Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 22:00:26 (4932)

1996-04-17 22:00:26# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[22:00]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Um árabil hefur verið til umræðu að koma á fjármagnstekjuskatti hér á landi sem fæli það í sér að vaxtatekjur yrðu skattlagðar. Á síðasta kjörtímabili voru í tvígang lagðar fram viðamiklar skýrslur með mismunandi tillögum um fjármagnstekjuskatt, en allt kom fyrir ekki. Alþfl. sem fer mikinn í umræðunni lét sér lynda að sitja í ríkisstjórn í fjögur ár án fjármagnstekjuskatts meðan þeir jaðarskattar sem nú valda formanninum svo þungum áhyggjum voru auknir gífurlega með margs konar tekjutengingum, skattar hækkaðir og þjónustugjöld tekin upp.

Nú bregður hins vegar svo við að fyrir Alþingi liggja tvö frv. þar sem boðið er upp á tvær mismunandi leiðir til að koma á fjármagnstekjuskatti. Annars vegar er um að ræða stjfrv. sem byggir á tillögum nefndar sem í áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka auk ASÍ og VSÍ. Hins vegar frv. formanna stjórnarandstöðuflokkanna annarra en Kvennalistans.

Síðasta vor skipaði hæstv. fjmrh. nefnd sem falið var að gera tillögur um hvernig heppilegast væri að standa að skattlagningu fjármagnstekna. Þáv. stjórnarandstaða velti því fyrir sér hvort rétt væri að taka þátt í slíku starfi og komst að þeirri niðurstöðu að betra væri að reyna að hafa áhrif og ná samstöðu um fjármagnstekjuskatt en að sitja hjá í máli sem lengi hefur verið baráttumál okkar allra. Eftir margra mánaða starf og ítarlegar umræður komst nefndin að þeirri niðurstöðu að leggja til samræmdan 10% fjármagnstekjuskatt án undanþágna.

Það var ljóst allan tímann að allir teygðu sig til hins ýtrasta þannig að samstaða tækist og niðurstaðan varð málamiðlun sem allir töldu ásættanlega og skrifuðu undir. Stjórnarandstöðufulltrúarnir gerðu bókun þar sem þeir áskildu sér rétt til að styðja breytingartillögur og koma um leið á framfæri athugasemdum sínum við þá leið sem sátt hafði náðst um. Það kom okkur kvennalistakonum því mjög á óvart að formenn þriggja stjórnarandstöðuflokka skyldu kjósa að leggja fram nýtt frv. þar sem lögð er til allt önnur leið, leið sem rædd var ítarlega í nefndinni en samstaða náðist ekki um, m.a. vegna þess hve erfið hún er í framkvæmd og vegna þeirra áhrifa sem hún kann að hafa á fjármagnsflótta úr landi. Hvað gengur formönnunum til? Hvaða leik er verið að leika? Ætla þeir að axla ábyrgðina á því að fjármagnstekjuskattur detti enn einu sinni upp fyrir? Ég fæ ekki betur séð en málið sé komið í háa loft og get ekki leynt ótta mínum um að þar með sé fjármagnstekjuskattur úr sögunni í bili. Fari svo munu líða mörg ár þar til aftur verði gerð tilraun til að sameinast um fjármagnstekjuskatt.

Sú leið sem nefndin leggur til og er að finna í stjfrv. felur í sér að fjármagnstekjuskattar verða samræmdir og lagður 10% flatur skattur á allar fjármagnstekjur. Það þýðir að skattar lækka á arðgreiðslum, söluhagnaði og leigutekjum. Í heild er áætlað að skatturinn skili um 1.100 millj. kr. í ríkissjóð þegar allt er fram komið og þessi leið hefur þann kost að vextir verða nú skattlagðir að nýju. Aðferðin er einföld og ódýr í framkvæmd og fjármagn er losað sem væntanlega mun nýtast til fjárfestinga í atvinnulífinu og styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækja.

Gagnrýnin á þessa aðferð er af tvennum toga: Annars vegar að með þessu sé verið að skattleggja eyri ekkjunnar og rýra tekjur sveitarfélaganna um hundruð milljóna. Hins vegar að með lækkun skatta, sérstaklega á arðgreiðslum, sé verið að færa fé til hinna ríku og opna leiðir til breytinga á fyrirtækjum sem leiða munu til verulegs tekjutaps ríkissjóðs.

