Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:15:23 (4949)

1996-04-18 11:15:23# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:15]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu annað af tveimur frv. sem lögð hafa verið fram um skattlagningu á fjármagnstekjur. Ég ætla í upphafi að víkja nokkuð að grundvallaratriðum sem snúa að þessari skattlagningu. Í sjálfu sér er ég ekki mótfallinn skattlagningu á fjármagnstekjur. Það sem skiptir mestu máli er það á hvaða tímapunkti slík skattlagning fer fram og hvernig hún er gerð. Það er ekkert nýtt mál að hér sé verið að tala um skattlagningu á fjármagnstekjur. Í ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds í gær kom fram að allt frá árinu 1979 hafa menn verið að hugleiða þetta. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar vann í þessu máli á árunum 1988--1991 og birti um það skýrslur. Ég hygg að sú ríkisstjórn hafi haft áhuga á því að setja á fjármagnstekjuskatt en flokkarnir sem mynduðu þá ríkisstjórn voru misviljugir til þess og að þeirra eigin sögn strandaði það mál á afstöðu Alþfl. til fjármagnstekjuskatts og þá kannski ekki síst á afstöðu eins ráðherra þeirrar ríkisstjórnar. Ástæðan fyrir því að menn hafa glímt lengi við þetta vandamál er fyrst og fremst sú að fjármagnstekjuskattur í þjóðfélagi þar sem sparnaður er mjög takmarkaður er afar flókið og erfitt viðfangsefni að glíma við. Það er mjög erfitt að sjá fyrir afleiðingar fjármagnstekjuskattsins og ef við lítum til þeirra frv. sem nú hafa verið lögð fyrir Alþingi, þá á það við um bæði frv. að það er mjög erfitt að sjá fyrir afleiðingar þeirra á sparnaðinn, á stöðu einstaklinganna og á stöðu atvinnulífsins. Frv. formannanna sem svo hefur verið kallað er að allri uppbyggingu miklu flóknara frv. en stjfrv. Áhrif formannafrv. á atvinnulífið, þ.e. í gegnum áhrif á sparnaðinn í landinu eru þó fyrirsjáanlegri en áhrif stjfrv. Neikvæð áhrif frv. formannanna á sparnaðinn eru augljós og það er hægt að leiða mjög sterk rök að því eins og ég mun gera á eftir.

Hitt er svo annað mál að menn hafa ekki veitt því mikla athygli í þessari umræðu að sparnaðurinn á Íslandi einkennist af því að og meiri hluti sparnaðarins er í höndum lífeyrissjóðanna. Það stendur ekki til að leggja fjármagnstekjuskatt á lífeyrissjóðina. Það þýðir með öðrum orðum að meiri hluti fjármagnsins, sparnaðarins í landinu, verður undanþeginn þessum skatti. Sá sparnaður verður enn þá virkur á fjármagnsmarkaðnum en hann mun ekki þola áhrif skattlagningarinnar. Áhrif þessa munu koma með ýmsum hætti fram á fjármagnsmarkaðnum. Ég mun víkja að því á eftir og benda á að einmitt þetta atriði getur dregið úr vilja stjórnvalda að láta þennan 10% skatt verka til stuðnings við atvinnulífið.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem snerta frv. tvö því þótt annað þeirra sé eingöngu hér til umræðu þá tengjast þau það náið að það er óhjákvæmilegt. Fyrir það fyrsta þá eru bæði frv. þannig uppbyggð að þau eru byggð á nafnvaxtaskatti. Þetta er að sjálfsögðu dulargervi vegna þess að skattlagning á nafnvexti setur mál í þann farveg að raunverulega skattbyrði er ómögulegt að sjá fyrir. Hún er afar háð verðbólgu. Verðbólga getur haft megináhrif á það hvort skatthlutfallið er hátt eða lágt. Ég skal nefna dæmi um þetta. Ef við lítum á áhrif verðbólgunnar á frv. ríkisstjórnarinnar um 10% skatt á fjármagnstekjur og miðum við það vaxtaform sem algengast er nú, þ.e. annars vegar 3% raunvexti í bankakerfinu og hins vegar svona tæplega 6% raunvexti eins og eru t.d. í húsbréfakerfinu núna, þá þýðir skattlagning sparnaðarforms sem ber 3% raunvexti í 0%--5% verðbólgu, að skatthlutfallið er í raun 10% til 25,7%. Ef verðbólgan fer upp í 10% þá er skatthlutfall ríkisstjórnarfrv. 40%, hvorki meira né minna.

