Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:40:19 (4954)

1996-04-18 11:40:19# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., Flm. JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:40]

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur komið fram sem nokkur efasemdar-Tómas í þessu máli en beitir afar hæpnum rökum. Í fyrsta lagi ber hann saman þessi frv. tvö og segir: Kostur stjfrv. er einfaldleikinn og samræmingin. Gallinn við það er hins vegar sá að það er verið að skattleggja neikvæða vexti og það er verið að skattleggja verðbótaþátt vaxta. Það hlýtur að teljast alvarlegur galli. Það eitt út af fyrir sig hefur meiri áhrif á hættuna á vaxtahækkun en flest annað. Í annan stað leggst þessi flati skattur á alla. Hv. þm. sniðgengur algjörlega að formannatillagan er í tekjuskattskerfi sem við erum með og þekkjum og það eitt út af fyrir sig er partur af því að hafa einfalda framkvæmd og þekkta. Ef menn vilja nota samræmingarrökin er náttúrlega einni spurningu ósvarað: Hvernig stendur á því, ef það á að samræma skattlagningu á allar fjármagnstekjur, að það er ekki gert í frv. stjórnarflokkanna? Það er verulegur skattstofn sem er utan við þeirra tillögur. Svo er hinn alþjóðlegi samanburður, hættan á fjárflótta vegna þess að þessi skattur sé svo ofurhár og þar fór hv. þm. villur vega í sínum tölum. Hvert ætla fjármagnseigendur að flýja? Til Bandaríkjanna kannski? Með 0-skatt? Nei. Almennt skattþrep á bankavexti í Bandaríkjunum er 22,5% prósent en hæsta skattþrep er 45,9%. Ætla þeir að fara til Danmerkur? 52,2%, 78,2%. Til Frakklands þar sem hv. þm. er staðháttum kunnugur, 27,1%, jaðarskatturinn 68,1%? Ætla þeir að fara til Kanada? Almennt skattþrep 41,5%, jaðarskatturinn 49,8%. Þetta er staðreyndin í þessum alþjóðlega samanburði og meira að segja hv. formaður Framsfl., endurskoðandinn, virtist greinilega ekki hafa um það minnstu hugmynd. Almenna reglan er sú að skattlagning fjármagnstekna er innan tekjuskattskerfis viðkomandi landa og frávikin frá því eru undantekningar. Sá skattur sem við erum að leggja til er sennilega sá fjórði eða fimmti lægsti af 24 ríkjum í OECD. Hvert ætla þeir að flýja? Til Grikklands eða Tyrklands og taka þá gengisáhættu sem því fylgir?