Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 10:40:11 (4942)

1996-04-18 10:40:11# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[10:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það hafa farið fram fjörlegar umræður um þessi tvö frv. sem hér eru undir í umræðunni. Við háðum málefnalegar og mér þótti góðar sjónvarpsumræður um þessi mál í gær. Það er við hæfi að umræður séu uppi um þetta mál núna þegar ljóst er að fjármagnstekjur eru að aukast í þjóðfélaginu, arðgreiðslur eru á uppleið og svo virðist sem íslenski fjármagnsmarkaðurinn sé kominn í jafnvægi og farinn að starfa á sínum forsendum, starfa á eðlilegum forsendum. Að þessu leyti má segja að hið efnahagslega umhverfi, umhverfi fjármagnsmarkaðarins, er á Íslandi að færast til sama horfs og gerist erlendis. Svo er að í Vestur-Evrópu er vaxtaskattur frekar regla en hitt þannig að það þarf býsna sterk rök til þess að leggjast gegn því að sambærilegu skattafyrirkomulagi sé fylgt hér á landi og víðast hvar í Evrópu.

Það er raunar svo, herra forseti, að í hópi stjórnarliða hafa jafnvel þeir sem hæst tala um það að tengja íslenska fjármagnsmarkaðinn og gera hann sambærilegan þeim markaði sem ríkir erlendis, eigi að síður lagst gegn því að þessi skattur verði tekinn upp. Það kom fram í máli hv. þm. Árna M. Mathiesens, í útvarpsumræðunum í gær þó að hann hafi yfirleitt verið í hópi hinna framsæknustu þegar málefni fjármagns- og peningamarkaðar eru annars vegar.

Herra forseti. Við höfum fyrst og fremst rætt um þær tvær tillögur sem liggja fyrir um fjármagnstekjuskatt. Annars vegar er það tillaga ríkisstjórnarinnar. Hv. stjórnarliðar ýmsir í umræðunum í gær báru kinnroða fyrir henni og vildu skjóta henni frá ríkisstjórninni og segja eins og hv. þm. Pétur Blöndal að þetta væri fyrst og fremst frv. sem kæmi frá nefnd utan þingsins En auðvitað er frv. lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er það síðan frv. þriggja formanna stjórnarandstöðuflokkanna.

Ég verð að segja það, herra forseti, að bæði kerfin sem lögð eru til hafa sitthvað til síns máls. Ég sé kosti á þeim báðum og ég sé galla á þeim báðum. Þegar ég lít yfir málið verð ég þó að segja, herra forseti, að mér hugnast mun betur það kerfi sem gert er ráð fyrir í frv. formanna stjórnarandstöðuflokkanna.

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt eins og fram hefur komið í máli margra að kerfið sem við setjum upp verði að vera gagnsætt og eins einfalt og hægt er. Deilurnar standa einmitt um það hvort kerfið þjónar þessu betur, hvort er einfaldara, hvort er gagnsærra. Í fljótu bragði virðist það vera svo að kerfið sem hæstv. ríkisstjórn leggur til sé einfaldara. Það kom fram í máli ýmissa hv. þingmanna í gær að af þeim sökum væri e.t.v. rétt að reyna að setja það upp vegna þess að það gæfi minni möguleika til undanskots. Ég heyrði t.d. á máli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur í gær að þó að hún fyndi ýmislegt gegn því, þá taldi hún að þetta væri jákvætt kerfi vegna þess að það gæfi minni möguleika til undanskots. Í fljótu bragði kann svo að virðast þegar menn horfa á það að hér er um að ræða 10% flatan nafnvaxtarskatt. En þegar við horfum á tvennt í viðbót, þá er ég ekki viss um að þessi niðurstaða hv. þm. sé rétt. Í fyrsta lagi er verið að flækja skattkerfið með því að setja á tvísköttunarkerfi þar sem vaxtatekjur, fjármagnstekjur, eru teknar út úr hinu almenna tekjuskattskerfi og búið til sérstakt kerfi fyrir þær. Það eitt og sér flækir málið. En í öðru og öllu verra lagi er þó, herra forseti, að tillögur ríkisstjórnarinnar eru ekki heildstæðar um fjármagnstekjuskattinn vegna þess að gert er ráð fyrir því að þessi sérsköttun nái ekki til rekstrarhagnaðar einstaklinga eða sameignarfélaga. Hvort tveggja eru fjármagnstekjur þannig að í tillögunum felst ekki bara mismunun milli einstaklinga heldur líka milli forms atvinnurekstrar. Og það er þetta sem við í þessum þremur stjórnarandstöðuflokkum sem stöndum að hinni tillögunni köllum skattasmugu. Við teljum að þetta hvetji menn til skattundanskots sem er hins vegar fullkomlega lögmætt samkvæmt tillögu hæstv. fjmrh. Þess vegna get ég ekki fallist á niðurstöðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur og reyndar ýmissa fleiri sem færðu þessi rök fram í gær en hún hvað skýrust.

