Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 11:49:06 (4958)

1996-04-18 11:49:06# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[11:49]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Satt best að segja finnst mér að þessi umræða hafi til þessa aðallega leitt eitt í ljós. Það er að Sjálfstfl. virðist ætla að eyðileggja fjármagnstekjuskattsmálið. Hér hafa talað nokkrir þingmenn Sjálfstfl., síðast hv. þm. Tómas Ingi Olrich. Þar áður talaði t.d. hv. þm. Árni Mathiesen og þar áður við umræðu um þessi mál hv. þm. Guðjón Guðmundsson. Allir hafa þess menn í raun og veru lýst andstöðu við málið. Þegar maður skoðar líka vinnubrögðin í nefndinni sem rakin eru rækilega í bókun stjórnarandstæðinganna, þá er ekki hægt að líta öðruvísi á en þannig að Sjálfstfl. hafi ákveðið nauðugur að leggja af stað í þessa för. Hann hafi áttað sig á því að hann varð að koma einhvern veginn með málið inn í þingið en hann hafi reynt allt sem hægt hefur verið til að eyðileggja málið frá upphafi. Eitt af því er t.d. það að setja inn í nefndina hv. þm. Pétur Blöndal sem bersýnilega sat þar með handsprengjur í öllum vösum allan tímann sem nefndin var að störfum, gerði henni mjög erfitt fyrir og gerði allt sem mögulegt var til að tefja störf hennar. Og af því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er komin í salinn, þá vil ég spyrja hana spurningar: Gerði Sjálfstfl. henni grein fyrir því að a.m.k. þrír eða fjórir þingmenn Sjálfstfl. væru ekki hlutlausir heldur líklega á móti stjfrv.? Gerði Framsfl. sér það ljóst að hann yrði í þessu máli, ef það ætti að verða að lögum, að treysta á stjórnarandstöðuna eða lætur Framsfl. sér það í léttu rúmi liggja hvort þetta mál verður að lögum eða ekki? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fá svörin frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur: Var Framsfl. blekktur af íhaldinu í þessu máli eða ekki? Ég óska eftir því að hv. þm. svari skýrt í þessu efni hér á eftir vegna þess að það bendir margt til þess að af hálfu Sjálfstfl. sé um að ræða vísvitandi skemmdarverk í þessu máli eins og það hefur þróast til þessa. Það hefur afhjúpast með hverri ræðunni á fætur annarri af hálfu þingmanna Sjálfstfl. sem hafa í raun og veru talað á móti stjfrv.

Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt, hæstv. forseti, að rekja aðeins þann vanda sem stjórnarandstaðan í nefndinni stóð frammi fyrir. Það kemur mjög vel fram í bókuninni.

Í fyrsta lagi kemur þar fram að einstakir þingmenn stjórnarflokkanna lýstu því yfir á undirbúningsstigi málsins að þeir mundu verða á móti málinu. Það kom fram frá þeim nokkrum. Þeir gerðu sem sagt það sem þeir gátu til að trufla málið á undirbúningsstigi.

Í öðru lagi kom fram andstaða Sjálfstfl. og blekkingaleikur í þessu máli með því að hæstv. fjmrh. fullyrti í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 hverjar yrðu meginniðurstöður þeirrar nefndar sem þá var þó enn að störfum.

Í þriðja lagi kom blekkingariðja Sjálfstfl. og vinnubrögð hans skýrt fram þegar ákveðið var að leggja fjármagnstekjuskatt á ellilífeyrisþega og bótaþega almannatryggingakerfisins og að trufla þannig andrúmsloftið í kringum þetta mál í þeirri fjölflokkanefnd sem að því vann.

Í fjórða lagi verður að nefna það í þessu samhengi að í miðjum klíðum ákveður Sjálfstfl. að skipa aðra nefnd til að fjalla um málið, til að fjalla um tekjuskattskerfið í heild, þannig að það er bersýnilegt á þessum tíma að Sjálfstfl. gerði allt sem hann gat til þess að þreyta stjórnarandstöðuna, til að gera stjórnarandstöðunni erfitt fyrir við það verk að reyna að ljúka þessu máli. Þrátt fyrir það ákváðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni að skrifa undir nefndarálitið með allsherjarfyrirvara. Til hvers? Til þess að tryggja það að málið kæmist inn í þessa nefnd. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli að draga það fram að fyrirvari stjórnarandstöðuflokkanna sem er dagsettur 19. febrúar 1996 er allsherjarfyrirvari og þannig var hann samþykktur í þingflokki Alþb. og óháðra. Þetta er algerlega opinn fyrirvari um það að þingflokkurinn geti gert það sem honum sýnist við meðferð málsins á Alþingi og það hygg ég að eigi einnig við um Alþfl. og Þjóðvaka sem standa að þeim frv. sem hér eru til meðferðar líka.