Því er til að svara að 10% skattur á vexti er svo lágur að það er erfitt að sjá að marga muni um hann. Ekkja sem á eina millj. kr. í banka og fær 7,5% í vexti borgar 7.500 kr. í fjármagnstekjuskatt, hvorki meira né minna af heilli milljón og hún á eftir 67.500 kr. af þessum vaxtatekjum. Þetta eru einmitt meðalvaxtatekjur. Þessi sama ekkja mundi greiða tæpar 9 þús. kr. í vaxtaskatt yrðu tillögur formannanna þriggja að veruleika. Er verið að skattleggja síðasta eyri ekkjunnar? Einhver hefði sagt að röksemdir af þessu tagi væru bull.

Það má auðvitað spyrja hvort réttlátt sé að skattleggja vexti af sparifé yfirleitt og hvaða áhrif slík skattlaging hafi á sparnað. En það er nú einu sinni það sem vaxtatekjuskattur gengur út á, að skattleggja vexti hvaðan sem þeir koma eins og aðrar tekjur. Þeir sem hafa litlar sem engar tekjur en eiga fé í banka geta notað ónýttan persónuafslátt samkvæmt tillögum nefndarinnar á móti skattinum. Og þó að í þeim hópi kunni að vera einhverjir sem hafa verulegar fjármagnstekjur, þá er langstærstur hluti hópsins gamalt fólk og öryrkjar sem þar með borga engan fjármagnstekjuskatt.

Kemur þá að hinu atriðinu, hvaða áhrif lækkun skatta á arðgreiðslur muni hafa. Því hefur verið haldið fram að menn muni í stórum stíl breyta einkafyrirtækjum í hlutafélög eða einkahlutafélög og greiða sér út arð til að komast hjá skattgreiðslum. Þetta atriði þarf auðvitað að kanna sérstaklega, en eftir því sem ég fæ best séð stenst fullyrðingin ekki. Í fyrsta lagi þurfa menn að leggja fram hlutafé og það verulegt til að dæmið borgi sig. Í öðru lagi verða hlutafélög eftir sem áður að greiða tekjuskatt og þar við bætist að lögum samkvæmt má einungis greiða út arð sem nemur 10% af nafnvirði hlutafjár. Það þarf því verulegt fjármagn að koma til þannig að hægt verði að græða á slíkum tilfæringum. Það er auðvitað hægt að búa til alls konar dæmi um allt milli himins og jarðar. En hver er raunveruleikinn, hæstv. forseti? Því eigum við að svara hér á Alþingi við meðferð þessa máls.

Þetta atriði sem ég hef fjallað hér um var rætt í starfi nefndarinnar, m.a. að frumkvæði fulltrúa Kvennalistans, Kristínar Einarsdóttur. Niðurstaðan varð sú að ekki þyrfti að hafa sérstakar áhyggjur af slíkum undanbrögðum. Hins vegar er alveg ljóst að stjfrv. mun skerða tekjur sveitarfélaganna um a.m.k. 300 millj. kr. verði það að lögum. Við því verður að bregðast og bæta þeim upp þann tekjumissi. Sveitarfélögin eru að taka við stórverkefnum af ríkinu. Staða þeirra margra er afar erfið og þau mega ekki við neinum tekjumissi.

Það er erfitt að meta heildaráhrif 10% vaxtaskatts og þeirra skattalækkana sem boðuð eru í stjfrv. á vexti, sparnað og fjármagnstilflutning. En það er mat þeirra sem skoðað hafa málið að þessir þættir vegi hver annan upp.

Víkur þá sögunni að frv. flokksformannanna þriggja sem nú segjast komnir í vörn fyrir fátækar ekkjur og í víking gegn forríkum fjármagnseigendum sem munu maka krókinn að þeirra mati. Í allan dag hafa Alþfl. og Þjóðvaki kallað ekkjurnar og fjöldann snauða til liðs við sig með auglýsingum í Ríkisútvarpinu, hvað sem það nú boðar um framtíðina. (Gripið fram í: En ekki bandalagið?) Af hverju fékk Alþb. ekki að vera með? Hvers á það að gjalda? Hvað gengur eiginlega á, hæstv. forseti, (Gripið fram í.) eftir tæplega ársstarf í fjármagnstekjuskattsnefndinni? Vissu menn ekkert hvað þar var rætt? Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Hvers vegna styður Alþýðusambandið stjfrv.? Vissi það heldur ekki um hvað var verið að ræða í nefndinni? Er það orðið málsvari fjármagnstekjueigenda í landinu? Eða er Alþfl. bara á flótta undan fortíðinni og í leit að hlutverki sem einhvers konar jafnaðarmannaflokkur? Hefði ekki verið nær að hlífa alþýðunni við þessum umræðum og leyfa henni að horfa á Bráðavaktina meðan við reynum að bjarga fjármagnstekjuskattinum frá drukknun?