Tillaga stjórnarandstöðunnar gerir hins vegar ráð fyrir því að vaxtatekjurnar verði skattlagðar innan núverandi skattkerfis og ég held að það skipti verulega miklu máli. Ég held að það þurfi mjög sterk rök til þess að setja upp tvenns konar kerfi. Þá hefðum við annars vegar skattkerfi fyrir tekjur launamannsins og erum að skattleggja þær yfir 40%, en hins vegar erum við með sérstakt skattkerfi fyrir fjármagnseigendur og skattleggjum þá miklu lægra.

[10:45]

Það kom hins vegar fram hjá ýmsum hv. þm. stjórnarliðsins í gær, m.a. hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni, að það væri í rauninni forsenda þessarar farar að það væri verið að lækka skatt af söluhagnaði og arði. Hv. þm. tók það sérstaklega fram að vegna þess að ekki væri gert ráð fyrir því í tillögum stjórnarandstöðunnar í gær gæti hann með engu móti fallist á þær og taldi raunar furðulegt að jafnágætur maður og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vildi leggja nafn sitt við slíka tillögu. Um það erum við auðvitað ósammála. Skoðun mín er því að sú aðferð að skattleggja vaxtatekjur innan núverandi skattkerfis sé einfaldari og betri. Það er fróðlegt ef menn gera samanburð á skattkerfunum annars vegar á Íslandi og hins vegar úti í Evrópu að í vel flestum OECD-ríkjunum eru vaxtatekjur felldar að venjulegum launatekjum og þær skattlagðar með sama hætti. Vegna þess að hæstv. utanrrh. opinberaði visku sína í gær og fór nokkrum orðum um þetta og taldi að þessu væri á annan veg farið vísa ég til þess að á bls. 9 í greinargerð með frv. formannanna þriggja er þetta rakið. Þar kemur fram að einungis tvö lönd munu e.t.v. vera með hagstæðara kerfi fyrir fjármagnseigendur en Ísland og það eru Tyrkland og Grikkland. Það eru löndin þar sem fjármagnsflóttinn mun væntanlega verða til samkvæmt því sem stjórnarandstaðan sagði í gær.

Herra forseti. Ég varð hissa á ræðu hæstv. fjmrh. hér í gær. Það má auðvitað vel vera að hann hafi ekki til að bera sömu heiðríkju hugans og endranær. Kannski er hann farinn að máta sig við margæsirnar á túninu suður á Álftanesi en ég varð satt að segja mjög undrandi á því að hlýða á þann ágæta dreng fara í gær með það sem mér þóttu vera margvíslegar rangfærslur. Ég vil í stuttu máli, herra forseti, fara yfir þrenns konar rangfærslur sem ég hnaut um í máli hæstv. fjmrh. og tvær þeirra alvarlegar.

Í fyrsta lagi gerði hann því skóna að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og Alþfl. væru að slíta sundur friðinn. Það hefði náðst víðtækt samkomulag. Hæstv. fjmrh. sagði að í tíð fyrri ríkisstjórnar hefði verið sett niður nefnd sem hefði haft það veganesti að leggja til 10% nafnvaxtaskatt. Þetta er alls ekki svo. Árið 1993 var að sönnu sett á laggirnar nefnd, að undirlagi hæstv. fjmrh., og í henni áttu sæti t.d. formaður þingflokks Alþfl., hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Sú nefnd lognaðist út af. Sú nefnd hafði það ekki í veganesti að það ætti að setja 10% flatan skatt á vaxtatekjur, síður en svo. Það var hins vegar stefna Alþýðusambands Íslands en nefndin lognaðist út af vegna þess að það var Alþfl. sem lagðist gegn þeirri útfærslu. Alþfl. hefur þess vegna verið fullkomlega samkvæmur sjálfum sér um þetta efni. Hæstv. fjmrh. veit líka að í tíð síðustu ríkisstjórnar var gerð tillaga um það í tengslum við kjarasamningana í desember 1994 að setja á laggirnar aðra nefnd sem átti að véla um þetta. Þar kom aldrei fram að sú nefnd ætti að vinna að því að koma á fót 10% flötum vaxtatekjuskatti og það kom aldrei fram að forusta Alþfl. styddi það mál. Hún hefur aldrei gert það, herra forseti.

