Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 21:21:49 (4928)

1996-04-17 21:21:49# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ISigm
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[21:21]

Ingibjörg Sigmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í upphafi vil ég fagna því að álagning fjármagnstekjuskatts skuli vera til umfjöllunar á Alþingi en það hefur verið baráttumál Alþb. til margra ára. Tvö frumvörp um álagningu skattsins liggja hér fyrir, annað frá stjórnarflokkunum og hitt frá Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka. Töluverður munur er á þessum frumvörpum, en ég ætla aðeins að taka á einum þætti þessara frumvarpa, þ.e. áhrif þeirra á tekjur sveitarfélaganna.

Samkvæmt frv. þriggja stjórnarandstöðuflokka er að sjálfsögðu reiknað með að fjármagnstekjuskattur verði hluti af hinu almenna skattkerfi og því fái sveitarfélögin sinn hluta skattsins samkvæmt útsvarsprósentu. Þannig er tryggt að tekjutapi sveitarfélaganna vegna breytingar á skatti á arðgreiðslu verði mætt með hækkun útsvars og gott betur.

Lengi hefur gætt nokkurrar tortryggni í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og ekki verður frv. hæstv. ríkisstjórnar um fjármagnstekjuskatt til að draga þar úr. Við samningu frv. var ekkert samráð haft við Samband ísl. sveitarfélaga og eins og kom fram í máli hæstv. félmrh. í gær eru komin hörð viðbrögð úr þeirra herbúðum. Í stjfrv. er ekki gert ráð fyrir að hluti fjármagnstekjuskatts renni til sveitarfélaganna. Samt er gert ráð fyrir töluverðu tekjutapi þeirra vegna arðgreiðslna en samkvæmt frv. á að greiða 10% fjármagnstekjuskatt af þeim en ekki venjulega staðgreiðsluprósentu eins og áður. Að auki skulu sveitarfélögin greiða 10% fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum sínum án tillits til vaxtagjalda sem í nær öllum sveitarfélögum eru hærri heldur en vaxtatekjurnar. Sem dæmi um vaxtatekjur sveitarfélaga má nefna vexti af skuldabréfum vegna gatnagerðarframkvæmda. Þetta eru lán sem í nær öllum tilfellum eru endurlán. Það er líka rétt að geta þess að í helmingi OECD-ríkja er heimilt að draga vaxtagjöld frá vaxtatekjum. Þessi valdníðsla stjórnarliða er ólíðanleg. Um leið og sveitarstjórnum er gert skylt að skila félmrn. þriggja ára áætlun í upphafi hvers kjörtímabils gerir ríkisvaldið þeim ókleift að fara eftir þessum áætlunum því það er stöðugt verið að breyta tekjustofnum sveitarfélaga eða leggja auknar álögur á þau. En nú er bæði klippt og skorið.

Nýjasta dæmið um skerðingu á tekjum sveitarfélaga var þegar þingið ákvað á síðasta ári að breyta skattlagningu lífeyrisgreiðslna og bæta tekjutapið með hækkun tryggingagjalds sem þýddi tekjuskerðingu fyrir sveitarfélögin upp á 700 millj. Loks þegar samkomulag er í höfn um hlutdeild sveitarfélaga í staðgreiðslu skatta í kjölfar færslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga, ætlar ríkisstjórnin með frv. sínu um fjármagnstekjuskatt að leggja nýjar álögur á sveitarfélögin. Ég legg til að stjórnarliðar kynni sér fjárhagsstöðu sveitarfélaga áður en fleiri slík frumvörp verða lögð fram.

Ef þetta frv. verður að lögum þýðir það skerðingu á tekjum sveitarfélaga um 200--300 millj. kr. Það er breyting á skatti á arðgreiðslur um 130 millj. og fjármagnstekjuskattur á sveitarfélög gerir um 70 millj. auk annarra minni breytinga.

Í frv. þriggja stjórnarandstöðuflokka fara hins vegar hagsmunir ríkis og sveitarfélaga saman og sameiginlegur tekjustofn sveitarfélaga og ríkissjóðs styrktur því þar eru allar fjármagnstekjur hluti af skattstofni tekjuskatts og útvars.

Herra forseti. Ég ætla að trúa því og treysta að við 2. umr. liggi fyrir umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um þessi frumvörp, mér skilst að þessi umsögn sé reyndar komin í hús, og trú mín á þessari löggjafarsamkundu er enn það mikil að ég treysti því meira að segja að tekið verði tillit til þeirrar umsagnar við endanlega afgreiðslu málsins.