Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 22:52:56 (4938)

1996-04-17 22:52:56# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[22:52]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að það er pólitísk samstaða um að leggja á fjármagnstekjuskatt í landinu. Það er reyndar orðið tímabært. Ísland er eitt fárra landa þar sem fjármagnstekjuskattur er ekki við lýði. Það hafa engin rök verið borin fram í þessari umræðu um að fjármagnstekjuskattur muni leiða til fjárflótta eða minnkandi sparnaðar. Það á við bæði frv., bæði flokksformannafrv. og frv. ríkisstjórnarinnar. Það er sanngjarnt að það sé lagður sambærilegur skattur á fjármagnstekjur og launatekjur. Þetta er réttlætismál og ég fagna því að þingheimur, langflestir hér, taka undir þetta sjónarmið.

En umræðan í kvöld hefur leitt annað í ljós. Hún hefur sýnt okkur það að annar stjórnarflokkurinn, þ.e. Sjálfstfl., dregur lappirnar í þessu máli. Það er alveg augljóst hvaða hagsmuna hann er að gæta. Hann vill helst engan fjármagnstekjuskatt. En ef það þarf að leggja á fjármagnstekjuskatt, þá á hann að vera þannig að stórhluthafar, fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir sleppi eins billega frá því og hægt er og það varð niðurstaðan í þeirri nefnd sem vann þetta mál. Það hefur nefnilega komið fram, óvanalegt, þó ekki. Hæstv. fjmrh. talaði fyrir stjfrv. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði fyrir nefndarstarfinu og varði það. Hv. þm. Árni Mathiesen var á móti öllu saman. Sjálfstfl. er eina ferðina enn með þrjár skoðanir í sama málinu. Það hefur gefist þeim flokki vel að koma þannig fram fyrir alþjóð.

Nú reynir á varadekkin. Það sprakk eitt í kvöld þegar Árni Mathiesen lýsti yfir andstöðu við stjfrv. og reyndar frv. okkar. Látum það svo sem vera. En varadekkin eru farin að springa. Ég vil nefna það af því að hér hefur verið talað um að nefnd hafi verið starfandi með þátttöku verkalýðshreyfingarinnar. Það er ekki rétt. Það voru einungis fulltrúar Alþýðusambandsins sem áttu aðild að þessari nefnd. Það var enginn fulltrúi BSRB og BHMR í þessari nefnd og þeir hafa ekkert fengið að koma að málinu. En það verður reyndar bætt úr því í störfum þingnefndarinnar sem fær þetta mál.

Þessi spurning sem er hér uppi er pólitísk. Hvað ætlar Framsfl. að gera við stjfrv. sem var lagt fram í gær? Ætlar hann að fylgja því eftir og taka þá tillit til þeirra ábendinga sem koma fram í frv. sem við erum að ræða núna, formannafrv.? Ég bendi á að það hafa komið fram veigamiklar athugasemdir við útfærslu stjfrv. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson áttaði sig á því, og þeir eru fleiri að átta sig á því, að stjfrv. gengur á hagsmuni almennra sparifjáreigenda og hyglar hinum stærri fjármagnseigendum. Það sama sjónarmið kom fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni í gær. Menn eru aðeins að átta sig á þessu máli. Þetta er flókið og erfitt mál og það er vel að það skýrist betur í hugum þingmanna.

Ef maður lítur á efnisatriði formannafrv., þá er það tiltölulega einfalt. Skattur á fjármagnstekjur er felldur inn í skattkerfið. Það er engin skattlagning á venjulegar eignatekjur. Hún er lítil á millitekjufólk og nokkru meiri á þeim sem meira mega sín. Það eru engar ívilnanir settar inn í það frv. til stóreignaaðila og atvinnurekstrar. Það er skýrt í þessu frv. sem við erum að ræða. Friðrik Sophusson talaði um 25--30% skatt. Þetta er rangt. Ég veit ekki hvort hann hefur lesið frv., líklega ekki, en það kemur skýrt fram að skattbyrðin er í kringum 11% fyrst en hækkar upp í 18%. Hann segir að frv. leiði til fjárflótta. Þetta er líka rangt. Það eru engin rök færð fyrir því. Og ég segi: Hvorugt frv. leiðir til fjárflótta úr landinu.

Við leggjum fram sérstakt frv. af því að við teljum að stjfrv. sé tæknilega illa útfært og við viljum gera þetta betur. Við viljum leggja á fjármagnstekjuskatt, nákvæmlega eins og ríkisstjórnin vill. Gott ef það var ekki eitt af loforðum Framsfl. ásamt fleirum hér áður fyrr að gera þetta. Við viljum gera þetta þannig að það sé heil brú í því. Við kærum okkur ekki um að vera með skattalöggjöf sem er götótt. Og um það snýst málið.