Hvað hefur breyst? Hæstv. fjmrh. notaði stór orð. Kallaði formann Alþfl. umskipting. En hver er umskiptingurinn í málinu? Hæstv.fjmrh. sagði: Er þetta sami Jón? Ég get svarað hæstv. fjmrh. Þetta er sami Jón Baldvin Hannibalsson og flutti nákvæmlega sömu mál í tíð síðustu ríkisstjórnar. En hvað hefur breyst? Tillagan um 10% flatan skatt er í sjálfu sér allt í lagi. Við könnumst við þá tillögu. Það var hugmynd sem kom upp í tíð síðustu ríkisstjórnar, að vísu í andstöðu við hæstv. fjmrh., en það sem hefur breyst er að þá var ekki lagt til að lækka skatta á stærstu fjármagnseigendur, þá sem hafa tekjur af söluhagnaði, af gengishagnaði, af afföllum eða arði. Hæstv. fjmrh. lagði það aldrei til í tíð síðustu ríkisstjórnar og hann hefur aldrei gert það fyrr en með þessu frv. Það er þetta sem hefur breyst, herra forseti, og það sem á ferli í gervi umskiptingsins er ekki hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson heldur hæstv. fjmrh. Ef einhver er umskiptingur þá er það hann vegna þess að hann leggur til lækkun á skatti þeirra sem hafa mestar fjármagnstekjur og hann gerði það aldrei áður. Það var aldrei til umræðu þegar við áttum saman tiltölulega góða samvistardaga á ríkisstjórnarbekknum. Þetta kom aldrei upp eins og ég veit að hæstv. fjmrh. er drengur nógur til að staðfesta hér á eftir.

Ýmsir stjórnarliðar töluðu um óheiðarleg vinnubrögð af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem sátu í frægri fjármagnstekjuskattsnefnd. Það var hv. þm. Árni M. Mathiesen sem orðaði þetta ,,óheiðarleg vinnubrögð``, að vísu ekki gagnvart þeim fulltrúa Alþfl. sem sat í nefndinni heldur af hálfu formanns Alþfl., sem væri að beita þennan fulltrúa sinn ofríki. Staðreyndin er hins vegar sú að það var ekki um það að ræða að þessi fullkomni friður ríkti sem hæstv. fjmrh. sagði í umræðunni í gær þegar hann sagði að nefnd allra þingflokka stæði að frv. Aftur og aftur kom þessi staðhæfing upp. Líka í máli formanns þingflokks Framsfl., Valgerðar Sverrisdóttur. Þess vegna er nauðsynlegt, herra forseti, að fara rækilega yfir nál. Hin kórrétta afstaða kemur fram í bókun sem fulltrúar fjögurra stjórnarandstöðuflokka skrifuðu undir. Þegar í byrjun bókunarinnar kemur fram að það voru uppi mörg álitamál. Þar kemur líka fram einlægur vilji þessara fjögurra fulltrúa að komið yrði á fjármagnstekjuskatti og það kemur fram að menn höfðu reynt að ná víðtækri samstöðu. Hins vegar segir orðrétt þar á eftir í bókuninni, með leyfi forseta: ,,Það er hins vegar sýnt að svo verður ekki.`` Það stendur þarna svart á hvítu. Samstaðan sem hæstv. fjmrh. segir að sé fyrir hendi er ekki til. Þetta er hrein og einber rangfærsla hjá hæstv. fjmrh. Það sést enn betur þegar menn halda áfram að lesa þessa bókun. Þar kemur fram að það var hæstv. fjmrh. sem lagði sitt lóð á vogarskál ósamkomulagsins með því að lýsa yfir í miðju nefndarstarfsins hver niðurstaðan ætti að verða. Er það einhver hemja, herra forseti, að setja menn í einlægni til verka og lýsa því síðan yfir löngu áður en vinnan er búin hver niðurstaðan á að verða? Auðvitað setti þetta strik í reikninginn, herra forseti. Það setti líka strik í reikninginn að hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. tóku upp sinn eigin fjármagnstekjuskatt fyrir síðustu jól þegar ríkisstjórnin lagði á sérstakan fjármagnstekjuskatt á ellilífeyrisþega og bótaþega almannatryggingakerfisins. Það tók gildi um síðustu áramót og að sjálfsögðu mætti þetta andstöðu m.a. þeirra fulltrúa sem sátu í nefndinni og er tekið hér sérstaklega fram í bókuninni. Það kemur líka fram, herra forseti, í bókun fjórmenninganna að þau benda á ýmsar aðrar leiðir sem kæmu til greina við álagningu fjármagnstekjuskatts en þær sem ríkisstjórnin leggur fram núna.

