Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 20:34:01 (4924)

1996-04-17 20:34:01# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., Flm. JBH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[20:34]

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Fjölmiðlar hafa að undanförnu nær daglega flutt okkur gleðitíðindi upp úr ársreikningum fyrirtækja um batnandi hag og auknar arðgreiðslur til eigenda. En eigendur fyrirtækjanna eiga í vændum óvæntan viðbótarglaðning ef frv. ríkisstjórnarinnar um fjármagnstekjuskatt nær óbreytt fram að ganga. Það er eins konar tilboð sem ekki verður unnt að hafna svo vísað sé til frægra orða. Ég vil því í upphafi máls míns, herra forseti, nota tækifærið áður en það verður um seinan og flytja varnaðarorð í áheyrn alþjóðar.

Ef hv. alþingismenn samþykkja frv. ríkisstjórnarinnar um svokallaðan fjármagnstekjuskatt óbreytt, þá eru þeir í reynd að færa hinum fjársterku í þessu þjóðfélagi gjöf á kostnað almennra sparifjáreigenda eins og reyndar einn þingmanna Sjálfstfl., hv. 4. þm. Vesturl., viðurkenndi í umræðunum í gær. Hver er skýringin á þessu? Hún er sú að í frv. ríkisstjórnarinnar um 10% flatan skatt á sparnað almennings hefur verið lætt inn smyglgóssi. Það var ekki að finna í erindisbréfi nefndarinnar sem samdi frv. en það skiptir hins vegar sköpum um skattaleg áhrif frv. Skýringarnar eru þessar: Sjálfstfl. hefur samið um það við fulltrúa fjármagnseigenda og gert það sennilega að skilyrði fyrir stuðningi sínum við fjármagnstekjuskatt að skattur á arð, sölu- og gengishagnað, leigutekjur o.fl. verði lækkaður úr 42--47% eins og er að gildandi lögum niður í 10%. Hin ástæðan er sú að skattfrádráttur vegna útborgaðs arðs til eigenda fyrirtækja er stóraukinn með nýjum heimildum til að uppfæra nafnverð hlutabréfa.

Afleiðingarnar verða fyrirsjáanlega þessar: Skattgreiðslur fyrirtækja, hluthafa og einstaklinga í atvinnurekstri munu lækka sem nemur mörg hundruð millj. kr. Ríkið mun tapa tekjum sem því svarar og tekjustofnar sveitarfélaganna munu rýrna um u.þ.b. 300 millj. frá því sem ella væri, enda mótmælir nú Samband sveitarstjórna hástöfum. Það var ekki einu sinni haft fyrir því að láta þá vita af þessu; kannski frumvarpshöfundarnir hafi ekki vitað það sjálfir.

Skýringarnar á þessu öllu saman eru eftirfarandi: Sérsköttun sumra tekna með lægri álagningu býður úrræðagóðum fjármagnseigendum upp á ótal leiðir til að færa til fjármagn og skapa sér það sem kallast skattahagræði. Það verður ómótstæðileg freisting fyrir fjársterka aðila að færa til tekjur úr því formi sem ber háa skatta yfir í ívilnandi skattasmugur. Sérstaklega verður þetta freistandi þar sem sérsköttunarleið ríkisstjórnarinnar nær alls ekki til allra fjármagnstegunda, t.d. ekki til rekstrarhagnaðar einstaklinga og sameignarfélaga. Hvort tveggja er þó fjármagnstekjur. Í tillögunum felst því ekki aðeins mismunun milli einstaklinga eftir því hvaða nafn tekjur bera, heldur einnig eftir því formi atvinnurekstrar sem menn velja sér. Sérsköttunarleiðin leiðir til sérréttinda eins og er margsannað mál. Skýrum þetta með dæmum, herra forseti.

Reiknað endurgjald sjálfstæðra atvinnurekenda nam um 15 milljörðum kr. árið 1994. Samkvæmt gildandi skattalögum eru þessar tekjur nú skattlagðar eins og aðrar tekjur í hlutfallinu 41,9%. Ef við nú gefum okkur að þeir einstaklingar sem áttu bara helming af reiknuðu endurgjaldi taki tilboði ríkisstjórnarinnar og breyti rekstrarformi í ehf. þá gerist eftirfarandi: Þeir sem áður greiddu 2,6 milljarða í tekjuskatt með tryggingagjaldi greiða nú rekstrarafganginn út sem arð sem ber einungis 10% skatt. Þessi skattahagræðing gæti tryggt þessum aðilum skattalækkun sem nemur um það bil 1,5 milljörðum kr. Það er helmingi hærri upphæð en fjármagnstekjuskattur ríkisstjórnarinnar á að skila að nafninu til.