Ef við lítum hins vegar á raunvexti sem eru, við skulum segja bara 5%, þá verður skatthlutfallið og byrðin í verðbólgu sem er frá 0%--10%, frá 10% upp í 28%. Þetta er það sem máli skiptir ef menn vilja meta áhrifin sem frv. ríkisstjórnarinnar kemur til með að hafa á sparnaðinn í landinu.

Ef við lítum hins vegar á áhrifin sem verðbólgan kemur til með að hafa á frv. formannanna þá eru afleiðingar þess frv. miklu alvarlegri. Það hafa komið fram mjög sterk rök fyrir því að í raun þýði frv. formannanna 25% skatt á nafnvexti. Spurningin er þá: Hver verða áhrifin á raunvextina miðað við mismunandi verðbólgustig? Þá er það svo að eftir verðbólgu er um að ræða í frv. þremenninganna raunverulegan skatt, þ.e. skatt á raunvexti sem eru á bilinu 36%--100%. Skatthlutfallið nær 100%. Það fer að sjálfsögðu eftir verðbólgustiginu. En sé miðað við 2,75% verðbólgu og raunvexti sem eru um 1% þá nálgast skatthlutfallið 100%. Ef við tölum hins vegar um þessi tvö vaxtastig sem ég nefndi áðan, 3% raunvexti og 6% raunvexti, þá er skatthlutfallið í 2,75% verðbólgu annars vegar á 3% raunvextina 47,68% hlutfall og í hinu tilfellinu þegar um 6% raunvexti er að ræða þá er það 36,44% skatthlutfall. Þetta þýðir það í raun og veru að byrðin sem fjármagnseigendur koma til með að bera af þessum skatti er afar þung. Byrðin er svo þung að það er alveg augljóst mál að þetta skattaform, hvort sem við förum þá leið sem í stjfrv. er farin eða í frv. formannanna, hefur afgerandi áhrif á sparnaðinn í landinu. Og frv. þremenninganna hefur miklu alvarlegri áhrif á sparnaðinn heldur en frv. stjórnarinnar.

Við getum sagt sem svo að það orki mjög tvímælis hvort frv. ríkisstjórnarinnar um 10% skatt á fjármagnstekjur leiði til þess. Ég tel að það sé mikil hætta á því að frv. ríkisstjórnarinnar leiði til fjármagnsflótta úr landinu. En ég tel hins vegar að það sé gefið mál að frv. formannanna leiði til fjármagnsflótta úr landinu vegna þess að skattlagningin á raunvextina er of há.

Það sem skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli í þessu sambandi er að menn átti sig á því að sparnaðurinn í landinu hefur mjög mikil áhrif á stöðu fyrirtækjanna. Það er einmitt þess vegna sem ríkisstjórnarfrv. gerir ráð fyrir því að lækka skatt á arðgreiðslur á sama tíma. Það er til þess að tryggja það að atvinnulífið eigi aðgang þessum sparnaði um leið og sú áhætta er tekin að sparnaðurinn dragist saman í þjóðfélaginu og atvinnulífið eigi ekki aðgang að þessum sparnaði með sama hætti og áður. Þetta er sú tenging sem þar er um að ræða. Hv. 11. þm. Reykn., Ágúst Einarsson, benti á að það ætti að tala skýrt og skorinort og tala um það í hvaða tilgangi þetta frv. ríkisstjórnarinnar væri lagt fram, því það væri beinlínis lagt fram í þeim tilgangi að lækka skattlagningu á arðgreiðslur. Það er ekki rétt. Þetta er hliðarráðstöfun sem skýrist á þann hátt að menn taka áhættu fyrir sparnaðinn í landinu með því að leggja á þennan fjármagnsskatt og það er verið að reyna að mæta þeirri áhættu með því að reyna að koma til móts við þarfir atvinnulífsins fyrir fjármagn.