Nefndin segir orðrétt um þá leið tvískipts tekjuskattskerfis sem farin er með frv., með leyfi forseta: ,,Slík aðgerð leiðir til ákveðinnar mismununar og óréttlætis.`` Síðan segir enn, með leyfi forseta: ,,Sú leið sem hér er lagt til að farin verði er að mörgu leyti gölluð.`` Til að hnykkja á þessu þá segja fjórmenningarnir líka ,,verði hún að veruleika þá sé hún til bráðabirgða``, aðeins til bráðabirgða og gildi einungis um skamma hríð. Það er því alveg ljóst að hér eru fjölmargir fyrirvarar. Þá hlýtur það að vera rétt sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir lagði sérstaka áherslu á í máli sínu hér í gær að þingmenn þessara flokka voru óbundnir af áliti nefndarinnar. Það er líka rétt að það komi fram að eitt af því sem er umdeilanlegt og hefur verið deilt um í þessum umræðum er frítekjumarkið. Við í stjórnarandstöðunni höfum bent á að það skortir frítekjumark hjá stjórnarliðinu. Það leiðir til þess að jafnvel þeir sem lægstar tekjur hafa, jafnvel þeir sem hafa neikvæðar vaxtatekjur, eru að greiða tekjuskatt af vöxtunum. Það kemur auðvitað ekki til greina. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir benti að vísu á að það væri undinn svolítill bugur að þessu ákvæði með því að ónýttur persónuafsláttur væri notaður sem frítekjumark. Eigi að síður segja nefndarmennirnir það skýrt og skorinort í bókun sinni að þeir séu ekki ánægðir með það hversu stutt skref er tekið varðandi frítekjumarkið þó þau fallist á að nýting frítekjumarksins sé skref í rétta átt. Þau segja líka að það sé umdeilanlegt að lækka skatthlutfallið á arðgreiðslum sem er eitt af því sem stjórnarandstaðan hefur sett hornin hvað gerst í. Það er því náttúrlega alveg ljóst, herra forseti, að það er engin spurning um það að þeir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sem sátu í þessari nefnd höfðu uppi fulla fyrirvara. Allar ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð, herra forseti, ganga því ekki.

Svo ég haldi aðeins áfram að finna að við hæstv. fjmrh. þá sæmir honum ekki að vera með útúrsnúninga eins og hann var með í gær þegar hann var að reyna að koma höggi á þá sem töluðu hér af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði að það væri verið að hygla hinum betur stæðu. Hæstv. fjmrh. kom hins vegar og barði sér á brjóst eins og krossfari og sagði að þetta væri röng staðhæfing af hálfu formanns Alþfl. Hann væri ekki þannig maður að hann ætlaði sér að hygla hinum betur stæðu. Hann vísaði til skýrslu nefndarinnar á bls. 42, þar sagði hann að þetta kæmi auðvitað fram vegna þess að fulltrúar stjórnarandstöðunnar þeir hefðu tekið undir eftirfarandi: ,,... munu tekjuháir einstaklingar greiða mun hærri skatt en hinir tekjulægri.`` Þetta stendur í skýrslunni. Þetta segir hins vegar alls ekki að það sé ekki verið að hygla hinum betur stæðu. Þrátt fyrir þetta er alveg ljóst að það er verið að lækka skattgreiðslur þeirra sem hafa haft háar tekjur vegna arðgreiðslna, vegna söluhagnaðar, gengishagnaðar o.s.frv. Ef hæstv. fjmrh. hefði lesið lengra yfir á næstu blaðsíðu hefði blasað við augum hans eftirfarandi setning sem segir allt sem segja þarf, með leyfi forseta: ,,Enn fremur dregur breytt skattlagning arðs- og söluhagnaðar úr skattbyrði hinna tekjuhærri.``

Þarf frekari vitnanna við? Þetta sannar að það sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþfl., sagði hér í gær var auðvitað rétt. Það er verið að hygla hinum efnameiri á kostnað hinna.

