Skaðleg íblöndunarefni í bensín

Fimmtudaginn 18. apríl 1996, kl. 13:48:35 (4968)

1996-04-18 13:48:35# 120. lþ. 122.91 fundur 254#B skaðleg íblöndunarefni í bensín# (umræður utan dagskrár), GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[13:48]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. umhvrh. um þetta málefni. Mér er ljóst að ég ætti e.t.v. einnig að beina spurningum til hæstv. heilbrrh. og hæstv. viðskrh. en þeir ráðherrar hafa að sjálfsögðu tækifæri til að svara því sem heyrir til þeirra undir þessu umræðuformi.

Það var nýlega tekin ákvörðun um að hætta sölu blýbensíns hér á Íslandi og selja þess í stað íblöndunarefni í bensín þeim bifreiðaeigendum sem eiga bifreiðar með vélar sem ekki ganga á blýlausu bensíni. Þessi efni sem menn verða að blanda í bensín við hverja áfyllingu í réttum hlutföllum eru síðan geymd í farangursrými bifreiða. Þau eru að líkindum skaðleg efni, ekki einungis hvað það varðar að þau skemmi þéttingar í bensínkerfum bifreiða og valdi sprengi- og eldhættu heldur geta þau einnig verið skaðleg og hættuleg heilsu manna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að rifja upp umræðu þegar tekin var ákvörðun um að setja hvarfakúta í allar bifreiðar, en t.d. á Bretlandi er slíkur búnaður enn gagnrýndur harkalega og í ljós hafa komið alvarlegir ágallar og vandamál þeim tengd. Má t.d. nefna kostnað fyrir ríki, bifreiðaverkstæði og eigendur bifreiða vegna mælitækja og endurnýjunar búnaðarins. Það er raunar skammt síðan kostir og gallar hvarfakúta voru ræddir í íslensku heilsublaði nýlega og í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum. Það sem er mjög alvarlegt við ákvörðun um að hætta að selja blýbensín er aukning krabbameinsvaldandi efna, t.d. bensens, í andrúmslofti og einnig hugsanleg tengsl milli þessara efna og lungnasjúkdóma. Ég vil nefna það sem dæmi að á Íslandi var bensínotkun árið 1994 136 þús. tonn. Spá fyrir árið 2000 gerir ráð fyrir notkun um 150.500 tonna. Með því að hætta notkun blýbensíns erum við að auka krabbameinsvaldandi efni í andrúmslofti um 40%. Eina ráðið sem ég veit gegn þessari aukningu er að taka í notkun svonefndan brennsluhvata sem getur minnkað þessi skaðlegu efni og að auki losað okkur við hvarfakút ef menn vilja það. Það er unnt að minnka arómatísk efni í bensíni úr 623 milligrömmum á rúmmetra niður í 85 milligrömm á rúmmetra ef notaður er brennsluhvati.

Eftir að hætt var sölu blýbensíns á Nýja-Sjálandi um síðustu áramót hefur um ein milljón bifreiðaeigenda þar neyðst til að nota 96 oktana bensín og orðið að nota umrædd íblöndunarefni. Á milli 1.700 og 1.800 kvartanir hafa borist vegna skemmda og leka í eldsneytiskerfum bifreiða. Um 1.000 aðilar hafa þegar fengið bætur frá olíufélögum að meðaltali um 250 dollara vegna viðgerðarkostnaðar. Það er talið að rekja megi um 56 tilvik eldsvoða í bifreiðum á Nýja-Sjálandi til þessara umræddu bætiefna og ákvörðun sem tekin hefur verið í framhaldi af því þar er að minnka þessi efni í íblöndun. Ég má til, með leyfi forseta, að vitna hér í nýsjálenskt blað þar sem vitnað er til orða forsætisráðherra Nýja-Sjálands, herra Bolgers, sem segir að ökumenn ættu að hætta notkun 96 oktana bensíns eftir að olíufélögum þar í landi tókst ekki að koma með viðhlítandi tryggingu fyrir notkun þess bensíns með íblöndunarefnum.

Enn er nokkuð eftir af því sem ég þarf að leggja fram sem rök fyrir þessu máli en ég mun geyma það og halda þá áfram í síðari hluta þess sem ég hef sem ræðutíma. En ég vil leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. umhvrh.

Þáltill. minni um notkun brennsluhvata var vísað frá umhvn. til afgreiðslu ríkisstjórnar 1995.

1. Hvað hefur verið gert varðandi þessa tillögu og hverjar eru niðurstöður umhvrn.?

2. Hafa verið gerðar ráðstafanir vegna vandamála sem munu vaxa vegna aukningar krabbameinsvaldandi efna í andrúmslofti út af því að hætt er notkun 92 oktana bensíns?

3. Hvaða athugun og rannsókn var gerð áður en leyfi var veitt til að hætta sölu á 92 oktana bensíni?

4. Hversu mikil verður aukning skaðlegra efna í andrúmslofti vegna þessarar ákvörðunar og hve mikið er reiknað með að þurfa að nota af bætiefnum vegna þessarar ákvörðunar? Hvað kostar þessi ákvörðun bifreiðaeigendur á Íslandi?

5. Er ríkisstjórnin í ábyrgð vegna þessa eða eru það olíufélögin sem verða ábyrg við skaða?

6. Ætlar umhvrn. að viðurkenna brennsluhvatann eins og umhverfisverndarstofnun í Bandaríkjunum hefur gert?