Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:06:53 (4945)

1996-04-18 11:06:53# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Síðustu orð hv. þm. voru þessi: Í hans eigin greinargerð. Í hvað var hv. þm. að vitna? Í greinargerð nefndar þar sem varaformaður Alþfl. átti sæti en ekki varaformaður Sjálfstfl.

Í fyrsta lagi vil ég taka fram að viðræður á milli ríkis og sveitarfélaga standa yfir ekki bara einn dag á ári heldur er um sífelldar viðræður að ræða, síðast núna vegna yfirfærslu grunnskólans. Það er því ekkert óeðlilegt við það að teknar séu upp viðræður eftir að frumvörp koma fram. Það hefur ætíð tíðkast, líka í þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. átti sæti í.

Í öðru lagi vil ég taka fram að ég hef varið og flutt frv. sem var málamiðlunarniðurstaða nefndar sem fulltúar allra þingflokkanna áttu sæti í. Ég hef talið það vera skyldu mína en ég hef jafnframt bent á að það væri ekki óeðlilegt að það frv. tæki síðan breytingum í þinginu. En það að flytja nýtt frv. af hálfu þriggja stjórnmálaflokka hljóta að vera undarleg vinnubrögð.

Loks vil ég segja, vegna þess sem hv. þm. sagði, að það var enginn maður rekinn úr nefndinni. Það er alrangt. Ég veit að hv. þm. sem er námfús og fljótur að læra hefur áreiðanlega heyrt einhverja aðra þingmenn halda þessu fram, sjálfsagt formann sinn, en þetta er rangt. Það var enginn maður rekinn úr nefndinni eða beðinn um að fara úr henni. Þetta vildi ég að kæmist alveg skýrt til skila.