Því er þó ekki að leyna, hæstv. forseti, að tillögur formannanna eru miklu nær þeim hugmyndum sem við kvennalistakonur lögðum upp með í nefndarstarfinu (Gripið fram í: Nú!) en þeim hugmyndum sem er að finna í stjfrv., þ.e. skattur með nokkuð hárri skattprósentu en með frítekjumarki. En eins og aðrar slíkar hugmyndir, þá hafa þær bæði kost og galla og við komumst einfaldlega að annarri niðurstöðu. Meginkostur þeirra hugmynda sem er að finna í tillögum formannanna er sá að þeir sem eiga fremur lítið sparifé borga ekki neinn skatt. Gallarnir eru þeir að kerfið er flókið í framkvæmd og kallar á mikla yfirferð skattyfirvalda, t.d. ef mennirnir eru í viðskiptum á fleiri en einum stað. Hvar á að draga frítekjurnar frá og sjá til þess að þær verði ekki ofreiknaðar? Undanskot eru mjög auðveld, t.d. með því að skrá sparisjóðsbækur eða annað á fjölskyldumeðlimi og spurningin er hvort ekki verður að aflétta bankaleynd eigi að vera hægt að framkvæma eftirlit með skattinum, en höfundar frv. gera reyndar ekki ráð fyrir því. Valdi 10% vaxtaskattur fjármagnsflótta úr landi eins og sumir óttast, t.d. til Lúxemborgar eða Danmerkur þar sem ekki eru lagðir á fjármagnstekjuskattar, mun tillaga formannanna leiða til mun meiri flutnings fjármagns úr landi, enda um mun hærri skatt að ræða. Tillaga í sama anda var rædd ítarlega í nefndinni en niðurstaðan varð sú að ekki náðist samstaða um hana, enda þótti hún flókin í framkvæmd og áhrifin varhugaverð.

Mergurinn málsins er þessi, hæstv. forseti: Við kvennalistakonur viljum að komið verði á skatti á vaxtatekjur. Það er ekkert réttlæti í því að þær tekjur séu skattfrjálsar en aðrar ekki. Þó verður að huga að því hvaða áhrif nýr skattur hefur, einkum á sparnað fólks. Við teljum þá leið ásættanlega sem við töldum að málamiðlun hefði náðst um milli allra stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins og viljum styðja þá leið, að því tilskildu að áhrif skattalækkunar á arðgreiðslur verði kannaðar sérstaklega og jafnframt leiðir til undanskota og að komið verði til móts við tekjumissi sveitarfélaganna. Komi aðrir vankantar í ljós er það að sjálfsögðu hlutverk Alþingis að sníða þá af.

Öll gögn sem lögð hafa verið fram í málinu sýna að það eru hinir efnameiri í þjóðfélaginu sem hafa fjármagnstekjur, ekki síst vaxtatekjur. Því meiri tekjur og eignir því meiri fjármagnstekjur. Það verða því hinir ríkari sem greiða munu megnið af vaxtaskattinum, skatt sem þeir greiða ekki núna. Skattalækkun á arðgreiðslum mun eflaust skila sér í öðrum fjárfestingum sem aftur koma fram í betri stöðu fyrirtækja sem svo skila sér í ríkissjóð. Þegar á allt er litið verður útkoman væntanlega um milljarður í tekjuaukningu til ríkisins.

Hæstv. forseti. Við kvennalistakonur tókum þátt í næstum því heils árs vinnu við að smíða tillögur um fjármagnstekjuskatt. Þótt sú leið sem málamiðlun náðist um sé um margt gölluð finnst okkur mikilvægara að skatturinn komist á en að hann sé nákvæmlega eftir okkar forskrift. Fjármagnstekjuskattur kemst ekki á öðruvísi en að um hann ríki sæmileg pólitísk sátt. Það er betra að þróa skattinn áfram og betrumbæta hann síðar en að drepa í fæðingu þetta baráttumál sem nú loksins hefur litið dagsins ljós og tekist að koma á dagskrá hinnar pólitísku umræðu. Hugmyndir um fjármagnstekjuskatt eru þessa stundina í gjörgæslu okkar þingmanna og því miður fæ ég ekki betur séð en að líf þeirra hangi á bláþræði. Við kvennalistakonur viljum bjarga lífi þeirra og það er enn hægt, en til að það takist verða allir að leggjast á árarnar og róa djarflega því tíminn er naumur. --- Góðar stundir.