Þetta vildi ég láta koma fram í fyrsta lagi um leið og ég mótmæli því hvernig Sjálfstfl. hefur hagað sér í þessu máli, reynt allt sem hann getur til þess að eyðileggja það og varpa rýrð á það starf sem unnið hefur verið að þessum málum.

Í öðru lagi, hæstv. forseti, vil ég vekja athygli á því að þetta frv. hv. þm. Péturs Blöndals og félaga er í raun og veru ekki um fjármagnstekjuskatt eingöngu. Frv. stjórnarflokkanna er ekki um fjármagnstekjuskatt. Þeir hafa reynt að blekkja í kringum þetta mál og segja: Þið hljótið að fylgja því að það verði lagður á fjármagnstekjuskattur. Þið getið ekki haft fyrirvara við frumvörp ríkisstjórnarinnar vegna þess að þið viljið leggja á fjármagnstekjuskatt. Og ég hef tekið eftir því að sumir stjórnarandstæðingar hafa látið undan í þessu máli og sagt sem svo: Jú, jú, jú, jú. Við viljum endilega leggja á fjármagnstekjuskatt. En veruleikinn í frumvörpunum er hver? Hann er sá að það er verið að leggja á fjármagnstekjuskatt að hluta til, en að hinu leytinu er verið að lækka stórkostlega skatta á fyrirtækjum og aðilum sem eru með tekjur af söluhagnaði, af arðgreiðslum og fleiri slíkum þáttum. Það er verið að smygla inn í frv. stjórnarinnar þáttum sem eru algerlega óviðkomandi vaxtatekjuskattsmálinu sem slíku. Ég vil segja það fyrir mitt leyti, hæstv. forseti, að ég væri tilbúinn til þess að skoða það mjög alvarlega að standa að því sem bráðabirgðaskrefi í þessu máli að leggja á vaxtatekjuskattinn sem slíkan, enda fylgi smyglgóssið ekki með, eins og það hefur verið kallað af einum hv. þm. hér, og verði tekið út úr málinu. Það er meginatriði, spurning sem ég hlýt að bera fram til fulltrúa stjórnarflokkanna hér eða annars staðar. Eru þeir tilbúnir til þess að taka fjármagnstekjuskattsmálið út úr stjfrv. og standa að því að gera það að lögum burt séð frá hinum sérstöku ívilnunum til fyrirtækjanna? Ég held að það sé nauðsynlegt að láta það koma mjög skýrt fram. Og ég vil láta það koma fram af hálfu míns þingflokks að við viljum standa að ákvörðun um fjármagnstekjuskatt en við kærum okkur ekki um að nota tækifærið í leiðinni til þess að afhenda fyrirtækjum og fjársterkum aðilum í þjóðfélaginu stórkostlega fjármuni frá því sem nú er þannig að það nemur mörg hundruð millj. kr.

Það er sem sagt erindi mitt númer tvö að undirstrika það að ég tel að menn eigi að ræða þetta í fullri alvöru: Eru menn tilbúnir til þess að breyta stjfrv. þannig að það fjalli bara um vaxtatekjuskatt? Er hv. þm. Pétur Blöndal, sem er aðalmaðurinn í þessu máli, leiðtogi málsins, faðir og móðir og allt í senn, er hann tilbúinn til þess að standa að því að taka út úr þessu máli eingöngu vaxtatekjuskattinn sem slíkan en láta aðra hluti eiga sig? Það er spurningin um það hvort menn vilja leggja á fjármagnstekjuskatt eða ekki.