Annað dæmi: Rekstrarhagnaður einstaklinga og sameignarfyrirtækja var um 7 milljarðar kr. árið 1994. Þessir aðilar greiddu í óbreyttu kerfi í tekjuskatt og tryggingagjald 3,1 milljarð. Þetta eru skynsamir menn. Þess vegna skulum við gefa okkur að þessir aðilar breyti um rekstrarform, færi til tekjur sínar í hagstæðari skatthlutfall og verði framvegis hlutafélag. Gefum okkur, vegna þess að það er raunsætt, að aðeins helmingur útborgaðs arðs verði innan en hinn helmingurinn utan 10% skattfrjálsu reglunnar. Þá verður niðurstaðan sú að skatttekjurnar verða 1,7 milljarðar. Það þýðir skattalækkun upp á 1,4 milljarða.

Ég hef ekki tíma til að nefna nema þessi tvö dæmi, en um þetta má segja að gjafir eru yður gefnar sumum hverjum.

Herra forseti. Í Morgunblaðsviðtali þann 10. mars segir hv. þm. Pétur Blöndal, sem hefur gengist við þessu frv., orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þeim sem eiga stórar fjárhæðir í hlutabréfum hefur hingað til reynst auðvelt að komast hjá því að greiða fulla skatta af arðgreiðslum.``

Ekki treysti ég mér til þess að rengja hv. þm., enda má hann gerst vita. En ég spyr: Hvaða nauður rekur til þess að lækka skatta hinna fáu en ríku um hundruð milljóna á sama tíma og arðgreiðslur til þeirra fara ört vaxandi? Eru einhver sérstök rök fyrir því að leggja 10% flatan skatt á almennan sparnað en nýta þær tekjur hins vegar til þess að niðurgreiða skatta þeirra 10% skattgreiðenda sem fá í sinn hlut meira en helming af öllum fjármagnstekjum? Hafi hin fleygu orð hæstv. forsrh. við hæstv. fjmrh. einhvern tíma verið viðeigandi, þá eiga þau við af þessu tilefni: Svona gera menn ekki, hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Þetta er meginástæðan fyrir því að við jafnaðarmenn með atbeina þriggja stjórnarandstöðuflokka, Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka, höfum lagt fram annað frv. um tekjuöflun og tekjujöfnun, þ.e. frv. sem á að tryggja að upphafleg markmið sem lagt var upp með nái fram að ganga.

Aðalatriði frv. okkar eru þessi:

1. Vaxtatekjur verði skattlagðar innan núverandi tekjuskattskerfis. Álagningarhlutfall verður að meðaltali samkvæmt okkar tillögum 11%, þ.e. 1% hærra en í tillögum ríkisstjórnarinnar. Vaxtatekjur eiga að mynda sameiginlegan skattstofn með öðrum tekjum vegna þess að það er aðeins með því að miða við heildartekjur hvers einstaklings án tillits til þess hvernig tekna er aflað sem hægt er að miða álagningu við raunverulega greiðslugetu skattgreiðenda. Rökin fyrir þessu vega þungt. Allt okkar álagningarkerfi skatta, bætur og ívilnanir, miðast við þetta kerfi. Það eru þess vegna engin rök fyrir því að búa nú til sérstakt skattkerfi utan um sumar tegundir fjármagnstekna og sér í lagi ekki þegar þetta skilar ríkissjóði engum tekjum en ívilnar hinum fáu á kostnað hinna mörgu.

2. Samkvæmt okkar frv. er skattstofninn skilgreindur sem 60% vaxtatekna. Rökin fyrir þessu eru veigamikil. Þá er hvorki verið að skattleggja verðbótaþátt vaxta sem eru ekki tekjur né heldur neikvæða vexti, en hvort tveggja er gert í tillögum ríkisstjórnarinnar. Með þessu móti er heldur engin þörf á sérstökum frádrætti á móti vegna vaxtagjalda en það gæti orðið flókið í framkvæmd.

3. Frv. okkar gerir ráð fyrir sérstöku frítekjumarki fyrir almenna sparifjáreigendur. Frádráttur frá vaxtatekjum verður 80 þús. kr. fyrir hjón. Þar með komum við í veg fyrir skattlagningu vaxta af lágvaxtareikningum launþega og veltureikningum sem raunverulega bera uppi skattkerfið og bankakerfið á Íslandi og komum þar með í leiðinni í veg fyrir líkur á hækkun vaxta.

