Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 22:19:13 (4934)

1996-04-17 22:19:13# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[22:19]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Skattamál eru alvörumál og skattamál snúast ekki aðallega um tæknileg útfærsluatriði sem eru eingöngu á færi sérfróðra aðila heldur eru í eðli sínu stórpólitísk og kalla á afstöðu alls almennings. Það er pólitísk ákvörðun hversu mikið skal borga í skatta og ekki síður hverjir eiga að borga þá og svo hitt hvernig á að verja þeim. Vitaskuld er það til vinsælda fallið í þjóðfélagsumræðunni að tala um að lækka skatta. Þó vilja fæstir sjá á bak nauðsynlegri velferðarþjónustu sem kostuð er af skattborgurum. En hart keyrðir launamenn finna fyrir því að stór hluti tekna þeirra er ekki til beinnar ráðstöfunar fyrir þá og fjölskyldur þeirra heldur rennur í samneysluna og skynja líka, sem er ekki veigaminna, að sumir borga ekki sem eiga að greiða skatta en njóta aðeins þjónustunnar. Af þessum sökum eru þær gagnrýnisraddir í þjóðfélaginu skiljanlegar sem tala um of háa skatta á almennar launatekjur, benda með réttu á hin umfangsmiklu skattsvik, svörtu atvinnustarfsemina og einnig hinn svokallaða löglega en siðlausa skattundandrátt, hin stóru göt í skattkerfi okkar, m.a. það gat að stóreignamenn, sem taka í vasa sinn umtalsverðar tekjur af vöxtum sem verða til vegna drjúgrar inneignar í bönkum og lánastofnunum, hafa ekki borgað. Í okkar litla samfélagi sér fólk einfaldlega í kringum sig of marga hátekjumenn sem borga lítið sem ekkert til velferðarkerfisins á sama tíma skuldsettar fjölskyldur launamanna greiða sinn eðlilega skerf. Þessu þarf að breyta.

En skattkerfið er ekki aðeins tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og sveitarfélaga til að afla fjár til velferðarþjónustu fyrir almenning, heilbrigðisþjónustu, löggæslu félagsmálanna o.s.frv. Skattkerfið er einnig tæki til jöfnunar þar sem unnt er að dreifa byrðum réttlátlega, stýra því þannig að þeir sem geta borgað og hafa fé á millum handa greiði hlutfallslega meira en hinir sem minna mega sín.

Það eru hins vegar pólitískar deilur um það í hversu miklum mæli skuli jafna kjörin og hvernig best sé að því staðið. Alþfl. er flokkur jöfnuðar og réttlætis og telur að beita eigi þessu stýritæki, skattkerfinu, rösklega til að jafna aðstöðu og tekjur manna í þjóðfélaginu, þó án þess að kafkeyra eðlilega atorku og frumkraft einstaklingsins.

Því miður horfum við framan í þá staðreynd að bilið milli ríkra og fátækra hefur aukist hér á landi. Æ minni hópur þjóðfélagsþegna tekur til sín æ stærri hluta þjóðartekna á sama tíma og hinn stóri minni hluti fær minna í sinn skerf. Nú er það erfiðleikatímabil sem þjóðin átti við að stríða í atvinnu- og efnahagsmálum á hinum síðustu árum, hinn almenni samdráttur, að baki. Launafólk tók á sig byrðar þegar harðnaði á dalnum og nú á það rétt á umbun vegna þeirra fórna þegar efnahagsástandið fer batnandi. Ég minni á að til að forða víðtæku atvinnuleysi voru skattar lækkaðir á atvinnureksturinn á síðasta kjörtímabili. Nú getur atvinnulífið og nú á atvinnulífið að standa á eigin fótum. Fyrirtækin eru mörg hver sem betur fer farin að skila ríflegum hagnaði. Nú þarf að rétta almennu launafólki, skuldugum fjölskyldum í landinu hjálparhönd þegar efnahagslegt ráðrúm er orðið til þess. Það þarf að hækka launin og bæta kjörin hjá almenningi.

Þess er hins vegar tæpast að vænta hjá núverandi ráðamönnum. Fyrri ríkisstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. eru þekktar fyrir velflest annað en að jafna kjörin. Þvert á móti hafa þær gengið hart fram í því að treysta stöðu þeirra sem meira mega sín á kostnað hinna. Núv. ríkisstjórn fer í nákvæmlega þetta sama far og fyrri helmingaskipastjórnir Framsfl. og Sjálfstfl. Það er ekki von á góðu. Nýlegar árásir á verkalýðssamtökin og réttindi launafólks eru til marks um þetta.