Hins vegar ber að geta þess að í frv. formannanna er skattlagning á fjármagnstekjur tengd beint tekjuskattskerfinu. Það eru engar sérstakar ráðstafanir gerðar fyrir atvinnulífið. Og hvað þýðir þetta? Það þýðir að við ætlum hér að leggja einn þyngsta skatt á fjármagnstekjur sem um getur og þekkist í Evrópu. Það er hvergi í Evrópu annars staðar lagður svo hár skattur á arðgreiðslur. Stefnan hjá OECD-ríkjunum í þessum efnum er að vísu mjög misjöfn en það er hvergi annars staðar en á Íslandi lagt til að fjármagnstekjur beri 42%--47% skatt. Þannig að menn geta nú ímyndað sér þegar talað er um það hjá öðrum þjóðum að fjármagnstekjuskattur sem er á bilinu kannski 20%--22% leiði til fjármagnsflótta, hvaða áhrif hafi þá fjármagnstekjuskattur sem er á bilinu 42%--47% án þess að nokkrar hliðarráðstafanir séu gerðar fyrir atvinnulífið. Þetta er svo augljóst mál að það er ekki hægt annað en að horfa til þess.

Hér hefur verið sagt að það sé almenn regla að fjármagnstekjur séu skattlagðar. Það er ekki svo að það sé nein almenn regla. Það helst mjög í hendur við sparnaðinn sem næst í hverju þjóðfélagi. Tökum t.d. Bandaríkin sem eru þekkt fyrir það að þar er sparnaður mjög lítill öfugt við t.d. Þýskaland þar sem sparnaðurinn er mjög hár. Bandaríkin hafa ekki skatt á fjármagnstekjur. Þeir hafa á núll-skatt á vaxtatekjur og arðgreiðslur en það helst að sjálfsögðu í hendur við að það er verulegt vandamál í Bandaríkjunum hversu sparnaður er þar lítill. Skuldastaða Bandaríkjanna, svo hún sé tekin inn í dæmið, er einkum og sér í lagi hættuleg. Þó hún sé í raun og veru mun minni en annarra þjóðfélaga í OECD-ríkjunum, þá er hún mjög hættuleg vegna þess hve sparnaðurinn er þar lítill. Það eru allmörg ríki sem ekki taka inn vexti á fjármagnstekjur.

Það sem má því segja að hægt sé að finna þessum tveimur frv. til foráttu er að þau vega bæði að sparnaðinum í landinu. Ég tel að ríkisstjórnarfrv. vegi alveg sérstaklega að sparnaði smærri sparifjáreigenda. Ég tel að frv. flokksformannanna þriggja vegi að sparnaðinum í landinu í heild. Það mun rýra þennan sparnað og sú þróun hefur augljóslega aðeins tvennt í för með sér. Annars vegar þrengir hún að atvinnulífinu og hins vegar hækkar hún vexti. Og hvað þýðir það ef þessi ráðstöfun hefur í för með sér vaxtahækkun? Hún þýðir að staða skuldara í þjóðfélaginu stórversnar. En það er ekki tilgangur þessa frv. að gera það. Ég held að það sé augljóst að þessi frv. bæði munu hafa áhrif í þjóðfélaginu langt umfram það sem tilgangurinn er og ég er sannfærður um að við sjáum mjög illa til botns í þessu máli. Það er mjög erfitt að átta sig fyllilega á afleiðingum þessara tveggja frv. en þó eru fyrirsjáanlegustu afleiðingarnar þær að þau munu draga úr sparnaði og þau munu hækka vexti.

Aðeins til þess að undirstrika hversu veikar forsendur frv. eru þá langar mig til þess að fara örlítið inn á þá meginröksemd í frv. ríkisstjórnarinnar að það muni bæta úr stöðu atvinnulífsins. Mig langar aðeins til þess að víkja ögn að því.

[11:30]