4. Sumir hafa haft áhyggjur af því að álagningarprósentan, af því að hún er innan tekjuskattskerfisins, verði of há. Svarið við því er alveg afdráttarlaust: Nei, menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því. Með því að skilgreina skattstofninn sem 60% vaxtatekna og með því að hafa sérstakt frítekjumark fyrir einstaklinga og hjón, þá verður meðalskattprósentan eins og ég sagði 11%, þegar skatturinn verður fyrst lagður á, en fer hæst í 18% þegar hann verður að fullu kominn til framkvæmda. Þetta verður best skýrt með dæmi: Hjón sem eiga 2,4 millj. kr. í sparifé miðað við 5,5% ársávöxtun, munu samkvæmt okkar tillögum ekki greiða neinn vaxtaskatt af sínum tekjum.

5. Meðalskattprósentan samkvæmt okkar tillögum verður með því lægsta sem fyrirfinnst á samanburðartöflum OECD-ríkjanna. Munurinn á tillögunum er hins vegar sá að greiðslubyrðin í heild, þeirra sem bera skattinn, verður öll önnur og réttlátari samkvæmt okkar tillögum.

6. Um áhrif skattsins á sparnað, vexti og hugsanlegt fjárstreymi úr landi er eftirfarandi að segja: Þar sem meiri hluti sparenda, bæði litlir sparifjáreigendur og lífeyrissjóðir, verða ekki skattlagðir og þar sem um er að ræða lágan skatt í alþjóðlegum samanburði, þá er ekki ástæða til að ætla að hann dragi úr sparnaðarvilja almennings né heldur að hann valdi hækkun vaxta eða ýti undir fjárflótta úr landi. Öfugt við tillögur stjórnarflokkanna, sem fela í sér tekjutap ríkisins og sveitarfélaganna sem nemur mörg hundruð millj. kr., þá má gera ráð fyrir því að þetta frv. okkar skili í reynd um 1 milljarði kr. í tekjur á næsta ári, þar af 800 millj. til ríkisins og 200 millj. til sveitarfélaga, en á næstu árum mun þessi tekjustofn hækka í 1,7 milljarða.

Herra forseti. Tekjum samkvæmt frv. stjórnarandstöðunnar má síðan verja til að stuðla að frekari tekjujöfnun með því að verja þessu fé til þess að draga úr tekjutengingu bóta, bæði launþega og lífeyrisþega, og lækka þannig þá jaðarskatta, sem eru helsta böl okkar núverandi skattkerfis, þeir eru orðnir vinnuletjandi, þeir koma í veg fyrir að skuldugar barnafjölskyldur geti unnið sig út úr skuldum og það er rétt forgangsröð að byrja á því. Við þurfum því ekki frekar vitnanna við um það hvor leiðin, leið okkar eða leið ríkisstjórnarinnar, er réttlátari og skynsamlegri.

Herra forseti. Hvað hefur hæstv. fjmrh. og aðrir stjórnarliðar fram að færa sér til málsbóta í þessu máli? Þeir nefna klisjuna um nauðsyn samræmingar fjármagnstekna en hún dugar ekki því að þeir eru ekki að samræma skattlagningu á allar fjármagnstekjur. Þeir eru að smíða tvenns konar skattkerfi: Eitt fyrir launafólk og lífeyrisþega með háum sköttum en annað fyrir fjármagnseigendur með lágum sköttum og smugum fyrir skattundandrátt í kaupbæti.

[20:45]

Það er sýnd veiði en ekki gefin að nýta eigi ráðstöfunartekjur ríkisins af 10% flötum vaxtaskatti til þess að lækka eignarskatta, en það er helsti boðskapur hæstv. fjmrh. Það er einfaldlega ekki hægt vegna þess að skatturinn hans skilar engum tekjum.