Það er við þessar almennu þjóðfélagslegu kringumstæður sem við ræðum það mál sem hér er á dagskrá í kvöld, frv. um upptöku fjármagnstekjuskatts. Skattlagning fjármagnstekna er einfaldlega réttlætismál. Af þeim sökum hefur verið eðlileg krafa að tekjur fólks af vöxtum og öðrum fjármagnstekjum lúti sömu lögmálum og aðrar tekjur, þar á meðal launatekjur. Með öðrum orðum, að fjármagnseigendur eins og launamenn almennt greiði til samfélagsþjónustunnar sinn eðlilega skerf. Það hefur verið áberandi blettur á skattkerfi okkar að ákveðnir þjóðfélagshópar eru stikkfrí, eru skattlausir, þurfa ekki að greiða skatt af tilteknum tekjum, í þessu sambandi vaxtatekjum. Þessu vill fólk að sjálfsögðu ekki una og þess vegna er það fagnaðarefni út af fyrir sig að loksins, loksins skuli þessi mál vera komin til úrlausnar og væntanlega til afgreiðslu á hinu háa Alþingi og verða að lögum, að loksins verði fyllt í þessa smugu skattleysis. Rétt er að undirstrika það, herra forseti, vegna ummæla sem hafa fallið að í öllum hinum vestræna heimi með örfáum undantekningum er þessu þannig farið að vextir eru skattlagðir og því erum við að fara í kjölfar annarra þjóða en ekki að finna upp hjólið.

Auðvitað er það kjarni þessa máls að upptaka skatts á vaxtatekjur, fjármagnstekjuskattur, á að leiða til sköttunar á þeim tekjum sem einkanlega hátekjumenn hafa. Það gerist einfaldlega vegna þess að þeir sem hæstar hafa tekjurnar í þjóðfélaginu, hirða hæstu nettótekjurnar af vöxtum, eru hátekjumenn. Samkvæmt framtöldum vaxtatekjum árið 1994 kemur í ljós að aðeins 3% þeirra hjóna sem einhverra vaxtatekna njóta, aðeins 453 hjón í landinu, taka til sín meira en helminginn af þeim vaxtatekjum sem til falla. Vaxtatekjur eru því augljóslega og óumdeilanlega fyrst og síðast í vösum þeirra sem hafa mikið fé handa í millum. Á hinn bóginn er ljóst að lágtekjufólk hefur stundum nokkrar krónur í vaxtatekjur þótt algengara sé að það greiði háa vexti til lánastofnana vegna þungrar skuldabyrði.

Mikilvægt er að koma í veg fyrir að vaxtaskattur nái til smáupphæða sem almennir launamenn hafa lagt til hliðar í bönkum til að mæta framtíðarskuldbindingum. Með upptöku vaxtaskatts á ekki að sækja í hefðbundinn sparnað lágtekjufólks eða fermingarbarnanna sem eru lagðar inn í banka af unglingunum, heldur er verið að slægjast eftir hinum stóru.

Munurinn á þeim tillögum sem stjórnarandstaðan leggur fram á þinginu og þeim tillögum sem formenn þriggja stjórnarandstöðuflokka hafa lagt fram og eru til umræðu í kvöld eru einfaldlega þær að Alþfl. vill að þeir borgi sem geta en hinum verði hlíft, en frv. ríkisstjórnarinnar tekur til fleiri greiðenda, skattleggur í raun almennt sparifé landsmanna auk þess sem ríkisstjórnarfrv. leggur til að lækkaðir verði skattar á þeim efnameiri sem hafa haft tekjur af arði og söluhagnaði. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin tekur til baka þann ávinning sem felst í því að skattleggja vaxtatekjur með því að leggja til lækkun á skatti á þá sem hafa tekjur af arði og fleiru þess háttar. Annars vegar er því frv. jafnaðarmanna sem leiðir til tekjujöfnunar fyrir ríkissjóð og þar með bætta þjónustu velferðarkerfisins en er um leið tekjujöfnunartæki og hins vegar frv. ríkisstjórnarinnar, helmingaskiptastjórnarinnar, sem nær ekki þessum markmiðum.