Í þriðja lagi, hæstv. forseti, vil ég vekja athygli á því sem hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Ingibjargar Sigmundsdóttur í gær. Það er meðferðin á sveitarfélögunum. Staðreyndin er sú að þegar maður skoðar talnalega uppsetningu þessa máls, þá lítur hún einhvern veginn þannig út að það er gert ráð fyrir 900 millj. kr. í tekjur af vaxtaskatti einstaklinga. Síðan eru dregnar frá 100 millj. kr. vegna þess að persónuafsláttur er notaður til þess að vega upp þennan skatt hjá tilteknum hópi einstaklinga sem eiga ónýttan persónuafslátt. Síðan er gert ráð fyrir því að ríkið sjálft, sveitarfélög og líknarfélög og alls konar áhugafélög borgi 300 millj. kr. eins og stendur í nefndarálitinu sjálfu. Í þessari stöðu eru tekjurnar þá af fjármagnstekjuskattinum orðnar 1.100 millj. kr. Síðan er það þannig að breyting á skattlagningu söluhagnaðar og fleiri þátta lækkar tekjur ríkisins að mati nefndarálitsins um 200 millj. kr. þannig að nettóáhrifin af þessum tilfærslum eru talin vera í kringum 900 millj. kr. Af þessum 900 millj. er gert ráð fyrir því af ríkisstjórninni sjálfri, að ríkið og sveitarfélögin og félagasamtök borgi 300 millj. kr.

Hér kom fram í umræðunum í gær að Samband sveitarfélaga hefur mótmælt því sem að sveitarfélögunum snýr. Þar er talað um að hérna sé verið að auka skatta á sveitarfélögunum um 200--300 millj. kr. Það stendur hér reyndar: Á hinn bóginn mundu sveitarfélögin tapa árlega um 208 millj. kr. verði frv. samþykkt óbreytt. Annars vegar er um að ræða 133 millj. kr. í árlegt tekjutap vegna lækkunar útsvarsstofns ef skattskyldar arðgreiðslur söluhagnaðar og húsaleigutekjur verða fluttar úr þeim stofni og hins vegar árlegan útgjaldaauka í 75 millj. kr. ef vaxtatekjur sveitarfélaganna verða skattskyldar eins og gert er ráð fyrir í frv.

[12:00]

Ég hef aðeins haft aðstöðu til þess að kynna mér það hvaða áhrif þessar breytingar hafa á sveitarfélögin og ég fullyrði: Þær eru miklu meiri. Það virðist vera mjög sterk tilhneiging til þess á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga af eðlilegum ástæðum að taka mjög almenn meðaltöl í málum af þessu tagi. Ég er sannfærður um að ef Reykjavík yrði skoðuð sérstaklega þá er verið að veikja stöðu Reykjavíkur einnar um verulegan hluta af þessari fjárhæð, ég skal ekki segja hver talan er en hún er einhvers staðar í kringum 100 millj. kr. Það er stóralvarlegur hlutur ef það er þannig að menn ætli sér á sama tíma og verið er að velta grunnskólanum yfir á sveitarfélögin --- og það mál kemur reyndar til umræðu hér seinna í dag --- að þá ætli menn að skerða stöðu sveitarfélaganna um mörg hundruð millj. kr. Spurningin er sú: Ætla menn að standa við það? Eða ætla menn að endurgreiða sveitarfélögunum þennan þátt? Segja má að það beri vel í veiði þar sem varaformaður fjárln. er reyndur sveitarstjórnarmaður. Ætla stjórnarflokkarnir sér í raun að leggja þennan skatt á sveitarfélögin upp á 200--400 millj. kr? Hæstv. fjmrh. hefur sagt að það verði athugað. Hæstv. félmrh. hefur sagt að sennilega verði reynt að endurgreiða þessar upphæðir. Er það svo? Ef þessi upphæð verður að einhverju leyti endurgreidd eða að öllu leyti endurgreidd er niðurstaðan sú að eftir stæðu af þessum leiðangri, tvöföldu skattkerfi og öðru því, sennilega 500--600 millj. kr. Ég held að það sé nauðsynlegt að farið verði í mjög rækilega úttekt á þessu. Það sýnir hvað ríkisstjórnin hefur unnið þetta mál illa að hún skuli ekki hafa haft samband við skrifstofu Sambands íslenska sveitarfélaga áður en komið var að því að leggja fram frv. um þetta mál. Í þessum efnum væri ósanngjarnt að gagnrýna nefndina sem slíka því það er ekki hlutverk hennar að sjá um mál af þessu tagi heldur er það hlutverk fjmrn.

Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst býsna hart af fjmrn. að slengja þessu framan í sveitarfélögin á sama tíma og verið er að ræða við sveitarfélögin um flutning grunnskólans og m.a. er þar gert ráð fyrir því að ríkið borgi 265 millj. kr. með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna umfram reglulega tekjustofna en með þeim frv. sem ríkisstjórnin leggur fram um fjármagnstekjuskatt er verið að taka alla þessa fjármuni af sveitarfélögunum aftur. Það gengur ekki að koma fram við sveitarfélögin með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerir nú og hefur reyndar gert aftur og aftur. Þetta var atriði númer þrjú sem ég vildi ræða aðeins í minni ræðu.

