Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:47:11 (4957)

1996-04-18 11:47:11# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:47]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir meginmáli er hver raunveruleg skattprósenta er í þessu máli. Hún er ekki 11% heldur 25%. Þessi skattheimta er það þung. Hún mun leggjast það þungt á þá sparifjáreigendur sem hafa úr einhverju að spila að verulega mun draga úr sparnaðinum. (Gripið fram í.) Þessar hugmyndir eru þannig að þær eru settar fram að mínu mati í þeirri trú og þeirri sannfæringu að þær verða aldrei samþykktar. Þær eru settar fram sem blekking vegna þess að menn vita að þær verða aldrei samþykktar. Meginmálið var náttúrlega það að menn höfðu náð samkomulagi um 10% flata skattinn en síðan er það herbragð að setja fram þennan skatt sem er hægt að sjá fyrir að mun hafa mjög neikvæð áhrif á þjóðfélagið. Afstaða mín til frv. þremenninganna er því augljós. Ég mun greiða atkvæði gegn því frv. En afstaða mín til frv. ríkisstjórnarinnar er eins og ég lýsti hér áðan að ég tel að það frv., þótt illskárra sé, sé á þessum tímapunkti ekki líklegt til þess að ná þeim árangri að hlífa sparnaðinum í landinu, heldur mun það skaða hann og þar af leiðandi muni það hafa öfug áhrif við það sem ríkisstjórnin telur sig vera að vinna að.