Innheimta opinberra gjalda

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 15:50:30 (4919)

1996-04-17 15:50:30# 120. lþ. 120.14 fundur 454. mál: #A innheimta opinberra gjalda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi TIO (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:50]

Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að við innheimtu skipulagsgjalds hefur þeirri verklagsreglu verið beitt að gera einum eiganda að sameign að greiða heildarskipulagsgjald fyrir sameignina í stað þess að eigendum væri gert að greiða í samræmi við þeirra eignarhlut. Þessari innheimtuaðferð hefur nú verið breytt. Í skriflegu svari við fyrirspurn minni um þátt fjmrn. í þessu máli segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Það er því ekki á forræði fjármálaráðuneytis að kveða á um skýringu skipulagslaga, þar með taldar forsendur álagningar skipulagsgjalds, og hefur ráðuneytið enga verklagsreglu sett um innheimtu gjaldsins.``

Jafnframt því sem ráðuneytið vísar frá sér ábyrgð á umræddri verklagsreglu er í svarinu viðurkennt, og vitnað þá í upplýsingar frá Fasteignamati ríkisins og ríkisbókhaldi, að við umrædda verklagsreglu hafi verið stuðst við innheimtu skipulagsgjaldsins. Þar sem hér er um innheimtuaðferð að ræða og umræddar stofnanir, Fasteignamat ríkisins og Ríkisbókhald, heyra stjórnskipulega undir fjmrn. er rétt að fá skýringu á því hver ber í raun ábyrgð á því að með þessum hætti hefur verið staðið að innheimtu gjaldsins.

Í fyrirspurn minni til hæstv. fjmrh. var einnig spurst fyrir um hvort innheimtuaðferð sú sem hér um ræðir styddist við lagaheimildir. Í svari hæstv. ráðherra kemur ekki fram að innheimtuaðferðin styðjist við sérstakar lagaheimildir, en því er hins vegar lýst yfir að það brjóti ekki í bága við lög að innheimta hjá einum eiganda gjöld fyrir eign sem fleiri eiga í sameign.

Þótt slík innheimta flokkist ekki undir lögbrot verður hún að teljast afar sérkennileg sem venjulegt innheimtuúrræði. Ekki verður hér borið við neins konar neyðarrétti þar sem ekki er um að ræða ítrekaðar innheimtuaðgerðir sem ekki hafa borið árangur. Verður innheimtu opinbers gjalds að þessu leyti alls ekki jafnað til þeirra úrræða sem t.d. framkvæmdaaðilar gætu gripið til til þess að ná inn útistandandi skuldum vegna framkvæmda við sameign með því að ganga að þeim eiganda sameignarinnar sem líklegastur væru til þess að vera borgunarmaður fyrir skuldinni sem ekki hefur tekist að innheimta með öðrum hætti. Þótt innheimta af því tagi sem hér um ræðir teljist ekki lögbrot verður hún þó að teljast óframkvæmanleg út frá jafnræðisreglu og lágmarkssanngirniskröfu. Hér er því eðlilegt að spurt verði hvort ekki sé rétt að banna með lögum innheimtuaðferðir af þessu tagi og því hef ég lagt fyrir hæstv. fjmrh. eftirfarandi þrjár spurningar:

1. Hver er að mati ráðherra ábyrgur fyrir þeirri innheimtuaðgerð að gera einum eiganda af mörgum að standa skil á heildarskipulagsgjaldi fyrir sameign án þess að sérstakar lagaheimildir standi til slíkrar innheimtu opinbers gjalds?

2. Telur ráðherra eðlilegt og sanngjarnt að einn aðili sé gerður ábyrgur fyrir greiðslu opinberra gjalda af sameign? Ef svo er, í samræmi við hvaða sanngirnis- eða jafnræðisreglu telur hann rétt að velja slíkan aðila?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að bannað verði með lögum að krefja einn eiganda um heildargreiðslu opinbers gjalda af sameign?