Ég sat í þeirri þverpólitísku nefnd sem skipuð var til að undirbúa frv. ríkisstjórnarinnar og lagði mitt af mörkum til þess að þau mál næðu inn í þing. Það hefur of lengi verið talað um upptöku fjármagnstekjuskatts í þjóðfélaginu án þess að úr hafi orðið. Á hinn bóginn gerði ég og aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í þessari nefnd alvarlegar athugasemdir um einstök atriði þessa frv. og áskildi mér rétt til að styðja aðrar og betri leiðir sem horfa til jöfnunar og réttlætis. Þær tillögur eru fram komnar í formi þessara frumvarpa sem hér eru til umræðu eins og vænta mátti.

Hæstv. fjmrh. eyddi mestöllum ræðutíma sínum til að halda því ranglega fram að afrakstur þeirrar nefndarvinnu, sem hér er að finna og gengur aftur í frv. ríkisstjórnarinnar, hefði verið í sátt og samlyndi við alla þá aðila sem í nefndinni sátu. Þetta er rangt. Á lokasíðum þessa nefndarálits er að finna þá bókun sem ég nefndi til sögu og fjórir fulltrúar stjórnarandstöðunnar skrifuðu undir. Þar er m.a. bent á ágalla þeirra tillagna sem ríkisstjórnin heldur nú frammi og aðrar heppilegri leiðir nefndar. En orðrétt segir þar, herra forseti:

,,Undirrituð áskilja sér allan rétt í málinu þegar það kemur til kasta Alþingis og almennrar þjóðfélagsumræðu --- sem og þeir stjórnmálaflokkar, Alþfl., Alþb., Þjóðvaki og Kvennalisti sem þau eru fulltrúar fyrir í nefnd um fjármagnstekjuskatt, þar með að styðja breytingartillögur sem til bóta geta talist.``

Fleiri orð þarf ekki að hafa um þetta. Alþfl. hefur ekki breytt stefnu sinni í þessum efnum. Það er rangt sem hefur verið haldið fram að hann hafi í síðustu ríkisstjórn gengist inn á þá skattlagningaraðferð sem núv. ríkisstjórn heldur frammi. Út í það mál væri hægt að fara í smáatriðum og verður gert á réttum vettvangi þegar tími vinnst til.

[22:30]

Fullyrðingar hæstv. fjmrh. í umræðunni um hið gagnstæða eru því einfaldlega rangar. Hins vegar er það stærsta áhyggjuefnið í þessum efnum að nú birtast þeir fram á sjónarsviðið, hinir skefjalausu andstæðingar þessarar skattlagningar stóreignamanna. Þá hélt ég satt að segja að væri helst að finna í Sjálfstfl. með vísan til sögunnar. En mér heyrist á umræðunni í kvöld, herra forseti, að þá sé einnig að finna í samstarfsflokknum, Framsfl., og nú ætli þeir að hlaupast undan merkjum og ekki takast á við það verkefni sem þjóðin hefur óskað eftir að við þingmenn komum í höfn og þeir ætli að reyna að nýta sér það og bera því við að stjórnarandstaðan hafi aðrar hugmyndir um leiðir að þessum markmiðum og þess vegna sé þeim heimilt að hætta við allt saman, engan vaxtaskatt. En auðvitað er það ekki skýringin heldur einfaldlega sérhagsmunagæslan sem gengur aftur ljósum logum í samstarfi þessara tveggja hægri flokka, Sjálfstfl. og Framsfl., þegar þeir ganga í eina sæng.

Ég vil hins vegar treysta því og róa að því öllum árum að menn standi við hin stóru orð og fundnar verði leiðir á þeim vikum sem eftir lifa á þessu vorþingi til að koma böndum á þá sem skattlausir hafa verið allt of lengi í þessu þjóðfélagi, þá sem hafa hirt mikla peninga af vaxtatekjum. Þeir verði látnir borga. Sú pólitíska ábyrgð er auðvitað fyrst og síðast í höndum þeirrar ríkisstjórnar sem hér stýrir málum og hins stóra þingmeirihluta sem að henni stendur. Það mun hins vegar ekki standa á stjórnarandstöðunni að leiða þessi mál til lykta með vitrænum hætti þannig að upphaflegum markmiðum verði náð og hinir raunverulegu fjármagnseigendur verði skattlagðir. Hér er um stórmál að ræða. Ef raunverulegur pólitískur vilji er til staðar er unnt að ljúka meðferð þessa máls á viðunandi hátt á þessu vorþingi þannig að raunverulegur fjármagnstekjuskattur verði upp tekinn, skattur sem jafnar kjörin í landinu og veitir nýjum fjármunum inn í velferðarkerfið. Það mun ekki standa á Alþfl. í þeirri baráttu fyrir jöfnuði og réttlæti. --- Góðar stundir.