Herra forseti. Það er auðvitað margt fleira sem má nota til að benda á að stjórnarandstaðan hafði fullan rétt til að koma með alvarlegar brtt. við þetta frv. Eitt af því sem er t.d. ekki minnst á í nál. og í greinargerð ríkisstjórnarinnar eru sveitarfélögin. Það er þannig, herra forseti, að ég vil alltaf taka rökum og ég hef margoft skipt um skoðun vegna sannfæringarkrafts hæstv. fjmrh. en mig langar til að spyrja hann: Hvar segir það í greinargerð ríkisstjórnarinnar að verið sé að stórdraga úr tekjum sveitarfélaga og auka álögur á þær? Hvar kemur fram í þessu að það sé verið að svipta sveitarfélögin verulegum tekjum?

Herra forseti. Það vill svo til að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur farið hörðum orðum um þessar tillögur. Það hefur bent á að sveitarfélögin munu sennilega tapa vel yfir 200 millj. kr. ef frv. verður samþykkt óbreytt. Þarna er annars vegar um að ræða árlegt tekjutap vegna lækkunar á útsvarsstofni ef skattskyldar arðgreiðslur, söluhagnaður og húsaleigutekjur eru fluttar úr þeim stofni og þetta nemur að þeirra mati alls 133 millj. kr. Hins vegar munu þau auðvitað þurfa að borga skatt, flatan skatt 10% af þeim 750 millj. sem þau hafa í vaxtatekjur, það eru 75 millj. kr. Þarna erum við komin á þriðja hundrað millj. kr. sem sveitarfélögin þurfa að greiða. Nú er það svo, herra forseti, að vegna skattfrelsis lífeyrisiðgjalda, vegna hækkunar tryggingagjalds er þegar búið að valda þeim 700 millj. kr. árlegu fjárhagstjóni að þeirra eigin mati. Þetta kemur til viðbótar. Hvað segir hæstv. félmrh., Páll Pétursson, við þessu?

[11:00]

Ég held reyndar að tekjutap sveitarfélaganna verði miklu meira, jafnvel um hundruð milljóna, vegna þess að sveitarfélögin hafa líka haft tekjur af einstaklingum sem eru í atvinnurekstri. Ef þeir hins vegar breyta sínu rekstrarformi, verða lögaðilar, verða ehf. eða hf., þá tapa sveitarfélögin tekjum þarna sem gætu numið hundruðum millj. Ég hef ekki haft tóm til að reikna það út en mér fróðari menn leiðrétta mig ef ég fer hér með rangt mál.

Herra forseti. Það er margt fleira sem ég gæti sagt um þetta. En ég vil að lokum aðeins segja að af öllum þeim ræðum sem hér voru fluttar í gær fannst mér bara ein setja hnífinn í tillögur stjórnarandstæðinga og það var ræða hv. þingmanns Árna M. Mathiesens. Hann flutti greinargott yfirlit og færði rök að því að frv. gæti leitt til þess að vextir á Íslandi mundu hækka, því að það kynni að verða einhver fjármagnsflótti og það gæti farið svo að þetta mundi með einhverjum hætti skerða svigrúm atvinnulífsins. Hann benti á að það væri líklegt að vaxtaskattur mundi draga úr sparnaði, það mundi auka þar með eyðslu og þenslu og koma niður á hinum almenna borgara. Hann taldi líka að ef við ætluðum að hækka verðið á vörunni fjármagn, þ.e. að þeir sem selja vöruna þyrftu að fá meira fyrir hana, mundi sá kostnaður skiptast á milli lántakenda og lánveitenda og það mundi að einhverju leyti auka skatta. Ég hygg að þetta sé alveg rétt hjá hv. þm. og þetta eru mál sem þarf að skoða. En það sem var punctum saliens í ræðu hv. þm. og ég geri að mínum lokaorðum er þetta: Hann sagði að hið sama gilti um frv. ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað mál sem þarf að skoða verulega vegna þess að ég gat ekki skilið hv. þm. betur en svo að hann væri líka á móti því.