta mál nánar og skoða í stærra samhengi við framtíð Ríkisútvarpsins því að þessi hús hlaupa í sjálfu sér ekki frá okkur. Hinu vil ég vara við að menn fari strax að velta því fyrir sér hvort sá rekstrarsparnaður sem þarna er nefndur eigi að renna til þess að byggja upp dreifikerfið. Það væri miklu nær að nýta hann ef í þessar framkvæmdir yrði ráðist til þess að standa straum af kostnaði við þessar framkvæmdir. Menn verða einnig að gera það upp við sig og velta því fyrir sér hvort þeir vilja á þessum tímum verja rúmlega hálfum milljarði í þessar framkvæmdir eða ekki. Þetta er mál sem eðlilegt er að menn gefi sér færi til þess að skoða í samhengi við framtíð Ríkisútvarpsins og ýmsa stöðu í fjármálum ríkisins.