Þegar önnur rök þrýtur, þá fullyrða stjórnarliðar: Já, en þetta er samt nauðsynlegt til þess að beina fjármagni almennings í áhættufjárfestingu í fyrirtækjum. Við erum öll sammála um að það hljóti að vera gott því að það örvar fjárfestingu og skapar störf. Svar mitt við þessu er eftirfarandi: Fjárstreymi út úr fyrirtækjum í formi aukinna skattfrjálsra arðgreiðslna til eigenda veikir eiginfjárstöðu fyrirtækjanna en styrkir hana ekki. Ef stjórnarliðar meina það sem þeir segja, þá færu þeir að eins og frægur maður, Erhardt, í þýska efnahagsundrinu á sínum tíma eða Japanar. Þeir fóru nefnilega þveröfugt að. Þeir lögðu lágan skatt á hagnað fyrirtækja eins og við reyndum í fyrrv. ríkisstjórn og lækkuðum þá skatta, en þeir skattlögðu útborgaðan arð til eigendanna upp í topp eins og aðrar tekjur og litu nánast á það sem refsivert athæfi að taka peninga út úr fyrirtækjunum. En íslenska uppa- og jeppaliðið sem lítur á fyrirtæki sín sem skattaskjól og uppsprettu einkaneyslu mun að sjálfsögðu fagna frv. ríkisstjórnarinnar. En ég spyr: Ætlar forusta verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi að fara með í það partí?

Herra forseti. Alþfl. hefur sýnt það í verki að hann hefur fullan skilning á nauðsyn þess að atvinnulífið búi við samkeppnishæf skilyrði. Það er einmitt þess vegna sem við beittum okkur fyrir því á seinasta kjörtímabili að lækka skatta á fyrirtæki. Við afnámum aðstöðugjald, við lækkuðum tekjuskatt á fyrirtækjum og við komum á í samstarfi við hæstv. fjmrh. sérstökum skattfrádrætti til þess að örva hlutabréfakaup almennings. Þetta hefur gengið eftir. En við vörum við því að hvetja til þess með sérstökum skattívilnunum að borga út stóraukinn arð til eigenda í stað þess að reyna að bæta eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja með því að halda fjármagninu virku og innan þeirra.

Herra forseti. Í viðtali við Morgunblaðið 10. mars sagði hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., löggiltur endurskoðandi, eftirfarandi um frv. ríkisstjórnarinnar, orðrétt, með leyfi forseta:

,,Gallinn er sá að þeir sem eru með háar tekjur lækka í sköttum.`` En hann bætti svo við: ,,En á móti kemur aukinn hvati til að leggja áhættufé í atvinnulíf.``

Hér viðurkennir formaður Framsfl. berum orðum að þeir framsóknarmenn eru að lækka skatta á háar tekjur eins og ég hef sýnt fram á í ræðu minni með órækum dæmum. Hitt er misskilningur að almenningur verði betur aflögufær til að fjárfesta í fyrirtækjum við það að ríkið hirði tíund af hans litla sparnaði og verji síðan tekjunum til þess að niðurgreiða skatta hinna efnameiri.

Þess er skemmst að minnast, herra forseti, að fyrir seinustu kosningar sló Framsfl. öll met í innihaldslausum kosningaloforðum, en í öllum þeim loforðaflaumi um gull og græna skóga minnast kjósendur þess áreiðanlega ekki að endurskoðandinn, formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., hafi lofað að lækka skatta á háar tekjur.

Herra forseti. Með því að skattleggja heildartekjur einstaklinga innan tekjuskattskerfisins eins og við stjórnarandstæðingar leggjum til, þá náum við settum markmiðum með þessari skattlagningu, tekjuöflun og tekjujöfnun. Með því að skilgreina skattstofninn sem 60% af tekjum, þá komum við í veg fyrir rangláta skattlagningu á verðbætur og neikvæða vexti. Með sérstöku frítekjumarki hlífum við hinum almenna sparifjáreiganda og viðhöldum sparnaðarvilja almennings sem er nauðsynlegt. Þeir sem fá hins vegar 50% vaxtatekna í sinn hlut greiða samsvarandi hlutfall af skattinum samkvæmt okkar tillögum. Samt verður meðalskatturinn með því lægsta sem þekkist meðal viðmiðunarþjóða.

Herra forseti. Þannig náum við fram settum markmiðum um hvort tveggja í senn, tekjuöflun og tekjujöfnuð í þjóðfélaginu. Þess vegna trúi ég því ekki fyrr en ég tek á því að meiri hluti hv. alþingismanna muni ekki við nánari skoðun málsins fallast á rök skynsemi og réttlætis í þessu máli þegar því verður að lokum áfrýjað til æðsta dóms löggjafarvaldsins, þ.e., herra forseti, til samvisku okkar þingmanna allra, hvers og eins. --- Ég þakka áheyrnina.