Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 12:12:32 (4961)

1996-04-18 12:12:32# 120. lþ. 122.3 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[12:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þm. Svavari Gestssyni að sú afstaða sem birtist hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal til sveitarfélaganna sé dæmigerð fyrir ríkisstjórnina. Ég held einfaldlega að það hafi komið fram í máli hæstv. fjmrh. að sveitarfélögin gleymdust og það er táknrænt fyrir vinnubrögðin í þessu máli. Hv. þm. reifaði mjög rækilega hvernig sveitarfélögin munu, ef frv. ríkisstjórnarinnar verður að lögum, tapa rösklega 200 millj. kr. Annars vegar vegna þess að ýmsir skattskyldir tekjuflokkar eins og arðgreiðslur, söluhagnaður og húsaleigutekjur verður flutt úr útsvarsstofninum og hins vegar vegna þess að vaxtatekjur sveitarfélaganna eru 750 millj. og verða þá skattskyldar um 75 millj. En ég held að þar fyrir utan séu aðrar skattasmugur í frv. ríkisstjórnarinnar sem munu leiða til verulegs taps sveitarfélaganna. Ég tel nauðsynlegt að halda því til haga í þessari upptalningu hv. þm. Svavars Gestssonar. Það er svo að samkvæmt skattasmugunum í frv. geta einstaklingar í atvinnurekstri breytt sér yfir í lögaðila, breytt sér yfir í ehf. og hf. og þá um leið veldur það því að sveitarfélögin tapa útsvarsstofni og ég held að þegar menn skoða þetta mál þá bætist við tap sveitarfélaganna vegna frv. ríkisstjórnarflokkanna sem nemur einhverjum hundruðum milljóna.