Auðvitað er það höfuðgalli á frv. formannanna þriggja að það leggur þungar álögur á sparnaðinn en tekur ekkert tillit til þess að það þarf að gera hliðarráðstafanir gagnvart atvinnulífinu um leið. En lítum nú á frv. ríkisstjórnarinnar og sjáum á hvern hátt það er ekki gefið að það laði fram fjárfestingu fjármagnseigenda í atvinnulífinu. Þar kemur til þess, sem ég minntist lítillega á áðan, að menn horfa fram hjá þeirri meginstaðreynd að þeir aðilar sem eiga mest sparifé hér á landi eru lífeyrissjóðirnir og lífeyrissjóðirnir verða skattfrjálsir eftir þessa álagningu skattsins eins og öllum er kunnugt. Og það gildir um bæði frv. Stærsti fjármagnseigandinn sleppur með öðrum orðum við skattinn. Skattafrumvörpin bæði eru því algjörlega hlutlaus gagnvart stærsta fjármagnseigandanum og breyta ekki í nokkru skattalegri stöðu hans. Ef skattur ríkisstjórnarfrv. virkar í raun og veru sem hvati á fjármagnseigendur sem bera skattinn, þ.e. ekki lífeyrissjóðirnir heldur fjármagnseigendurnir sem bera skattinn, minni hluti þeirra sem hafa fjármagn með höndum, til kaupa á hlutabréfum leiðir það að sjálfsögðu til þess að kaup á hlutabréfum aukast. Það þýðir að sjálfsögðu samkvæmt lögmálum markaðarins að arðsemiskrafan til hlutafélaganna, fyrirtækjanna, lækkar. Hvaða áhrif hefur það á viðhorf lífeyrissjóðanna til þessara fyrirtækja? Lífeyrissjóðirnir hafa lítinn þátt tekið í atvinnuuppbyggingunni. Haldið þið að það hvetji lífeyrissjóðina til að fjárfesta í atvinnulífinu ef arðsemiskrafan lækkar? Að sjálfsögðu ekki. Það beinir athygli lífeyrissjóðanna að öðrum möguleikum hvort sem þeir eru innan lands eða ekki. Þetta er því ekki einu sinni gefið. Menn verða að skoða að það er ekki gefið að frv. ríkisstjórnarflokkanna leiði til þess að helstu fjármagnseigendurnir auki fjárfestingu sína í atvinnulífinu. Það getur beinlínis leitt til þess að ef venjulegir fjárfestar, almenningur, beinir athygli sinni að atvinnulífinu af skattalegum ástæðum þá hafi lífeyrissjóðirnir sömu ástæðu til að beina athygli sinni frá þeim. Allt leitar þetta jafnvægis og sú staðreynd að lífeyrissjóðirnir eru skattfrjálsir í þessum efnum og eru stærsti hluti sparnaðarins hefur áhrif á þetta. Þetta er ekki hægt að sjá fyrir. Það er ekkert hægt að gefa sér í þessum efnum. Ég vildi því aðeins leyfa mér að benda á þetta. Ég er ekki að segja að þetta gerist með þessum hætti. Ég er að segja að það sé möguleiki á því að þróunin verði þessi.

Ef við lítum svo á það atriði frv. formannanna þriggja sem lýtur að því að hlífa smásparifjáreigendum þá hlýtur það að byggjast á því og byggist að sjálfsögðu á því að leggjast einkum og sér í lagi á þá sem hafa meiri tekjur. Þeir eru væntanlega sá markhópur sem frv. þremenninganna ætlar sér að ná til. Þessi markhópur mun að sjálfsögðu leita leiða til að verjast þessum aðgerðum og hvaða leiðir eru færar til þess? Helstu leiðirnar til þess eru að flytja fjármagnið úr landi. Það þýðir að skattstofninn sjálfur er engin óbreytanleg stærð. Skattstofninn skreppur saman eins og alltaf gerist þegar um ofsköttun er að ræða. En það er líka til önnur aðferð til þess að bregðast við svona þungri skattlagningu. Hún er ekki sú að flytja peningana sína úr landi, hún er einfaldlega sú að eyða þeim. Þannig mun þessi þungi skattur, sem mun aðeins leggjast á minni hluta fjármagnsmarkaðarins, leiða til þess í fyrsta lagi að fjármagn mun leita úr landi. Það leiðir aftur á móti til þess að vextirnir hafa tilhneigingu til að hækka og í þriðja lagi mun það leiða til eyðslu.

Þetta er hluti af þeim vandamálum sem mig langaði til að færa inn í umræðuna. Ég hef sjálfur í mínum þingflokki ekki samþykkt að styðja þetta ríkisstjórnarfrv. Ég tel á því mjög alvarlega meinbugi, þó ekki eins alvarlega meinbugi og eru á frv. þremenninganna sem er til umræðu í dag. Það hefur komið skýrt fram í þingflokki Sjálfstfl. að ég hef frá upphafi haft þessa afstöðu og hún hefur ekki breyst við þessa umfjöllun um málið.