Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 22:47:14 (4937)

1996-04-17 22:47:14# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[22:47]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ekki alls fyrir löngu sá ég sett upp í blaði eftirfarandi dæmi: Hjón eiga tvö börn. Eiginmaðurinn hefur í laun 125 þús. kr. á mánuði. Hjón þessi búa í leiguíbúð og njóta því húsaleigubóta. Börnin eru ekki á dagheimili þar eð móðirin er heima. Gerist nú það að móðirin á umræddu heimili fái sér vinnu úti í bæ og fái í laun 80 þús. kr. á mánuði, sem má telja nokkuð gott á þessum síðustu og verstu tímum, þá eru áhrif jaðarskatta þau að ráðstöfunartekjur heimilisins vaxa ekki um 80 þús. kr. Nei, þvert á móti. Ráðstöfunartekjur hjónanna skerðast um rúmlega 1.000 kr. á mánuði. Hvað segir þetta dæmi okkur?

Það segir okkur í fyrsta lagi að laun á Íslandi hafa með margítrekuðum þjóðarsáttum verið keyrð langt niður fyrir öll velsæmismörk. Sumir hafa af því tilefni sagt Ísland vera láglaunaland. En þetta dæmi um fjölskylduna og launin hennar segir okkur meira. Það segir okkur líka að skattkerfið í landinu er þannig spyrt saman við lág laun að það er beinlínis vinnuletjandi. Vegna lágra launa og hárra skatta flýr nú fólk land í stórum hópum. Ég hef samúð með þessu fólki. Það er ólíðandi að þúsundir Íslendinga snúi baki við ættjörð sinni vegna þess að þeir geti ekki lifað þar mannsæmandi lífi af vinnutekjum sínum.

Eitt sinn var talað um móðuharðindi af manna völdum. Hvernig er komið þeirri þjóð sem missir árlega þúsundir þegna sinna á flótta undan ranglátu launakerfi og siðlausri skattastefnu? Ég hafði gert mér vonir um að fjármagnstekjuskatturinn sem verið hefur til umræðu í allmörg ár gæti m.a. orðið til að hægt væri að taka til í skattafrumskóginum, ekki síst til að lækka jaðarskattinn sem íþyngir mjög almennu launafólki.

Það hefur lengi verið stefna Alþb. að skattleggja beri fjármagnstekjur rétt eins og aðrar tekjur. Engin skynsamleg rök mæla með því að tekjur sem aflað er með leigu á fjármagni séu skattlagðar öðruvísi en aðrar tekjur. Ríkisstjórnin vill hins vegar fara þá undarlegu leið að leggja á fjármagnstekjuskatt algerlega án tillits til annarra tekna. Þetta þýðir með öðrum orðum að þeir sem greiða t.d. skatt af arði fá lækkaða skatta og greiða ekki lengur tekjuskatt af arðgreiðslu sinni heldur aðeins flatan 10% skatt, verði frv. ríkisstjórnarinnar að lögum óbreytt. Hér er því horfið frá þeirri grundvallarstefnu að skattleggja eftir greiðslugetu, heldur fer skattheimtan minnkandi eftir því sem greiðslugetan er meiri. Ef þessi breyting verður samþykkt stöndum við uppi með skattkerfi sem gerir launamanninum að greiða hærra skatthlutfall af launum sínum en fjármagnseigandanum af fjármagnstekjum sínum.

Þrír stjórnarandstöðuflokkar hafa sameinast um að leggja til að fjármagnstekjuskattur verði inni í núverandi skattkerfi og myndi sameiginlegan skattstofn með öðrum tekjum. Þannig nýtist persónuafsláttur eðlilega. Sömu reglur sem allir þekkja gilda um fjármagnstekjuskatt og tekjuskattinn. Stígandin í skattheimtunni miðast við greiðslugetu. Þessar tillögur gera ráð fyrir að einungis 60% vaxtatekna komi til skatts og að fólk fái eðlilegan frádrátt þannig að ávöxtun sparifjár verði ekki neikvæð. Gert er ráð fyrir ákveðnu frítekjumarki þannig að hjón gætu t.d. átt 2,5 millj. kr. innstæðu á 5,5% ársvöxtum án þess að greiða skatt af þeim vaxtatekjum. Engin veruleg hætta ætti að vera á því að skattur þessi leiði til vaxtahækkunar eða fjárflótta úr landi.

Eins og áður hefur verið nefnt í umræðunum, kom það í Morgunblaðinu í janúar sl. og haft eftir Sverri Hermannssyni bankastjóra að Landsbanki Íslands muni slá skjaldborg um viðskiptavini sína og greiða af sínu ráðstöfunarfé hvern eyri sem á innlánseigendur verður lagður með hinum nýja skatti. Auðvitað verður svo sá útgjaldaauki bankans fjármagnaður með hærri útlánsvöxtum. Það væri aldeilis ekki ónýtt fyrir launþega ef atvinnurekendur almennt tækju sér bankastjórann til fyrirmyndar og reiddu fram af ráðstöfunarfé sínu þá skatta sem starfsfólki er gert að greiða af launatekjum sínum. Kannski hefur bankastjóri alls landsins einmitt hitt á það þjóðráð sem eitt kann að duga til að bæta kjör almennings í landinu.

Í öllum helstu viðskiptalöndum okkar er skattur lagður á fjármagnstekjur. Það er réttlætismál að þeir greiði mest til sameiginlegra þarfa sem hafa aðstöðu til að skapa sér mestu tekjurnar í þjóðfélaginu. --- Ég þakka áheyrnina.