Það að vitna í þessa frægu nefnd --- ég er nú orðinn þreyttur á að heyra talað um nefndina en vil lesa upp úr bókun eina setningu. Þar tala nefndarmenn, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, með leyfi forseta um ,,... nauðsyn þess að samræmingar sé gætt milli skattlagningar launatekna ... með öðrum orðum að allar tekjur, þar á meðal fjármagnstekjur lúti sömu lögmálum og almennar launatekjur eins og víða tíðkast í nágrannalöndum okkar.`` Þetta er beint úr bókun stjórnarandstæðinga í nefndinni. Það er einmitt þetta sem frv. formannanna snýst um þannig að það er bara vitleysa að tala um að hér hafi verið rofin einhver málamiðlun og sátt. Menn verða þá að lesa betur nefndarálitið sem hér liggur til grundvallar.

Stjfrv., sem er hinn valkosturinn, felur í sér að það eru teknar inn aukasporslur í frv. án þess að það sé gert mikið úr því og við höfum bent á það. Skattur á arð er lækkaður í 10% úr 43%. Greiðslur sem hingað til hafa verið skattlagðar með almennum hætti eru breikkaðar og færðar undir lægri skattamörk. Það eru gefnar aukaívilnanir sem lækka skatta hjá fyrirtækjum og hjá fólki sem á mikið af hlutabréfum. Þetta hefur verið rakið í umræðunni. En þetta kemur mjög skýrt út úr stjfrv. og því bendum við m.a. á að ríkisstjórnin hefði átt að ganga hreint til verks og segja: Við ætlum að leggja fram skattafrv. sem ívilnar vissum hópum vegna þess að við teljum það örva atvinnulíf. Það er svo matsatriði, og það verður útfært á þennan og þennan hátt og svo ætlum við líka að leggja skatta á almennar vaxtatekjur. Þá eru menn að segja nákvæmlega það sem þeir meina í stað þess að rökstyðja mál sitt eins og hér sé bara verið að fara með fjármagnstekjuskatt í frv. Það er ekki verið að gera það. Það er verið að veita tilteknum hópi í þjóðfélaginu ívilnanir með því frv. sem stjórnin lagði til.

Það er ekki einungis þetta sem frv. stjórnarinnar gerði og formennirnir þurftu að leiðrétta í sínu frv. Það er ráðist á sveitarfélögin og á þriðja hundrað millj. eru hafðar af þeim. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp úr áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga, bréf sem er undirritað af Þórði Skúlasyni. Þar segir orðrétt:

[23:00]

,,Þessi niðurstaða [þ.e. stjfrv.] kemur sambandinu algerlega í opna skjöldu og er henni hér með harðlega mótmælt og þess krafist að sveitarfélögin í landinu verði ekki fyrir fjárhagstjóni vegna setningar laga um fjármagnstekjuskatt.``

Átti að hlunnfara sveitarfélögin líka í stjfrv.? Það kemur skýrt fram í áliti þeirra sem standa í viðræðum við ríkið um að yfirtaka grunnskóla að aldrei hefði verið nefnt að það ætti að hlunnfara sveitarfélögin á þriðja hundrað millj. Þetta eru vinnubrögðin. Þar sem að um mjög flókið mál er að ræða höfum við þingmenn átt í vissum erfiðleikum með að setja okkur inn í það og það er mjög eðlilegt. Skattamál eru flókin en það er verið að reyna að blekkja. Málflutningur ríkisstjórnarinnar í málinu hefur byggst á blekkingum og það er ámælisvert, herra forseti.

Vitaskuld hefði átt að skoða þessi mál í víðara samhengi. Það eru sérstakar ívilnanir gerðar til handa lífeyrissjóðum. Það er hægt að færa rök fyrir því en það hefði átt að taka lífeyrissjóðsmálin inn í stærri endurskoðun heldur en gefa þeim þarna viss réttindi á fjármagnstekjumarkaði þó svo það megi rökstyðja það. Það er sömuleiðis aðferð varðandi fjármagnstekjuskatt, sem er ekki gefinn nógur gaumur. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að þetta væri frv. nefndarinnar. Það þarf að kenna mönnum hvað Alþingi snýst um. Frv. ríkisstjórnarinnar er stjfrv. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, borið fram af tveimur þingflokkum. Við tökum ekki til umræðu frv. manna úti í bæ. Það getur byggst á nefndarstarfi ef svo vill en þetta er frv. ríkisstjórnarinnar þó svo fjmrh. kjósi að fylgja því eftir með hálfum huga og vilji helst ekkert vita af þessu.