Hæstv. forseti. Í fjórða lagi ítreka ég það sem kom fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds þegar hann talaði í þessu máli í gær. Það voru nokkur grundvallaratriði sem hann dró fram í ræðunni sem skipta mjög miklu máli fyrir þingflokk okkar að sé haldið mjög skýrt til haga. Fyrra atriðið er þetta þar sem segir í ræðu hv. þm. á þessa leið: ,,Þessi höfðinglega gjöf til þeirra sem eiga miklar eignir í hlutabréfum skyggir nánast á allt annað sem felst í frumvörpum stjórnarflokkanna því að þeir sem eiga mikið af hvoru tveggja, verðbréfum og hlutabréfum, vinna upp það sem þeir tapa á nýjum vaxtaskatti með lækkuðum skatti á arðgreiðslum og vel það því að margir munu stórhagnast á þessum skiptum.``

Þetta er grundvallaratriði og þetta er meginatriði í afstöðu flokks okkar og þingflokks til stjfrv. og er ein meginástæðan til þess að við ákváðum síðan að standa að því ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum að flytja sérstakt frv. undir forustu flokksformannanna sem er til umræðu núna.

Í öðru lagi undirstrika ég það atriði sem fram kom í lok ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds og er á þessa leið:

,,Frumvörp stjórnar og stjórnarandstöðu um fjármagnstekjur endurspegla gerólíkar stefnur í skattamálum á einkar skýran hátt og minna landsmenn um leið á nauðsyn þess að tekin sé hið fyrsta upp ný og réttlátari stjórnarstefna og skattalöggjöfin verði endurskoðuð í anda jafnaðar og sanngirni.``

Af hverju dreg ég þetta fram í lok ræðu minnar þar sem þetta kann að liggja í augum uppi? Ég geri það vegna þess að þegar t.d. flokkur eins og Framsfl., sem á sér að mörgu leyti félagslegar rætur, þegar aðilar úr verkalýðshreyfingunni hafa að einhverju leyti skrifað upp á þá aðferð sem hér er um að ræða finnst mér nauðsynlegt fyrir hönd þingflokks míns að hafa það alveg skýrt að við teljum að þær áherslur sem hér eru við að létta af skatta á fyrirtækjum séu ekki í samræmi við þau viðhorf sem við höfum í þessum efnum. Við teljum að þetta stangist í grundvallaratriðum á við þá jafnaðarstefnu sem við viljum framkvæma í skattamálum.

Hæstv. forseti. Ég hef rakið nokkur meginatriði. Í fyrsta lagi þykist ég hafa sýnt fram á að Sjálfstfl. hafi reynt allt sem hann gat til að eyðileggja þessi mál. Meðal annars með því að senda hv. þm. Pétur Blöndal í nefndina. Í öðru lagi fór ég rækilega yfir sveitarfélagamálin sérstaklega og ræddi það hvernig veist er að sveitarfélögunum og í þriðja lagi undirstrikaði ég grundvallaratriðin í stefnu þingflokks Alþb. og óháðra í þessum málum. Í fjórða lagi, og það var það sem ég reyndar spurði fyrst um, spyr ég aftur hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur: Var það þannig að hún gerði sér grein fyrir því að Sjálfstfl. léki tveimur skjöldum í þessu máli, að frv. væri í raun og veru ekki stjfrv. af því að það hafði aldrei verið borið upp í þingflokki Sjálfstfl. heldur væri þar fjöldinn allur af þingmönnum sem ætlaði að snúast gegn stjfrv.? Er það þannig, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin sem nú situr ætli í hverju máli á fætur öðru að treysta á að stjórnarandstaðan bjargi henni?

Í síðustu viku sat í skjóli stjórnarandstöðunnar í sjútvrn. hæstv. ráðherra, Þorsteinn Pálsson, bæði í kvótamáli og eins í trillumáli. Það virðist vera ætlunin núna að Sjálfstfl. ætli að leika áfram tveimur skjöldum í málinu, er bæði með málinu, móti því eða situr hjá eftir atvikum. Ég tel að það séu óheiðarleg vinnubrögð þegar Sjálfstfl. setur mál fram af þessu tagi og staðfesta auðvitað það að hann hefur verið með handsprengjur í öllum vösum allan tímann sem menn hafa reynt að nudda þessu máli áfram. En ég spyr hv. þm., formann þingflokks Framsfl., vissi hún af því að Sjálfstfl. iðkaði þennan blekkingaleik?