Hins vegar er mikilvægt að þetta frv. sé afgreitt núna á vorþingi og ég bendi á að ríkisstjórnin hefur barið í gegn fjármagnstekjuskatt á einn hóp. Hún gerði það í haust. Hún setti á fjármagnstekjuskatt á ellilífeyrisþega í sambandi við bótakerfi almannatrygginga. Þá var ekki erfitt að framkvæma það. Það rann í gegnum stjórnarmeirihlutann þegar átti að koma fjármagnstekjuskatti á þennan hóp. Forgangsröðunin er alveg ljós hjá ríkisstjórninni og höfum við stjórnarandstæðingar verið að gagnrýna þegar útfærsla er tekin á þessum fjármagnstekjuskatti.

Nú skulu menn ekki halda að við séum að tala um einhverjar rosatölur varðandi skattlagningu. Frv. okkar gerir ráð fyrir tekjum upp á 1,7 milljarða þegar best lætur, þegar það er komið í fullan gang, stjfrv. kannski upp á milljarð. Þetta eru ekki stórar tölur þegar maður horfir til fjárlaga upp á 100 milljarða. Það er blekkingaleikur að halda því fram að með þessu frv. sé verið að rústa einhverju í hagkerfi okkar. Það er fráleitt. Upphæðirnar eru ekki slíkar og það er hvorki gert með stjfrv. né með flokksformannafrv.

Það frv. sem flokksformennirnir leggja til er einfaldlega miklu betra í útfærslu og það er þess vegna sem það á að taka mjög alvarlega til umræðu og samþykkja málið með þeirri útfærslu. Það er mjög skýrt og ég nefndi það. Meðalskatturinn er í kringum 11%. Það er innan við það sem gerist í nágrannalöndunum. Jaðarskatturinn eða skatturinn á síðustu krónuna er lægri í frv. okkar en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Það er allt annað sem menn hafa verið að segja í umræðunni, þá er það byggt á þekkingarleysi. Frv. okkar flokksformanna er með lægri vaxtaskatt en langflest ríki OECD þannig að þetta fellur mjög vel að því kerfi sem notað er hvað víðast annars staðar.

Það sem ég óttast í málinu er að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að skjóta sér á bak við ágreining við stjórnarandstöðuna í nefnd og salta málið þess vegna. Þá segi ég: Fyrst stjórnarandstaðan er farin að ráða málum með þeim hætti að ekki sé hægt að koma málum í gegn og lögfesta þau vegna þess að stjórnarandstaðan er andvíg þeim þá minni ég á að við erum með nokkur frumvörp í þinginu, vinnumarkaðsfrumvörp um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og stéttarfélög og vinnudeilur sem stjórnarandstaðan hefur lýst andstöðu við reyndar ásamt öðrum hópum í þjóðfélaginu. Er þá ekki ráð, hæstv. fjmrh., að þá sé beitt sömu aðferðafræði? Þarf þá ekki að salta þau mál líka vegna þess að stjórnarandstöðunni líkar ekki alveg sú útfærsla sem ríkisstjórnin leggur þar til? Nei. Ætli þeir hugsi þá nokkuð um það. Ég bið þá hæstv. ríkisstjórn um að nota þingmeirihluta sinn og láta reyna á varadekkin og knýja þá sitt stjfrv. í gegn. Ég er þó þannig gerður að ég hlíti meiri hlutanum. Ef frv. flokksformannanna okkar nær ekki fram að ganga verður það bara að gerast og þeir samþykkja sína slæmu útfærslu með meiri hluta sínum á þingi. En þá skulu þeir sækja það mál með jafnmiklu offorsi og þeir sækja mál sem snúa að réttindamálum launafólks. Það verður hin pólitíska spurning næstu vikna hvort ríkisstjórnin ætlar að fara þessa leið og þá sér maður hvort hugur fylgir máli þegar menn tala um fjármagnstekjuskatt. Það verður sú pólitíska spurning sem almenningur í landinu mun fylgjast með á næstu vikum vegna þess að það sýnir hvað þessi ríkisstjórn meinar, hvort hún muni afgreiða þetta mál á næstu vikum eða ekki. Ef hún gerir það ekki sjá menn skýrt hvaða hagsmuni hún er að verja í þjóðfélaginu og það eru ekki hagsmunir almenns launafólks.